Biðlisti eftir þjónustu svæðisskrifstofa málefna fatlaðra

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 10:30:31 (3150)

2001-12-13 10:30:31# 127. lþ. 52.3 fundur 300. mál: #A biðlisti eftir þjónustu svæðisskrifstofa málefna fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[10:30]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Starfshópurinn sem var skipaður 21. apríl 1999 taldi að 80 rými vantaði á sambýlum í Reykjavík og á Reykjanesi og síðan 40 rými til dagþjónustu, en síðan þyrfti að kaupa eða byggja sex sambýli til að mæta nýliðuninni. Þetta er það mat sem starfshópurinn lagði á þörfina.

Á biðlistum eftir sambýlum í Reykjavík og á Reykjanesi eru í dag 75 manns 18 ára og eldri sem búa við mikla fötlun. Af þessum 75 einstaklingum eru 19 sem fá þjónustu til búsetu en óska eftir breytingum á henni, t.d. óska eftir flutningi á milli svæða eða af stofnun. Þannig eru á biðlistum þessara svæða --- og biðlistarnir eru bundnir fyrst og fremst og nær eingöngu við þessi svæði --- 56 einstaklingar 18 ára og eldri sem búa við mikla fötlun og þyrftu að komast á sambýli á næstu tveimur til þremur árum að mati svæðisskrifstofanna. Á næsta ári verða samtals 25 ný sambýlapláss til á þessum svæðum. Af þessum 56 einstaklingum fá 30 dagþjónustu eða skóla a.m.k. hálfan daginn. Af þessum 56 einstaklingum fær 21 einstaklingur skammtímavistun fimm til sex sólarhringa að jafnaði í mánuði.

Ég spurði eftir því núna fyrir helgina hversu margir væru á biðlistum í Reykjavík og á Reykjanesi sem engrar þjónustu nytu í þremur efstu fötlunarflokkunum. Þeir voru tíu á Reykjanesi sem njóta engrar þjónustu og fjórtán í Reykjavík. Þar af þarfnast fimm búsetu nú þegar, fjórir innan tveggja ára og fimm eftir tvö ár eða síðar.

Þetta er sem sagt staðan. Því miður eru þarna um 20 manns sem njóta engrar þjónustu, eru eldri en 18 ára og eru í fötlunarflokki 5, 6 eða 7, þ.e. fólk sem verður að vera eða flokkast undir það að þurfa endilega að vera á sambýli.

Rétt er að taka það fram að í farvatninu er að á næsta ári verði opnuð skammtímavistun á Holtavegi sem geti þjónað í kringum 30 einstaklingum. Íbúarnir sem núna eru á Holtavegi fara í nýtt sambýli við Sólheima. Sérhannað sambýli við Hólmasund verður tekið í notkun. Sérhannað sambýli við Barðastaði verður tekið í notkun, eitt annað sambýli í Reykjavík og sambýli við Blikaás í Hafnarfirði. Síðan verður stækkað dagvistarheimili við Gylfaflöt. Á þessu ári, þ.e. 2001, var tekið í notkun sambýli í Grindavík og sambýli í Smárahvammi í Hafnarfirði. Í Reykjavík var sambýli við Sléttuveg tekið í notkun og við Einarsnes og þó nokkuð vel miðar í því að stytta þessa biðlista.

Varðandi spurninguna um Kópavogshælið ... (JB: Það kemur næst.) sem kemur hér næst, já. Það er sem sagt sérmál og íbúar af Kópavogshælinu eru ekki í þessum tölum sem við komum að á eftir. En ég endurtek að það er erfitt að horfa upp á að það skuli vera milli 10 og 20 einstaklingar sem enga þjónustu fá en þurfa á henni að halda og eru yfir 18 ára aldri. Síðan eru þessu til viðbótar nokkur börn mjög illa stödd. Þannig er ástatt með þau að þau eru að verulegu leyti sjúklingar og það þyrfti að taka sérstaklega á málefnum þeirra.