Biðlisti eftir þjónustu svæðisskrifstofa málefna fatlaðra

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 10:27:53 (3149)

2001-12-13 10:27:53# 127. lþ. 52.3 fundur 300. mál: #A biðlisti eftir þjónustu svæðisskrifstofa málefna fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[10:27]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. félmrh. um hvernig hann hyggist fylgja eftir tillögum starfshóps sem skipaður var 21. apríl 1999 til að fylgja eftir tillögum í skýrslu nefndar um biðlista eftir þjónustu svæðisskrifstofu málefna fatlaðra. Þetta lýtur að því að útvega fötluðum húsnæði, leysa úr brýnni nauðsyn og útrýma biðlistum samkvæmt tillögum starfshópsins.

Það eru nokkrar vikur síðan þessi fyrirspurn var borin fram, þ.e. áður en fjárlög voru afgreidd á Alþingi. Atvikin hafa hagað því svo að fyrst núna er hægt að svara þessari fyrirspurn. Ég vil taka fram að það er ekki við hæstv. félmrh. að sakast í þessu efni. En fyrirspurnin og umræður um hana áttu einmitt að vera innlegg í umræðuna um ákvörðun fjárframlaga til málefna fatlaðra. Samkvæmt tillögum biðlistanefndar sem skilaði af sér í september 2000 átti á næstu fimm árum að verja 50 millj. kr. til byggingar sambýla til að eyða biðlistum, 5,2 millj. kr. til sambýla fyrir sjálfstætt búandi íbúa og 26 millj. vegna nýliðunar, þ.e. aukinnar þörf fyrir þjónustu, stöðugt koma jú nýir inn í hópinn og sem betur fer hækkar lífaldur þessa fólks. Samtals átti að verja um 80 millj. kr. á ári og væntanlega átti það að vera verðbætt.

Vert er að vekja athygli á því að með þessu væri aðeins verið að ráðast í lágmarksaðgerð en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef er talið að um 180 manns í þessum þjóðfélagshópi bíði eftir úrlausn með búsetu.

Herra forseti. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. félmrh.: Hvernig hefur verið staðið að þessari áætlun á árinu 2001 og í fjárlögum nú fyrir árið 2002? Hver verða þá loforðin um framhaldið, bæði til að standa við það lágmark sem þarna var samið um að gera ráð fyrir að standa við á næstu fimm árum? Einnig spyr ég hvort ekki séu áform um að gera enn betur en mælt er fyrir um í áætluninni sem þarna var lögð til grundvallar í þessum gríðarlega veigamikla málaflokki.