Alnæmi og kynsjúkdómar

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 11:06:06 (3164)

2001-12-13 11:06:06# 127. lþ. 52.5 fundur 295. mál: #A alnæmi og kynsjúkdómar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[11:06]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt af hv. þm. um hversu alvarleg mál eru á ferðinni. Ég tel fulla ástæðu til þess að halda vöku sinni heima fyrir varðandi þau mál sem ég hef komið inn á.

Ég tek undir það að forvarnaþáttur heilsugæslunnar er mjög mikilvægur í þessu efni og ég hef áform um að reyna að efla hann. Ég hef orðið var við mjög athyglisverð verkefni varðandi unglinga sem heilsugæslan hefur verið að þreifa sig áfram með. Það er alveg full ástæða til að gefa því gaum og sinna því og reyna að efla þann þátt því að heilsugæslan hefur aðgang að fólki. Þar á að vera greiður aðgangur þannig að ég tek undir það.

Varðandi átak, fræðslu og fjármuni til þess, þá held ég að svigrúm sé til þess að efla fræðslustarfsemina. Eins og ég sagði í svari mínu hef ég átt viðræður við sóttvarnalækni um þetta á liðnu hausti og það eru áform um að efla þá fræðslustarfsemi og skipuleggja hana og líka í samvinnu við HIV-samtökin sem hafa nýlega opnað heimasíðu og við höfum reynt að stuðla að starfsemi þeirra eins og við höfum getað af þeim fjármunum sem við höfum yfir að ráða. En ég tel eigi að síður að við getum miðað við núverandi aðstæður eflt þetta starf. Það er alveg nauðsynlegt að gera það. Það sýna þær tölur sem ég fór með í svarinu.