Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 12:21:30 (3181)

2001-12-13 12:21:30# 127. lþ. 53.1 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, JÁ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 127. lþ.

[12:21]

Jóhann Ársælsson (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þetta frv. er flutt í þeim tilgangi að draga úr áhrifum kvótasetningar smábáta sem gekk til laga í haust. Frv. og brtt. við það sem meiri hlutinn flytur breyta í engu þeirri grundvallarstefnu stjórnvalda að afhenda þjóðarauðlindina útgerðum, afhenda þeim aðgang að þjóðarauðlindinni sem framseljanlega séreign. Það sama má segja um aðrar brtt. sem hér liggja fyrir.

Þó er frá þessu ein undantekning. Samfylkingin styður efni 4. gr. frv. og brtt. meiri hlutans sem hann gerir við efnisatriði þeirrar greinar, en hún er flutt til og gerð að bráðabirgðaákvæði. Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir mun gera grein fyrir þeirri afstöðu Samfylkingarinnar hér á eftir.

Samfylkingin vill endurheimta þjóðarauðlindina og hefur mótað stefnu um það hvernig eigi að gera það. Þess vegna getur hún ekki stutt það endalausa kukl sem fer fram í sölum Alþingis við það kerfi sem nú er í gildi. Við munum því sitja hjá við atkvæðagreiðsluna að öðru leyti en því sem ég hef gert grein hér fyrir.