Málefni fatlaðra

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 10:47:49 (3156)

2001-12-13 10:47:49# 127. lþ. 52.4 fundur 301. mál: #A málefni fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[10:47]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég tel mjög mikilvægt að gengið verði frá samningum milli félmrn. og sveitarfélaga og félagssamtaka vegna þjónustu við fatlaða, þ.e. þar sem eru reynslusveitarfélög, sem fyrst því að ég veit að þetta hefur valdið óöryggi bæði hjá þeim sem veita þjónustuna og einnig þeim sem njóta hennar.

Varðandi íbúana á Kópavogshæli talar hæstv. ráðherra enn um að það séu drög að samningi. Er ekki orðið tímabært að ganga frá þeim samningi? Ég gat ekki skilið það betur í fjárlagaumræðunni en að búið væri að ganga frá fé til að leysa vanda þessa hóps, þessara 20 íbúa sem búa þarna í blokkinni við allsendis óviðunandi aðstæður. Er ekki kominn tími til að hæstv. ráðherrar sem sitja hér í salnum, hæstv. heilbrrh. og hæstv. félmrh., klári þennan samning, hætti að hafa þetta í drögum og gangi frá þessu máli, því mér skilst, ef ég hef skilið það rétt, að komnir séu fjármunir til að leysa málið.