Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 23:34:49 (3134)

2001-12-12 23:34:49# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[23:34]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Já, hv. þm. segir að stórir hlutir hljóti að vera á ferðinni þegar 12 milljarðar séu innheimtir með þessum hætti. En ég var að reyna að útskýra áðan að ég held að stærstur hlutinn af þessum leigukvóta sé að menn eru að leigja frá sér eina tegund og leigja til sín aðra. Og viðskiptin eru auðvitað frjáls, það er ekki hægt að bera saman skatt annars vegar og viðskipti með kvóta hins vegar. Menn eru væntanlega frjálsir að því að leigja til sín kvóta eða láta það ógert. En mönnum er það ekki frjálst ef það ætti að fara að leggja á útgerðina einhverja tugi milljarða í auðlindaskatt eins og Samfylkingin boðaði fyrir síðustu kosningar. Þá mundi það auðvitað lenda á öllum og gera út af við útgerðina í landinu, það er ekkert flóknara en það. Það er ekki hægt að bera slíkt saman við það að menn séu að leigja sér kvóta á Kvótaþingi. Ég tel að menn séu að stærstum hluta að skipta á tegundum til hagræðis í vinnslu sinni. Mér finnst þetta alls ekki sambærilegt, herra forseti.