Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 23:01:06 (3128)

2001-12-12 23:01:06# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[23:01]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Það var alls ekki ætlun mín að snúa út úr fyrir neinum hér. Ég hef yfirleitt ekki lagt það í vana minn. Mér fannst hins vegar að sá ágæti hv. þm. sem ég vitnaði til hér í umræðunum væri aðeins að snúa út úr stefnu okkar sjálfstæðismanna í þessu málum. Við virðumst því misskilja hvert annað dálítið milli flokkanna eins og gengur.

Ég var einungis að vitna í einn ágætan foringja eða þáverandi foringja Samfylkingarinnar, sem ég veit nú reyndar ekki hvort er enn í flokknum. Hann hefur verið svona að melda sig við aðra flokka undanfarið. Hann er vanur maður í þeim efnum. Hann talaði á þeim nótum fyrir síðustu kosningar að af útgerðinni mætti hafa tugi milljarða og að leggja mætti af tekjuskatt einstaklinganna. Ég man þetta mjög glögglega. Síðan seig vindurinn smám saman úr þessu fram að kosningum. Þannig var það nú bara.

Að fyrningarleiðin sé samslags aðferð. Ég næ því nú ekki alveg. Ég fæ kannski betri útskýringu á því. Ég held að þegar hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir segir að útgerðarmenn séu vanir því ár eftir ár að bjóða í aflaheimildirnar þá er það nú bara ekkert svo. Það eru ekkert allir útgerðarmenn að standa í þessu kvótabraski fram og aftur. Fjölmargar, og ég hygg nú bara flestar, svona alvöruútgerðir í landinu eru ekki í þessu kvótabraski og veseni fram og aftur. Það eru ákveðnir aðilar í þessari stétt sem koma kannski óorði á kerfið með alls konar braski. En ég held að því fari víðs fjarri að útgerðarmenn almennt taki þátt í slíku.

Að Sjálfstfl. vilji að stjórnmálamenn taki ákvarðanir. Það sem var ákveðið hér er þetta lítils háttar gjald og er nú kannski ekki miklu meira en sjávarútvegurinn greiðir í dag í ýmis þjónustugjöld eins og við þekkjum öll og mun heita, ja hvað eigum við að kalla það, auðlindagjald, á næstunni. En það eru náttúrlega engar upphæðir neitt líkar því sem hér var talað um fyrir síðustu kosningar af Samfylkingunni.