Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 13:37:31 (3197)

2001-12-13 13:37:31# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, Frsm. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[13:37]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta efh.- og viðskn., en minni hlutann skipa ásamt mér hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson.

Frv. þetta um ráðstafanir í ríkisfjármálum felur í sér margháttaðar álögur sem ríkisstjórnin er með áform uppi um að leggja á landsmenn, en þessar aðgerðir eiga að gefa í ríkissjóð um 1 milljarð kr.

Forgangur ríkisstjórnarinnar birtist mjög sérkennilega í fjárlögum næsta árs þar sem þeir sem verst standa þurfa helst með skertri þjónustu og verri kjörum að gjalda fyrir óstjórn ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

Það sama á við um frv. sem hér er komið til 2. umr. að helst er verið að seilast í vasa sjúklinga, námsmanna og skattpíndra bifreiðaeigenda auk þess sem kirkjan fær sinn skammt einnig, og einnig er um auknar álögur á ferðamenn að ræða. Með þessum bandormi er verið að reyna að stoppa í götin í fjárlögum næsta árs, reyna að skila þar afgangi sem allir vita að er í raun ekki á borði heldur bara í orði. Með þessum ráðstöfunum er einnig gengið þvert á yfirlýst markmið um lækkun verðbólgu því að þessar aðgerðir munu skrúfa upp verðlagið og magna verðbólguna.

Minni hluti efh.- og viðskn. óskaði eftir því að Þjóðhagsstofnun legði mat á þær aðgerðir sem finna má í því frv. sem hér er til umræðu, ásamt þeim áformum sem uppi eru annars vegar um hækkun á áfengisgjaldi og hins vegar um hækkun á komugjöldum í heilsugæslunni og hjá sérfræðingum og hækkun á lyfjum. Fór minni hlutinn fram á að Þjóðhagsstofnun legði mat á þær aðgerðir vegna þess að afar mikilvægt er að ekki sé verið að ráðast á þessari stundu í aðgerðir sem hafa veruleg áhrif í þá átt að hækka hér verðlag og magna upp verðbólguna.

Niðurstaðan af þeirri skoðun sem Þjóðhagsstofnun gerði, sem hún segir í því sem hún lagði fyrir efh.- og viðskn. að hafi verið skoðað í samráði við Hagstofu, er sú að þessar aðgerðir sem ég hef hér lýst, þ.e. þær aðgerðir sem hér eru á blaði, ásamt hækkun í heilbrigðisþjónustunni og hækkun á áfengisgjaldi, muni leiða til 0,35% hækkunar á vísitölu.

Fjmrn. fellst ekki á þetta mat Þjóðhagsstofnunar jafnvel þó að það sé gert í samráði við Hagstofuna, sem hefur það verkefni á sinni könnu að mæla verðlags- og vísitöluáhrif, og lagði fram skjal sem ég fékk ekki í hendur fyrr en búið var að ganga frá þessu nál., en þar er lagt það mat á að samtals hafi gjaldskrárbreytingar sem þar eru taldar upp, sem eru ásamt því sem ég hef hér nefnt einnig hækkun á afnotagjöldum RÚV, og þá fær fjmrn. það út að áhrif samtals á gjaldskrárbreytinguna séu 0,33%.

Ég vil halda því til haga að inni í þeim áhrifum sem ég nefndi áðan, 0,35%, er ekki hækkun á afnotagjöldum RÚV, þannig að miðað við það sem Þjóðhagsstofnun hefur lagt fram í samráði við Hagstofu þá er hér um heldur meiri verðlagshækkunaráhrif að ræða en þessi 0,35%.

Ég held, herra forseti, að það sé alveg ljóst að þetta er mjög óheppilegt útspil í þeim viðræðum sem nú eiga sér stað milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar þar sem verið er að reyna að ná sátt á vinnumarkaðnum. Ég held að svona verðbólguáhrif sem koma fram, sem eru meiri en 0,35%, hljóti að hafa afar óheppileg áhrif þar inn og vera olía á verðbólguna.

Eins og skýrt hefur verið frá í blöðum í dag má lítið út af bregða til að hægt sé að ná því markmiði sem menn eru að reyna að setja sér í þeim samningaviðræðumn sem nú standa yfir og ég hef ekki haft fregnir af hvort er lokið. Vísitala neysluverðs er nú þegar, eins og hér kemur fram, aðeins þrjú vísitölustig frá rauða strikinu og því hljóta þær aðgerðir sem hér er verið að fjalla um á Alþingi í dag að vera afar óheppilegar inn í þá umræðu.

Allir vita að í gær hækkaði vísitala neysluverðs um 0,5% þannig að hún mælist á síðustu tólf mánuðum um 8,6% og það segir sig sjálft að í því ástandi sem nú er og verður á næstu vikum og fram í maí, þegar menn endurskoða stöðuna aftur, þá er afar mikilvægt að ekkert sé gert sem hreyfir mjög við verðlagsáhrifum og þeim verðbólgumarkmiðum sem menn setja sér þar.

Ég sé að í einu dagblaði í dag er einnig verið að nefna að um áramótin eigi mjólkin að hækka um 6,5% að meðaltali, sem gæti þýtt um 0,18% hækkun vísitölunnar í heild, eins og hér er nefnt. Í ljósi þess er þetta allt mjög viðkvæmt sem verið er að gera hér í þessu húsi sem áhrif hefur á vísitöluna.

[13:45]

Herra forseti. Ég hef bent á að skynsamlegra væri að fara aðrar leiðir og ég held því til haga hér og útiloka ekki að ég muni annaðhvort áður en þessari umræðu lýkur eða á milli 2. og 3. umr. flytja brtt. sem ég tel að sé í alla staði skynsamlegri, þ.e. í staðinn fyrir að hækka mikið gjöld á námsmenn verði verð á tóbaki hækkað lítillega. Við skiptumst aðeins á skoðunum um þetta í gær eða fyrradag, ef ég man rétt, ég og hæstv. fjmrh. Ég sýndi fram á að hægt væri að hækka lítillega verð á tóbaki sem gæfi helmingi meira í ríkissjóð en hækkunin á innritunar- og skráningargjöldum, eða nálægt 200 millj. kr., en hækkunin á gjöldum á námsmenn eru tæpar 100 millj. kr. og hafa þau áhrif í vísitölunni sem ég held til haga að um er deilt milli fjmrn. annars vegar og Þjóðhagsstofnunar og Hagstofunnar hins vegar. Samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar og Hagstofunnar eru áhrifin þau að vísitalan hækkar um 0,14%. (Gripið fram í: Hve mikið?) Hækka vísitöluna um 0,14%, ég bara vísa hæstv. ráðherra á að lesa þau fylgiskjöl sem hér fylgja með. Frá Þjóðhagsstofnun koma hér fram ítarlegir útreikningar um þessi áhrif.

Ef farin er sú leið að hækka tóbakið hefur hún samkvæmt upplýsingum Hagstofu þau áhrif á vísitöluna að hún hækkar um 0,07%. Við þyrftum ekki einu sinni að fara það hátt með verð á tóbaki að hækkunin gæfi ríkissjóði 200 milljónir heldur aðeins helminginn, hækka tóbakið ekki um 10% plús álagningu í heildsölu og smásölu og virðisaukaskatt heldur einungis um helminginn af því sem gæfi ríkissjóði þá 100 milljónir eða sem samsvarar því sem leggja á á námsmenn. Þá yrðu vísitöluáhrifin líka minni en þessi 0,07%. Þetta vildi ég nefna hér og halda til haga að ég útiloka ekki að flytja brtt. annaðhvort við 2. eða 3. umr. um að í staðinn fyrir að hækka gjöld námsmanna verði farin sú leið að hækka verð á tóbaki.

Ein af þeim leiðum sem farin er í frv. er að hækka bifreiðagjöld en eins og allir þekkja er fjölskyldubíllinn og rekstur hans verulegur hluti af útgjöldum velflestra venjulegra fjölskyldna. Í frv. er gert ráð fyrir því að hækkun á bifreiðagjöldum um 10% gefi ríkissjóði 260 millj. kr. í auknar tekjur.

Í máli fulltrúa FÍB kom fram sú athyglisverða staðreynd að hækkun á bifreiðagjöldum frá 1998 og fram til dagsins í dag hefði verið miklu meiri en sem nemur raunhækkun. Þessi skattur var 2 kr. á kíló á árinu 1988 sem framreiknað gefur 4,35 kr. á kíló í stað 6,60 kr. nú eftir þá hækkun sem frv. gerir ráð fyrir. Hækkun bifreiðagjalda samkvæmt útreikningi FÍB er því um 50% hækkun umfram þróun verðlags frá árinu 1988.

Þetta kemur til viðbótar álögum á bifreiðaeigendur sem fram hafa komið á sl. tveim til þremur árum í verulegri hækkun eða um 70--80% hækkun á lögboðnum bifreiðatryggingum og mikilli bensínhækkun á umliðnum missirum. Líka er rétt að halda því til haga að fulltrúar FÍB sem mættu á fund efh.- og viðskn. töldu að skattar á bifreiðar væru ekkert annað en eignarskattur sem skattlagður væri sem eign með öðrum eignum og því væri hér um tvísköttun að ræða. Einnig væri um að ræða flatan skatt sem legðist á bíla miðað við þyngd en ekki verðmæti.

FÍB hefur sýnt fram á að tekjur af bifreiðaeigendum hér á landi eru með því mesta sem gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við og hafa verið yfir 4,5% af landsframleiðslu þó að það hafi eitthvað minnkað nú með minni innflutningi á bílum. Í öðrum löndum í Evrópu er þetta á bilinu 2,5--3,5%.

Framkvæmdastjóri FÍB, Runólfur Ólafsson, hefur tekið saman athyglisverðar upplýsingar um þróun í tekjum ríkissjóðs vegna tekna af bifreiðum. Þær voru birtar í fjölmiðlum nýlega. Þar kemur fram að tekjur ríkisins af bifreiðum hafa hækkað geysilega á einum áratug. Árið 1990 voru þær um 13 milljarðar kr., árið 1995 18,6 milljarðar kr. og hæstar voru þær árið 2000 eða samtals 30 milljarðar kr. Kemur raunaukning tekna ríkissjóðs af bifreiðaeigendum glöggt fram í súluriti sem birt var í blöðunum.

Samkvæmt upplýsingum FÍB eru útgjöld fjölskyldu vegna reksturs bifreiðar áætluð 16% af útgjöldum heimilanna samkvæmt þeim vísitöluútreikningum sem Hagstofan gerir. Samkvæmt útreikningum FÍB er kostnaður við eign og rekstur ódýrustu fólksbílanna á þessu ári um 566 þús. kr. en var 464 þús. kr. á sl. ári þannig að menn sjá þann mun sem hér hefur orðið og hvað það kostar orðið mikið að reka einn venjulegan fólksbíl.

Við í minni hlutanum mótmælum þeim hækkunum sem verið er að leggja til viðbótar því sem lagt hefur verið á bifreiðaeigendur í formi mikilla bensínhækkana og hækkunar á tryggingagjöldum. Við teljum að þetta vegi mjög þungt í útgjöldum fjölskyldna og þess vegna sé ekki rétt að fara þessa leið.

Ég vil næst víkja að gjaldtökunni af námsmönnum. Það er ljóst að sú leið sem ríkisstjórnin er að fara kemur sérlega illa við námsmenn af landsbyggðinni og ungt fólk með börn, ekki síst einstæðar mæður. Hún kemur sér líka afar illa fyrir fólk sem er í verknámi, sem ég mun sýna hér fram á, en fulltrúar Iðnnemasambands Íslands komu á fund nefndarinnar og sýndu fram á það í ítarlegri umsögn sem þeir lögðu fram hve illa álögur á þá sem eru í verknámi koma við nemendur sem eru í slíku námi.

Ég geri ráð fyrir að fulltrúar minni hlutans í menntmn. muni gera ítarlega grein fyrir áliti sínu en menntmn. fékk þetta mál til skoðunar. Í áliti minni hlutans eru m.a. raktar margvíslegar afleiðingar þessa niðurskurðar sem er varðandi þjóðarbókhlöðuskattinn sem að hluta til á að renna í ríkissjóð. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þennan niðurskurð en geri ráð fyrir að aðrir geri honum skil hér á eftir. Í álitinu eru raktar margvíslegar afleiðingar þessa niðurskurðar á viðhald og ýmsar endurbætur menningarbygginga og hvaða afleiðingar hann hefur fyrir áætlanir, m.a. á framlag til húsasafns Þjóðminjasafns Íslands. Ég mun því aðeins lítillega fara inn á þessa auknu gjaldtöku á námsmenn en komið hefur í ljós við skoðun bæði efh.- og viðskn. og menntmn. vegna þessarar gjaldtöku að lítið samræmi virðist vera á milli skólanna í þessari gjaldtöku og erfitt að fá heildaryfirlit yfir hana. Sú spurning hlýtur því að vakna hvort jafnræðis sé gætt milli nemenda í framhaldsskólum hvað þessa gjaldtöku varðar. Ég held að það sé full ástæða til að fara í skoðun og könnun á kostnaði og gjaldtöku nemenda eftir skólum og þá líka eftir landshlutum vegna þess að hún virðist vera mjög mismunandi.

Í áliti minni hluta menntmn. er réttilega bent á að vegna þröngrar fjárhagsstöðu framhaldsskóla hafi skólarnir verið að leita margra leiða til að auka tekjur sínar og hafa nemendur skóla fengið að kynnast ýmsum tegundum gjalda af þeim sökum þannig að ár frá ári virðist vera aukið á þessar gjaldtökur.

Það voru einmitt fulltrúar stúdentaráðs og fulltrúar Iðnnemasambandsins sem komu á fund efh.- og viðskn. og greindu frá því hvað kostnaður nemenda við nám hefði vaxið mikið á undanförnum árum. Þeir nefndu bókakaupin sem nema tugum þúsunda, og voru nefndar 30--40 þús. kr. í því sambandi. Auk þess var bent á þær vaxandi kröfur sem gerðar eru til tölvueignar. Það kom fram hjá fulltrúum í stúdentaráði, sem mér fannst mjög athyglisvert, að ef skrásetningargjöld væru í efnislegum tengslum við innritun nemenda og rekstur nemendaskrár ætti gjaldið að vera 16 þús. kr. en ekki 32.500 eins og frv. gerir ráð fyrir. Samkvæmt þessu virðist þetta vera almenn tekjuöflun til að standa undir kostnaði við kennslu og almennan rekstur skólans að verulegu leyti. Ef þetta er rétt hjá stúdentaráði, sem ég dreg ekki í efa, ættu skrásetningargjöldin að vera um 16 þús. kr. í stað 32.500, ef þau væru í einhverjum efnislegum tengslum við innritun nemenda og rekstur nemendaskrár.

Ég býst við að aðrir fari ítarlegar út í þessi atriði og ætla þá ekki að hafa fleiri orð um þau en vil þó aðeins víkja að því sem fram kom hjá þeim fulltrúum Iðnnemasambandsins sem mættu á fund efh.- og viðskn. en eftir því sem ég best veit mættu þeir ekki á fund menntmn. Þeir bentu á að með lögum um framhaldsskóla frá 1996 hafi verið samþykkt að innritunargjöld skyldu aldrei verða hærri en 6 þús. kr. Þeir benda á að ætla mætti að þessi fjárhæð hafi þá verið miðuð við þann kostnað sem innritun felur í sér. Því sé óeðlilegt að miða við verðlagshækkanir frá 1991. Það sama kemur reyndar fram hjá stúdentaráði. Jafnframt er bent á í umsögn þeirra að skv. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 80/1996 er heimilað að innheimta efnisgjald af nemendum sem njóta verklegrar kennslu vegna efnis sem skóli lætur þeim í té og þeir þurfa að nota í námi. Gjaldið eigi að taka mið af efniskostnaði en má þó aldrei vera hærra en 25 þús. kr. á skólaári eða 12.500 kr. á önn. En nú er verið að leggja til, herra forseti, 100% hækkun á þessu gjaldi. Þetta er auðvitað veruleg fjárhæð fyrir nemendur þó að mér finnist stjórnarliðar oft og einatt gera lítið úr þessari hækkun. Þeir láta eins og hér sé bara um einhverja þúsundkalla að ræða sem engu máli skipti fyrir nemendur. Það er auðvitað alrangt. Þeir skipta miklu máli þegar verið er að tvöfalda þetta gjald og þegar það bætist líka ofan á bókakostnað, fartölvur o.fl. sem nemendur þurfa að borga, ég tala nú ekki um fyrir þá nemendur sem koma af landsbyggðinni, þurfa að sækja hingað nám og taka sér á leigu dýrt húsnæði sem er kannski á verðbilinu 50--70 þús. kr. fyrir eitt herbergi eða litla tveggja herbergja íbúð. Þá vegur þessi fjárhæð auðvitað þungt í þeirra vasa þó að stjórnarflokkarnir geri ekki mikið úr þessu.

Iðnnemasambandið bendir á að aðsókn í iðnnám hafi snarminnkað með árunum og bendir á í því samhengi að nú hafi skólar á landsbyggðinni þurft að leggja niður mikið af verknámskennslu og jafnframt að stór hluti iðnnema á Íslandi komi af landsbyggðinni. Þeir benda einmitt á það sem ég var að nefna hér, að nemendur af landsbyggðinni þurfi því til viðbótar verulegum útgjöldum í innritunar- og bókakaup og fleira sem ég hef hér nefnt að leggja fram fjármagn í ferðakostnað og dýrt leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu.

[14:00]

Minni hlutinn í efh.- og viðskn. tekur undir að auknar álögur á stúdenta séu afar varasamar og stríði gegn öllum hugmyndum um jafnrétti til náms. Það ber að skoða málið í ljósi vaxandi útgjalda við skólanám sem tengist því sem ég hef nefnt hér. Auðvitað gildir hið sama um nám í framhaldsskólunum, þar sem lögð er til 100% hækkun, og um háskólann.

Af hálfu framhaldsskólanna var bent á að kaup á fartölvum þýddu útgjöld á bilinu 150--250 þús. kr. Mér kæmi ekki á óvart þó að ekki líði á löngu áður en það verði skylda að nemendur hafi slíkar fartölvur. Þannig gæti þessi hækkun, t.d. hækkun á efnisgjöldum um 100% sem geta farið í 50 þús. kr., haft úrslitaáhrif á framhaldsnám nemenda. Mér finnst með ólíkindum, herra forseti, hve hart er keyrt gegn nemendum þegar allir vita að lífskjör þjóðarinnar í nútíð og framtíð munu ráðast af því hvernig hlúð er að menntun og jöfnum möguleikum allra til náms. Ég tel að þær auknu fjárhagslegu byrðar sem nú á að setja á nemendur muni örugglega leiða til þess að fjöldi nemenda hætti námi. Við vörum því við þessum auknu gjaldtökum og skorum á ríkisstjórnina að falla frá þeim. Eins og ég hef nefnt hafa þær veruleg verðlagsáhrif í för með sér þannig að ríkisstjórnin er að elta skottið á sjálfri sér með því að fara þessa leið. Ég skora á ríkisstjórnina að skoða þá leið sem ég hef nefnt, að fara frekar þá leið að hækka tóbakið en níðast á námsmönnum.

Varðandi gjaldtöku af sjúklingum þá sér þess auðvitað stað í þessu frv., eins og iðulega þegar ríkisstjórnin er að skera niður eða afla peninga, að leitað er í þá matarholu að setja auknar gjaldtökur á sjúklinga eða herða að í heilbrigðisþjónustunni. Ég ætla ekki að fara ítarlega út í þann þátt málsins. Hér er aðallega um 9. gr. þessa frv. að ræða, þar sem sjúkraheimili eða sjúkrahótel eru felld undan skilgreiningunni á sjúkrahúsi.

Ég vil einungis nefna að það kemur fram í áliti minni hlutans í heilbr.- og trn. að landlæknir hafi aðspurður sagst vera andvígur breytingu á skilgreiningunni og talið hana varhugaverða. Ég sé að í dag kemur hið sama fram hjá fyrrv. landlækni. Hann hefur uppi ýmis varúðarsjónarmið gagnvart þeirri leið sem ríkisstjórnin ætlar að fara í þessu efni. Þó ekki sé um miklar fjárhæðir að ræða þá geld ég varhug við því að farið verði út í að samþykkja þessa 9. gr. frv. Ég tel að hún geti falið í sér vísi að einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni, vísi að því að tekinn verði upp sérstakur matarskattur á spítölum. Þess vegna leggst minni hlutinn í efh.- og viðskn. gegn því. Hann telur þennan sparnað varasaman og geta leitt til þess að fólk í litlum efnum verði síður útskrifað af sjúkrahúsum inn á sjúkraheimili.

Ég minni á að fyrrv. landlæknir nefnir það t.d. í DV í dag að þegar landlæknisembættið sem fyrst kom með þessa hugmynd um sjúkraheimili eða sjúkrahótel fyrir 11 árum hafi hún einmitt verið sett fram til sparnaðar vegna þess að þessi leið kæmi í veg fyrir það að fólk þyrfti að dvelja lengur en ella á sjúkrahúsum og hægt væri að útskrifa það inn á þessi sjúkraheimili sem væru mun ódýrari fyrir ríkið.

Ég vil líka vekja athygli þingsins á athyglisverðu blaði sem Benedikt Davíðsson, formaður Landssambands eldri borgara, lagði fram í efh.- og viðskn. Hann varaði sterklega við auknum gjaldtökum í heilbrigðiskerfinu. Hann sagði að það bitnaði með fullum þunga á öldruðum og sjúklingum. Þessi samantekt Benedikts er um breytingar á komugjöldum til sérfræðinga og vegna röntgenrannsókna. Þar vísar hann til hækkunar sem varð 1. júlí sl. í heilbrigðisþjónustunni. Þar minnir mig að um hafi verið að ræða gjaldtöku upp á nokkur hundruð millj. á þessu ári. Mig minnir að það hafi verið 500 eða 600 millj. Nú á að fara í viðbótargjaldtöku á næsta ári sem nemur, ef ég man rétt, með hækkun á lyfjum, um 500 millj. kr. Þannig er á skömmum tíma, tveimur árum, verið að leggja aukin gjöld á sjúklinga, aldraða og lífeyrisþega svo nemur rúmlega milljarði eða á annan milljarð kr. Benedikt Davíðsson bendir í samantekt sinni á að bara komugjöld til sérfræðinga og komugjöld í röntgenrannsókn hafi hækkað 1. júlí sl. á bilinu 20--66,7%.

Það er nauðsynlegt að halda því til haga, herra forseti, þegar fara á út í þessar sparnaðaraðgerðir núna, t.d. að taka 6 þús. kr. hámarkið af sérfræðilæknishjálpinni og ferliverkunum. Það mun hafa í för með sér að greiðsla sjúklinga fyrir þau verk hækkar um mörg hundruð prósent og einnig áform um að hækka hlut sjúklinga í lyfjum, en þar eru um 200 millj. kr.

Ásta R. Jóhannesdóttir hefur sýnt fram á hvaða afleiðingar þetta getur haft. Ég sé í DV frá því í gær að þar er fjallað um dæmi um 470% hækkun vegna þeirrar leiðar sem nú á að fara. Þá er verið að tala um hækkun á hlut sjúklinga í sjúkraaðgerðum. Þessi aukna gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu er því miklu alvarlegri en hún lítur í fyrstu út fyrir að vera sé skoðað hve mikil áhrif hún getur haft á útgjöld einstakra heimila þurfi fjölskyldumeðlimur að fara í þessar aðgerðir. Það getur skipt tugum þúsunda þegar fólk þarf að leita sér slíkrar sérfræðilæknishjálpar.

Herra forseti. Við hljótum því að vara mjög alvarlega við þessu. BSRB hefur nýlega gert athugun á kostnaði sjúklinga í heilbrigðiskerfinu á umliðnum árum. Í þeim dæmum sem BSRB hefur sett fram kemur í ljós að kostnaður heimilanna eða sjúklinga í heilbrigðiskerfinu hefur margfaldast á undanförnum árum.

Ég tel, herra forseti, að þetta sýni okkur að ríkisstjórnin er á rangri braut. Við viljum byggja þetta þjóðfélag þannig upp að hér sé jafnrétti til náms og réttur allra til heilbrigðisþjónustunnar óháður efnahag og búsetu. En mér sýnist að við séum alltaf að fjarlægjast það markmið og þá sátt sem ég hélt að allir í þjóðfélaginu væru sammála um, að allir ættu að hafa jafna möguleika til menntunar og aðgang að heilbrigðisþjónustunni.

Herra forseti. Ég ætla næst að víkja að skerðingu á sóknargjöldum sem hefur verið mótmælt mjög harðlega. Á fund efh.- og viðskn. komu vegna þessarar skerðingar fulltrúar Prestafélagsins, kirkjuráð, fulltrúar Biskupsstofu og sóknarnefnda Grafarvogskirkju og allir færðu þeir sterk rök fyrir sínu máli. Þeir töldu rangt að fara þessa leið. Sjónarmiðin sem þar eru sett fram eru slík að ríkisstjórnin hlýtur að hlusta á þau, rökin sem kirkjunnar menn setja fram fyrir því að ríkisstjórnin sé einnig á rangri leið í þessu efni.

Þeir benda á að sóknargjöld séu ekki skattur, eins og stjórnvöld virðast álíta þegar þeim hentar að seilast í vasa trúfélaga til að stoppa í fjárlagagötin, heldur félagsgjald sóknarbarna til kirkjunnar eða þeirra trúfélaga sem þau kjósa að vera í. Á því er grundvallarmunur að að skerða sóknargjöldin og að sækja fé í annan skatt eða taka upp önnur gjöld sem ríkissjóður getur komið á. Í þessu tilviki er ríkissjóður að innheimta félagsgjöld fyrir kirkjuna sem honum ber auðvitað að skila. Ríkið er eins og hver annar innheimtuaðili og menn sjá hversu vafasamt það væri fyrir þann sem er að innheimta fyrir aðra að taka helminginn í sinn vasa og skila bara helmingnum. Ég held að það sé varasöm leið sem hér hefur verið valin.

Mér finnst að skoða þurfi betur hvort þessi tillaga ríkisstjórnarinnar sé ekki brot á samningi sem kirkjan gerði við íslenska ríkið, fjmrh. og dómsmrh. á sínum tíma á árinu 1998.

Sóknargjöldin hafa farið til að standa straum af margvíslegum óhjákvæmilegum kostnaði innan kirkjunnar. Lán vegna viðhalds og byggingar kirkna, sem ella hefði lent á ríkissjóði, eru að stórum hluta greidd af sóknargjöldum. Söfnuðir hafa gert áætlanir sínar í trausti þess að orð framkvæmdarvaldsins standi. Þeir, jafnt og trúfélög innan og utan þjóðkirkjunnar, munu lenda í miklum erfiðleikum vegna þessa niðurskurðar. Sóknargjöldin hafa ekki síst staðið undir öflugu tónlistarlífi margra safnaða og í fámennum söfnuðum landsbyggðarinnar hefur það oftar en ekki verið burðarás í menningarlífi viðkomandi svæða.

Við þekkjum rómað kórstarf innan kirkjunnar á landsbyggðinni. Það er í hættu vegna þessa niðurskurðar. Það má líta á hann sem enn eitt slæmt höggið sem landsbyggðinni er veitt núna. Ég hygg að fámennu söfnuðirnir muni finna verst fyrir því.

Herra forseti. Það vekur athygli að skerðing sóknargjalda er sínu verst fyrir trúfélög utan þjóðkirkjunnar. Þau njóta þess ekki eins og söfnuðir þjóðkirkjunnar að laun presta séu greidd af ríkinu. Sóknargjöldin standa að öllu leyti undir kostnaði við rekstur þeirra, þar með talin laun presta og forstöðumanna. Þannig virðist líka vegið að rótum trúfrelsis í landinu með því að fara þessa leið, þar sem trúfélög sæta í raun mismunun eftir því hvort þau eru innan eða utan þjóðkirkjunnar. Í þessu sambandi vekur furðu að meiri hluti allshn. sem fjallaði um málið virðist gera sér grein fyrir þessu misrétti. Hann vekur sérstaka athygli á því í áliti sínu að breytingarnar muni hafa meiri áhrif á trúfélög utan þjóðkirkjunnar en telur þó að þær séu nauðsynlegar til að áform og markmið fjárlagafrv. nái fram að ganga.

Herra forseti. Það er ekki að ástæðulausu sem við í minni hluta efh.- og viðskn. vísum því frá að samþykkja þessa skerðingu. Við vísum þar til þeirra afleiðinga sem ég hef hér lýst og munum greiða atkvæði gegn þessu.

Þá vil ég í lokin nefna skatta á ferðamenn. Ríkisstjórnin leggur til að hækkað verði sérstakt gjald til að standa straum af vopnaleit á flugvöllum. Orsakir þess á rekja til herts eftirlits á alþjóðavísu í kjölfar voðaverkanna sem hermdarverkamenn unnu í Bandaríkjunum 11. sept. sl. Við gerum okkur auðvitað fulla grein fyrir því að efla þurfi öryggi ferðafólks og eftirlit á flugvöllum, við tökum alveg heils hugar undir það, en við áteljum vinnubrögðin við undirbúning málsins. Við vekjum athygli á að það vantar alla sundurliðun á þeim kostnaði sem hækkuninni er ætlað að mæta. Í öðru lagi er ljóst að þessi hækkun mun leiða til hækkunar á flugfargjöldum í millilandaflugi sem við núverandi aðstæður er auðvitað fráleitt þegar við skoðum stöðu ferðaþjónustunnar og flugfélaganna almennt sem allir vita að er ekki nægilega góð um þessar mundir. Þetta kemur ofan á þann skatt sem er verið að leggja á ferðaþjónustuna í gegnum tryggingagjald en upplýst hefur verið að það leiði til útgjalda sem nema um 100 millj. á ferðaþjónustuna.

Herra forseti. Niðurstaða okkar í efh.- og viðskn. er því ljós. Við áteljum harðlega þær álögur sem í frv. birtast og koma fram í auknum sjúklingasköttum, sköttum á námsmenn og bitna þar með á jafnrétti til náms. Þetta eru vanhugsaðar aðgerðir með tilliti til þess að nú standa yfir viðkvæmar viðræður milli aðila vinnumarkaðarins.

Ég hef getið um verðlagsáhrifin af þessum aðgerðum sem eru afar slæm. Þau afar slæm. Meðan verðbólgan mælist 8,6% á 12 mánaða tímabili stendur til að fara út í aðgerðir sem hækka verðbólguna um a.m.k. 0,35% og hafa slæm verðlagsáhrif ofan á allt annað sem er að hækka um þessar mundir. Ég hef bent á aðra leið sem er skynsamlegra að fara en þessa. Við erum svo sannarlega tilbúin að setjast yfir það með ríkisstjórninni að finna aðrar leiðir sem gefi betri niðurstöðu en þá sem ríkisstjórnin fer ævinlega, þ.e. að leita sér peninga í vösum sjúklinga og námsmanna. Það er uppistaðan í þessum aðgerðum sem við erum hér að fjalla um á þessum degi.

Við teljum að þessar aðgerðir séu hinar sömu og birtast að mörgu leyti í fjárlagafrv. Þær eru handahófskenndar og minni hlutinn mótmælir þessum aðgerðum og leggst gegn þessu frv.