Mat á umhverfisáhrifum skógræktarverkefna

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 11:28:22 (3172)

2001-12-13 11:28:22# 127. lþ. 52.7 fundur 323. mál: #A mat á umhverfisáhrifum skógræktarverkefna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[11:28]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka fyrirspurnina og svör hæstv. ráðherra sem voru mjög góð. Mér er nokkuð vel kunnugt um hvernig þessi mál eru. Unnið hefur verið á landsvísu að sérstöku svæðisskipulagi landshlutaverkefnanna og sú bók er nánast tilbúin fyrir Norðurlandsskóga og verður síðan færð yfir til annarra verkefna.

Í Suðurlandsskógum er þetta þannig að þar hafa bein samskipti við skipulagsstjóra verið um skipulagsmál á vegum skógræktar á Suðurlandi. Skipulagsstjóri hefur komið á fundi um skipulagsmál oftar en einu sinni og kynnt sína hlið á þessum málum. Á sama hátt er líka unnið eftir sérstökum gátlista þar sem eru um 100 spurningar sem menn þurfa að svara í þessu tilfelli. Við megum ekki gera þessa hluti allt of flókna. Ef bóndi þyrfti t.d. að fara fyrir skipulagsstjóra með það ef hann breytti móa í kartöflugarð, kartöflugarði í tún, túni í kornakur o.s.frv. þá væri illa komið fyrir okkur og þá værum við komin með sovétskipulag hér sem við kærum okkur ekki um.