Virkjanaleyfi

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 11:36:47 (3177)

2001-12-13 11:36:47# 127. lþ. 52.8 fundur 334. mál: #A virkjanaleyfi# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[11:36]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Mig fýsir að spyrja hæstv. iðnrh. um efnislegt innihald þeirra virkjanaleyfa sem hún undirritaði hinn 15. júní sl. fyrir virkjanir í Súgandafirði og Ólafsfirði og einnig þá samkvæmt hvaða reglum þau leyfi voru veitt. Kannski, herra forseti, er ég að spyrja hvaða tilgang þessi leyfisveiting hafði.

Ég spurði þessa hér á fyrirspurnafundi ekki fyrir löngu síðan í tengslum við fyrirspurn sem hv. þm. Gunnar Pálsson var með á þskj. 342 þar sem hann var að spyrja um hvað liði efndum á tillögum nefndar um málefni raforkubænda en sú nefnd hafði einnig skilað áliti í júní á sl. ári. Ráðherra gerði þá í svari sínu grein fyrir að gert væri ráð fyrir 2 millj. kr. fjárveitingu vegna styrkja á næsta ári sem kæmi í stað niðurgreiðslu á rafmagni sem er eitt af því sem nefndin lagði til. Auk þess rakti hæstv. ráðherra störf ráðgjafarnefndar sem hafði verið skipuð reyndar fyrir ári og átti að fara yfir ýmsa faglega þætti þessa máls. Það kom fram að þessi ráðgjafarnefnd var u.þ.b. að skila af sér. Kannski er hún búin að skila núna og þá kemur það væntanlega fram í svari ráðherra hér á eftir. En þetta virkaði a.m.k. afskaplega faglegt og yfirvegað. Gunnar Pálsson, sá hv. þm. sem ég vitnaði til áðan, var samt á þeirri skoðun að einhver stífla væri í þessu máli og hvergi væri hægt að fá skýr svör.

Þar sem ég hef reynt, herra forseti, að lesa mér til um þessi mál og kynna mér þau finnst mér einhvern veginn að það sé ekki alveg ljóst á hvaða vegferð við erum með þessar smávirkjanir. Mér sýnist, miðað við svar hæstv. ráðherra á þessum fyrirspurnafundi 14. nóv., að hér sé verið að vinna mjög faglega eftir ákveðnum leiðum, verið að vinna úr því jafnvel líka hvernig hægt er að takast á við þessa niðurstöðu nefndarinnar sem spurt var um. Eigi að síður er búið að undirrita tvö virkjanaleyfi.

Og þar sem hæstv. ráðherra hafði ekki tækifæri til að svara þessari spurningu sem ég skaut inn í stuttri athugasemd á fyrirspurnafundinum ákvað ég að útbúa sérstaka fyrirspurn um þetta efni og reyna að kalla eftir í hverju þetta hefði falist og á hvaða reglum byggt ef það mætti verða til þess að skerpa skilning minn og annarra á því hvar málið er statt og hvers er að vænta.