Stækkun Hagavatns

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 11:08:38 (3165)

2001-12-13 11:08:38# 127. lþ. 52.6 fundur 311. mál: #A stækkun Hagavatns# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[11:08]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum árum var tekin ákvörðun þess efnis að stækka Hagavatn í Gnúpverjahreppi. Tilgangurinn var að hefta sandfok og uppblátur. Um það segir aðallega:

,,Tilgangurinn með stíflu Hagavatns er að sökkva gömlum vatnsbotni Hagavatns undir vatn og stöðva þannig stöðugt áfok sem hamlar því að Landgræðsla ríkisins nái því markmiði sínu að stöðva öfluga uppblástursgeira sem ógna gróðri í heiðum uppi af Biskupstungum og Laugardal. Ef ekkert er aðhafst mun áfoksnáman stækka því að stöðugt rofnar úr útfallshaftinu og áfokið gæti orðið illviðráðanlegt. Vatnsborð Hagavatns verður hækkað þar til vatn fer að renna um útfall sem vatnið hafði á 10 ára tímabili, þ.e. 1929--1939. Núverandi útfall er stíflað með um 15 metra hárri stíflu og vatnsborð hækkað um 10,5 metra. Vatnið stækkar úr 5 ferkílómetra svæði í 13,5 ferkílómetra. Það nær þó ekki nálægt því þeirri hæð sem það hefur mest náð líklega laust fyrir síðustu aldamót.``

Á sínum tíma var framkvæmt umhverfismat varðandi þessar framkvæmdir og skipulagsstjóri úrskurðaði á jákvæðan hátt að óhætt væri að halda áfram en hins vegar kom annar úrskurður frá þáv. umhvrh. þar sem úrskurður skipulagsstjóra var felldur úr gildi. Það gerist 1996 og segir í úrskurðarorðum hæstv. ráðherra:

,,Úrskurður skipulagsstjóra ríkisins 25. júlí 1996 er úr gildi felldur og framkvæmdaraðilanum, Landgræðslu ríkisins, er gert að framkvæma frekara mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Rannsaka þarf fok á því svæði sem til stendur að sökkva og sýna fram á að það sé meginuppspretta sandfoks á svæðinu suður og suðvestur af Hagavatni.``

Þessi úrskurður var felldur seinni hluta sama árs og skipulagsstjóri felldi úrskurðinn sinn í júlí.

Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason beindi fyrirspurnum til umhvrh. á síðasta ári, á vorþingi 2000, þar sem ráðherra var hvattur til þess að hægt væri að hefja framkvæmdir sl. sumar. Í máli hæstv. ráðherra þá kom fram að hann reiknaði með því að Landgræðslan hefði lokið þeim rannsóknum sem að var stefnt að þarna færu fram fyrir síðustu áramót þannig að þá lægi ný skýrsla um mat á umhverfisáhrifum fyrir. Síðan hefur ekkert af þeirri skýrslu spurst og við ekki fengið að vita hvort henni væri lokið eða ekki. Sveitarstjórnarmenn sem þarna hafa komið að málum hafa mikinn áhuga á því að þessu verki verði lokið. Okkur finnst að það sé fullmikill seinagangur yfir framkvæmdum og þeim rannsóknum sem Landgræðslan tók að sér á sínum tíma. Þess vegna hef ég beint fyrirspurn til hæstv. umhvrh.:

Hafa farið fram viðbótarrannsóknir og verið lagt fram nýtt mat á umhverfisáhrifum af stækkun Hagavatns? Ef ekki, hver er ástæða þess, og mun ráðherra beita sér fyrir að rannsóknirnar verði gerðar?