Alnæmi og kynsjúkdómar

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 10:54:02 (3159)

2001-12-13 10:54:02# 127. lþ. 52.5 fundur 295. mál: #A alnæmi og kynsjúkdómar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[10:54]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Í aðdraganda þess að fjárlög voru afgreidd frá Alþingi í síðustu viku kom fram í erindi sóttvarnalæknis og landlæknisembættisins til fjárln. beiðni um auknar fjárveitingar vegna sérstaks átaks varðandi kynsjúkdóma og alnæmi.

Í rökstuðningi með beiðninni kom fram að fjárveiting sem ætluð er til þessara verkefna hefur lækkað verulega. 1997 var fjárveitingin 9,6 millj. kr. en hefur síðan þá aðeins numið um 5,7 millj. kr. á ári.

Þá kom einnig fram að HIV/alnæmi væri vaxandi vandamál og að fjöldi þeirra sem greinast á ári hverju fari vaxandi. Þá kom fram að tíðni kynsjúkdóma fer einnig vaxandi hér á landi eins og í nágrannalöndunum og þessi þróun segir okkur að fræðslu og forvarnastarfsemi sé að einhverju marki ábótavant eða hafi verið á undanförnum árum, við kannski sofnað örlítið á verðinum og er nauðsynlegt að bæta þar úr bæði hvað varðar almenna fræðslu en ekki síður í grunn- og framhaldsskólum. Því beini ég eftirfarandi fyrirspurnum til hæstv. ráðherra:

1. Hversu margir hafa greinst með HIV-smit/alnæmi á ári síðustu fimm ár?

2. Hvernig hefur verið staðið að fræðslu og forvörnum varðandi þennan alvarlega sjúkdóm, t.d. í grunn- og framhaldsskólum?

3. Hversu margir hafa greinst með kynsjúkdóma á ári síðustu fimm ár?

4. Hvernig hefur verið staðið að fræðslu og forvörnum varðandi kynsjúkdóma, t.d. í grunn- og framhaldsskólum?