Tillögur byggðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 10:01:25 (3140)

2001-12-13 10:01:25# 127. lþ. 52.1 fundur 250. mál: #A tillögur byggðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[10:01]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Hinn 21. júní sl. skilaði byggðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga tillögum sínum til stjórnar sambandsins en sú nefnd, byggðanefndin, hafði verið skipuð eftir að mikil umfjöllun hafði farið fram um byggðamál á vettvangi sambandsins, bæði hjá landshlutasamtökunum og á ýmsum samkomum sem sveitarstjórnarmenn sátu. Það var ekki að undra að Samband íslenskra sveitarfélaga skipaði byggðanefnd vegna þess að miklir flutningar hafa verið innan lands eins og menn þekkja og samkvæmt því sem Þjóðhagsstofnun gefur út í frétt sinni á þessu ári, sem kom 31. ágúst, hefur á árabilinu frá 1992--2001 fækkað á Vestfjörðum um nær 29% af íbúafjölda, um nær 18% af íbúafjölda á Norðurl. v. og tæp 17% af íbúafjölda á Austurlandi. Því var ekki að undra þó að menn færu að skoða leiðir sem mættu verða til þess að hamla gegn þessari þróun.

Sveitarfélögin í landinu eru 124, herra forseti. Þar af búa yfir 200 þús. manns í níu þeim stærstu. Hins vegar búa aðeins 13.500 manns í 75 þeim minnstu. Menn geta velt því fyrir sér hver staða hinna minnstu sveitarfélaga er og íbúa þeirra við þær aðstæður sem skapast hafa, hvílíkt misvægi þarna er á ferðinni, en það er þannig samkvæmt okkar löggjöf að sveitarfélögin í landinu búa öll við sömu lög, sömu kröfur og það er eðlilegt og rétt að íbúarnir geri sambærilegar kröfur til sinna sveitarfélaga hvort sem um er að ræða sveitarfélagið Reykjavík með tæplega 112 þúsund íbúa eða minnstu sveitarfélögin þar sem eru rétt um 50 íbúar. Það er hins vegar mat mjög margra að stækka verði þessar stjórnsýslueiningar til þess að skapa skilyrði fyrir frekari verkefni og til þess að hægt verði að mynda þannig byggðasvæði að íbúarnir geti átt kost á sambærilegri þjónustu og gerist þar sem eftirsóknarverðast virðist að búa. Þess vegna er áhugavert að heyra viðbrögð sveitarstjórnarráðherrans, félmrh., við þeim tillögum sem fram koma hjá byggðanefndinni, ekki síst þeirri tillögu sem hlýtur að hafa vakið mikla athygli, þ.e. að ef sveitarfélögin sameinist ekki sjálf með frjálsum samningum á næstu árum mundi Samband íslenskra sveitarfélaga vera tilbúið til að ganga til þess verks í samvinnu við ríkisvaldið að sameina þau með lögum.