Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 23:05:08 (3130)

2001-12-12 23:05:08# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[23:05]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði aldrei að það væri þingmaður Samfylkingarinnar sem lét þessi orð falla. Ég sagði að það væri einn af forustumönnum hennar. Bara af tillitssemi við þennan mann sem hér er ekki til að svara fyrir sig þá nefndi ég ekki nafn hans. En fyrst að hv. þm. biður svo ákaflega um það þá heitir þessi maður Ágúst Einarsson. Mér eru afskaplega minnisstæð ummæli hans fyrir síðustu kosningar. Hann komst síðan til mikilla áhrifa í Samfylkingunni og varð formaður framkvæmdastjórnar eða hvað nú apparatið heitir.

Að ég hafi verið að barma mér fyrir hönd útgerðarinnar þá fer því víðs fjarri. Ég vorkenni útgerðinni ekkert að borga þessi þjónustugjöld sem þeir hafa greitt og ég hef reyndar ekkert heyrt þá kvarta undan því sjálfa og veit ekki betur en þeir hafi bara fallist á það. Ég mundi hins vegar barma mér fyrir hönd útgerðarinnar og fyrir hönd íslenskrar þjóðar ef við ætluðum að leggja milljarða, marga milljarða, jafnvel tugi milljarða á þessa atvinnugrein, þessa undirstöðuatvinnugrein okkar Íslendinga. Það mundi bara slá hana af í einum hvelli.

Allir vita náttúrlega að það kæmi þyngst af öllum niður á landsbyggðinni, fyrst og þyngst þar. Þessar hugmyndir Samfylkingarinnar voru því algjörlega óraunhæfar og ég óska þeim til hamingju með að hafa skipt um gír og farið yfir í eitthvað annað sem nú heitir fyrningarleið. En ég spyr aftur: Hvað kemur næst?

Ég hef ekki haldið því fram að ekki ætti að láta útgerðina greiða þessi þjónustugjöld, alls ekki. Ég veit ekki betur en að um það sé ágætissátt við útgerðina í landinu. En milljarða eða tugmilljarða skattur á útgerðina, undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, er náttúrlega algjör firra, enda hafa menn sem betur fer fallið frá þeim hugmyndum.