Mat á umhverfisáhrifum skógræktarverkefna

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 11:30:53 (3174)

2001-12-13 11:30:53# 127. lþ. 52.7 fundur 323. mál: #A mat á umhverfisáhrifum skógræktarverkefna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[11:30]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda, Kolbrúnu Halldórsdóttur, fyrir þessa fyrirspurn. Ég þekki töluvert til þessara mála í Rangárvallahreppi þar sem verið er að vinna að skipulagi fyrir allt sveitarfélagið og þar eru öll þessi skógræktarverkefni kortlögð.

Ég vil aðeins að gamni geta þess að landeyðingin fór ekki í umhverfismat og á Rangárvöllum er verið að græða upp eyðisanda með mjög merkilegum átaksverkefnum í skógrækt, bæði einkaaðila, Landgræðslu ríkisins og t.d. Aldamótaskógar, sem er búið að planta í á eyðisöndum. Og það er einstaklega ánægjulegt að upplifa bæði hvað landið tekur miklum breytingum við þetta --- við erum að endurheimta það --- og hvað fuglalífið hefur blómstrað, skordýralíf einnig, og annar gróður í skjóli þessara litlu skóga sem eru að koma upp.