Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 14:16:02 (3198)

2001-12-13 14:16:02# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[14:16]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér leikur nokkur hugur á að vita hvar hæstv. forsrh. eða starfandi forsrh. sé, sem mun vera ábyrgðarmaður þessa máls. Ég hefði talið æskilegt að sá hæstv. ráðherra væri viðstaddur umræðuna og sýndi henni þann sóma. Ekki hefði nú spillt fyrir ef ...

(Forseti (HBl): Ég skal reyna að koma áleiðis þeirri ósk sem hv. þm. ber fram.)

Takk. Ég vek allra náðarsamlegast athygli á því að hér eiga undir margir ráðherrar. Hér er um bandorm að ræða sem kemur inn á málasvið margra ráðuneyta. Það væri ákaflega æskilegt ef hæstv. ráðherrar sýndu sjálfum sér og störfum sínum og Alþingi og öllum viðkomandi þá virðingu að reyna að vera hér viðstaddir og í öllu falli ábyrgðarmaður málsins, sem er þá hæstv. forsrh. sem flytur það eins og venja er þegar um er að ræða bandorma sem varða mörg ráðuneyti.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir frsm. minni hluta hefur gert prýðilega grein fyrir öllum helstu efnisþáttum frv. og afstöðu okkar í minni hlutanum til þess þannig að ég get sparað tímann og vísað til þess. Ég er í öllum greinum sammála því sem þar kom fram. Við deilum sameiginlega afstöðu til þessa frv. og stjórnarandstaðan er sameinuð í afstöðu sinni til þess.

Það sem mér leikur nokkur hugur á að ræða eru því þættir sem tengjast efni frv. og þeim aðstæðum í ríkisfjármálum og efnahagsmálum sem því er ætlað að taka á. Þetta heitir frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum og reyndar held ég nú að meiri hlutinn leggi til að nafninu verði breytt þannig að um verði að ræða ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 2002. Það er sennilega til þess að undirstrika að ekki er verið að byggja hérna framtíðarhöll með þessu glæsta frv. ríkisstjórnarinnar heldur eru þetta skerðingarákvæði og hefðbundinn vandræðagangur, niðurskurður, skerðingar og breytingar til eins árs í senn. Það er auðvitað þakkarvert þó að vísu verði sum ákvæðin eðli málsins samkvæmt ótímabundin því þar er breytt upphæðum í lögum til frambúðar. En það færist inn í þau lög og þetta mundi þýða að gildistími annarra ákvæða frv. tæki þá til ársins 2002 eða að nafngiftin eigi að endurspegla það.

Herra forseti. Það væri auðvitað fróðlegt að fá fregnir af því hvar tilraunir aðila vinnumarkaðarins sem drösluðu ríkisstjórninni að viðræðuborðinu síðla hausts standa eftir að hafa lítið frá henni heyrt. Með vaxandi áhyggjum horfðu menn á það að verðbólga æddi hér áfram og forsendur kjarasamninga eins og þær höfðu verið niður lagðar voru brostnar þannig að ekkert blasti við annað en uppsögn þeirra nú í febrúar.

Hins vegar var ljóst að menn höfðu að sjálfsögðu áhyggjur af þessari þróun og því hafði verkalýðshreyfingin forustu um að berja ríkisstjórnina upp úr bælinu til þess að ræða við sig um ástandið. Þær þreifingar hafa staðið yfir og leit út sem möguleikar væru að skapast á því að fresta a.m.k. uppsögn kjarasamninganna fram í maí þannig að menn fengju þá þann tíma, útmánuðina, til að skoða stöðuna og láta á það reyna hvort menn væru að ná einhverjum tökum á efnahagsmálunum og verðlagsmálunum þannig að forsendur kjarasamninga héldu, eða væru a.m.k. ekki það langt úti í hafsauga að ekki þyrfti að koma til uppsagnar allra almennra kjarasamninga.

En nú er engin niðurstaða fengin í þetta enn þá, herra forseti, og það sýnir náttúrlega í hnotskurn sleifarlagið í þessum vinnubrögðum að menn skuli loksins vera að druslast til þess að fara að ræða þetta af einhverri alvöru og tala saman þegar kominn er miður desember og menn eru að loka hér endanlega síðustu hlutunum sem lúta að fjárlögum og ríkisfjármálum og efnahagsmálum og sköttum á næsta ári. Það er auðvitað alveg dæmalaust, alveg yfirgengilegt sleifarlag, herra forseti. Svona verkstjórn og svona tímaáætlanir hefðu nú einhvern tímann ekki fengið háa einkunn, að vera fyrst núna að reyna að koma þessum hlutum eitthvað saman.

Herra forseti. Eitt af því sem hefur heyrst frá þessum viðræðum eru hugmyndir um að reyna að hafa áhrif á verðlag og gengi krónunnar og jafnvel vexti með því að taka stórt erlent lán, með því að ríkissjóður taki stórt erlent lán og dæli hér inn í hagkerfið. Heyrst hefur jafnvel talan 20 milljarðar kr. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að mig undrar ef menn eru í einhverri alvöru að ræða um slíkt, hafandi verið að loka fjárlögunum, þar með talið lánsfjáráætlun næsta árs sem nú er ekki lengur í sjálfstæðum lögum, lánsfjárlögum, heldur hluti af fjárlagagerðinni og kemur inn í fjárlagarammann. Þar er settur ramminn utan um lántökur stærstu opinberu aðilanna og auðvitað ríkissjóðs sjálfs og stærstu sjóða og stofnana. Því verður harla hjákátlegt ef menn eru síðan að ræða slíka hluti í einhverri alvöru.

Ég ætlaði að spyrja ábyrgðarmann málsins, forsrh. eða starfandi forsrh. m.a. að þessu: Hvar eru þessar hugmyndir á vegi staddar? Er kannski við því að búast eftir að þing er farið heim eftir einn, tvo, þrjá, fjóra sólarhringa, að þá allt í einu bara skreppi fjmrh. til London og taki 20 milljarða lán, komi með 20 milljarða íslenskra króna í pundum heim í vasanum og dreifi því svo hérna út í hagkerfið? Það væru svolítil tíðindi. Hvað á þetta að lækna? Jú, þetta á styrkja gengi krónunnar. Og það er út af fyrir sig nokkuð ljóst að það mundi gera það. Menn binda síðan vonir við að þetta gæti haft jákvæð áhrif á vexti í framhaldinu. En ég hef verið að velta þessu svolítið fyrir mér, herra forseti, og verð æ meira hugsi eftir því sem ég skoða þetta betur. Hvað væri verið að gera með slíkum aðferðum? Er það virkilega svona einfalt að leysa bara efnahagsvandann, verðbólguna og bjarga genginu með því að skreppa til útlanda og taka erlend lán? Af hverju er menn ekki löngu búnir að þessu ef þetta er svona einfalt?

Skoðum þetta aðeins nánar. Hvað gerist ef ríkissjóður tekur 20 milljarða að láni erlendis og kemur þeim svo í umferð hér innan lands með þeim aðferðum sem mér virðast vera þarna í hugum manna, þ.e. að reyna að kaupa fyrir þetta krónur, greiða upp einhverjar innlendar skuldir sínar eða færa þetta inn í innlenda mynt með einhverjum slíkum hætti? Þá eru tveir möguleikar í boði eða tveir möguleikar hugsanlegir, annars vegar að féð fari strax í umferð og annars hefur það ekki áhrif, ekki á gengi krónunnar og ekki á verðlagsáhrifin, eða hins vegar að ríkissjóður leiti að aðferðum til að binda féð, t.d. með inngreiðslum í einhverja sjóði þar sem féð fer ekki í umferð strax. En þá hefur það ekki þessi áhrif sem menn eru að sækjast eftir. Mér sýnist því ljóst að til þess að þessi hugsun gangi upp, að það sé einhver brú í henni, verði að taka þessa 20 milljarða og koma þeim í umferð hér innan lands. Og hver er þá munurinn á því, herra forseti, og að reka ríkissjóð með 20 milljarða halla?

Hafa menn ekki verið að berjast fyrir því hér að það sé algjörlega úrslitaatriði að ríkissjóður sé ekki rekinn með halla og helst með einhverjum afgangi, a.m.k. svona að nafninu til bókhaldslega? En eru menn virkilega á sama tíma að hugsa um að taka 20 milljarða erlent lán og moka því hérna inn í hagkerfið? Hlýtur það þá ekki að hafa í raun algjörlega sambærileg áhrif?

Fyrir nú utan það, herra forseti, að mér er ómögulegt að sjá að hin jákvæðu áhrif af þessu hvað varðar gengi krónunnar og verðlagsforsendur og aðrar efnahagsforsendur hér, geti orðið nema mjög tímabundin vegna þess að grundvallarforsendurnar breytast ekki neitt. Ekki lagast þær undirliggjandi aðstæður sem valda vandanum og hafa veikt gengi krónunnar og valdið verðbólgunni þó að hæstv. fjmrh. skjótist til London og taki 20 milljarða að láni og komi með þá aftur heim. Það er alveg augljóst. Ég held því að það hlyti að vera nánast eins og að pissa í skóinn sinn.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst ómögulegt að við séum að ræða um þessa hluti hér, ráðstafanir í ríkisfjármálum, á meðan þetta hangir í loftinu einhvers staðar hérna utan við veggina. Er einhver alvara í þessum áformum, þessum hluta pakkans sem mér skilst að sé á dagskrá í viðræðum aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar?

Ef mönnum tækist að selja Landssímann, þótt það væri ekki nema fyrir eitthvert útsöluverð --- allir virðast reikna með því að hann verði meira og minna gefinn --- en segjum að menn fengju eitthvað fyrir hann, skröpuðu saman upp í 10, 15, 18 milljarða fyrir þennan hlut sem á að selja, ætla menn þá að koma með það inn í landið líka í gjaldeyri og kaupa krónur? Eða ætla menn að greiða upp eldra lánið með þeim hlutanum sem kæmi svo inn fyrir Símann? Hver er hugsunin í þessu? Er hægt að fá einhverjar upplýsingar hér eða á það að vera í þessu tilviki eins og fleirum að Alþingi komi hlutirnir ekki við? Er það bara formsatriði að láta menn vita hér um hvort slíkir hlutir séu á döfinni?

Herra forseti. Ég held að hæstv. ráðherrar skuldi okkur aðeins skýringar á því hvað þarna er á ferðinni. Ég verð að segja eins og er að þó að ég hafi auðvitað fullan skilning á því og sé eindreginn stuðningsmaður þess að menn reyni að tala saman og gera það besta úr stöðunni í sambandi við forsendur kjarasamninga, verðlagsmála og annars, þá hef ég orðið æ meira hugsi yfir þeim vangaveltum um að leysa þetta með því að taka eitt stykki erlent lán með þessum hætti og moka því inn í hagkerfið. Ég sé bara ekki skynsemina í því og hef enga trú á að það yrði mönnum til góða nema þá mjög tímabundið.

Herra forseti. Er það ekki svo að ef nú er ástæða til að hafa svakalegar áhyggjur af einhverju, að þá sé það heildarskuldasöfnun þjóðarbúsins erlendis sem er orðin meiri en landsframleiðslan? Það hefur aldrei þótt góð latína, í hvaða fyrirtæki sem menn eru að reka, að skulda meira en brúttóárstekjurnar. Og það er orðin er staðreynd á Íslandi og varð það núna síðsumars, að fyrirtækið okkar litla, Ísland, skuldar meira en ársveltu efnahagslífsins erlendis. Skuldir okkar í erlendri mynt eru orðnar yfir 800 milljarðar kr., komnar fram úr landsframleiðslunni.

Herra forseti. Annað ætlaði ég að gera hér aðeins að umtalsefni og það er verðbólgan. Við heyrðum bjartsýnisræður hér frá hæstv. forsrh., m.a. þegar hann mælti fyrir þessu frv. Hann er nú ekki hér til staðar, því miður, til að halda áfram umræðum um það. Það var mikil bjartsýnisræða og þar var eins og stundum áður gripið til þess að benda á að krónan hafi styrkst í gær. Við munum hvernig þetta var í maí þegar við ræddum gengishrunið þá. Hver voru svör hæstv. forsrh. þegar hann kom þrem dögum síðar glaðhlakkalegur, ekkert þetta litla, af því að krónan hafði styrkst í maí um 1 eða 0,5% eða eitthvað svoleiðis. (Gripið fram í.) Og þetta var allt saman þar með orðið svartagallsraus og áhyggjurnar til einskis. Svo hélt hún auðvitað áfram að hrynja í allt sumar og haust. En það dugði hæstv. forsrh. til að fleyta sér áfram í gegnum þá umræðu að hún hafði mjakast þarna upp um örlítið bit í tvo, þrjá daga. Og svo kom hæstv. forsrh. hingað um daginn og var allur hinn kampakátasti því nú var bara sól í ranni, sól í sinni.

[14:30]

Þeir hefðu þá betur þagað yfir nýjustu verðbólgutölunum á Hagstofunni því þeir komu með mælingu og þá er verðbólgan óvart hærri núna milli mánaða, hækkunin meiri milli mánaða en nokkru sinni fyrr sl. átta eða tíu eða tólf mánuði. Hækkun milli nóvember og desember er 8,6% og er þó inni í því breyting á viðmiðun vísitölunnar í almennri vöruverslun sem tekur hana niður á móti öðrum hækkunum. Þeir hafa notað tækifærið, sem sjálfsagt má færa rök fyrir að hafi verið rétt vegna nýrra upplýsinga, og leiðrétt útreikning vísitölunnar í desember sem hafði leitt til 0,27% heildarlækkunar á vísitölunni. Það er ákaflega heppilegt fyrir þá að ná þessari leiðréttingu inn einmitt núna í desember því annars hefði auðvitað hækkunin farið upp úr öllu valdi milli mánaða. Það hefði ekki alveg passað inn í bjartsýnina, er það nokkuð?

Staðreyndin er sú að núna á fimm mánaða tímabili hefur verðbólgan milli mánaða í hverju einasta tilviki verið 8% eða meiri. Hún var 7,9% í ágúst, 8,4% í september --- hækkunin milli mánaða hverju sinni er sem sagt umreiknuð á ársgrundvöll --- 8% í október, 8,1% í nóvember og núna 8,6% mánaðarhækkunin umreiknuð á ársgrundvöll í desember. Þetta fimm mánaða tímabil nær sem sagt vel inn á níunda prósentið og þótt við tækjum næstu tvo mánuði á undan, þ.e. júní og júlí, var verðbólgan rétt tæp 7%, 6,8% annan mánuðinn og 7% hinn. Þó að við tökum þannig sjö mánaða tímabil, rúmlega hálft ár, er verðbólgan rétt um 8% á þessum tíma.

Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að ég sé ekki alveg tilefni til þessarar bjartsýni. Það er athyglisvert að nú rembast allir við, jafnvel þeir hinir sömu aðilar og maður hélt að hefðu eitthvað lært, og væru varkárir í því að elta fyrirmæli stjórnvalda um góðæri og gleðitíð, rembast við að finna sér einhverjar ástæður til þess að vera bjartsýnir þrátt fyrir hreyfingar milli mánaða aftur og aftur sem eru miklu lakari en þeirra eigin spár gerðu ráð fyrir. Þetta eru verri útkomur í verðbólgumælingunum en bæði Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun gerðu ráð fyrir. Það er staðreynd, herra forseti.

Hvað ætti þá að gefa okkur tilefni til að halda að þetta lagist allt saman af sjálfu sér hérna strax í janúar, febrúar, mars?

Vera kann að menn ætli að beita töfrabrögðum eins og þeim að fara bara til London. Og svo kunna menn að halda að þeim leggist eitthvað til utan að frá sem verði mönnum að liði í þessum efnum. Og það getur auðvitað vel verið. Ef hér yrði t.d. áframhaldandi stórfelld verðlækkun á olíuvörum hjálpar það auðvitað til, þá flytjum við inn verðlækkanir. Og það hjálpar á móti verðþenslunni innan lands. En fyrir slíku höfum við enga tryggingu.

Við vitum að það eru verulegar hækkanir í farvatninu eins og jafnan um áramót. Það eru hækkanir á afnotagjöldum útvarps. Það eru hækkanir á mjólkurvörum. Og það eru hækkanir á fleiri þungum neysluvöruflokkum sem við vitum. Og við vitum líka að menn hafa, margir hverjir, tilhneigingu til að endurskoða gjaldskrár sínar og leiðrétta þær um eða upp úr áramótunum. Þá eru menn að gera upp árið, menn fara í vörutalningu og annað því um líkt þannig að af ýmsum ástæðum liggur bara í eðli hluta að oft verða þá breytingar á.

Menn koma sjálfsagt og segja: Já, en útsölurnar maður, ertu búinn að gleyma útsölunum? Nei, ég er ekki búinn að gleyma þeim. Það getur hjálpað pínulítið tímabundið þegar verslanirnar setja á útsölur, það er rétt, en það sem ég óttast í þessu efni, herra forseti, eru undirliggjandi hækkunartilefni í pípunum, eins og sagt er, og því miður erum við að komast inn í það ástand og höfum verið að gera síðastliðið eitt til eitt og hálft ár að hækkunartilefnin eru komin í pípurnar og fóðra sig sjálf. Það er fjöldi aðila sem núna situr úti í þjóðfélaginu með þá hugsun í hnakkanum að nú þurfi hann eða hún að fara að sæta færis og lagfæra gjaldskrána hjá sér af því að menn hafa fengið á sig kostnaðarhækkanir í sínum rekstri, launin hafa hækkað, innflutt vara hefur hækkað gríðarlega vegna gengisþróunarinnar og þetta er ekki nema að litlum hluta til komið fram og út í innlent verðlag. Það er því miður algjörlega borðleggjandi, herra forseti, að þannig er það.

Ég verð því bara að segja alveg eins og er: Því miður get ég ekki deilt þessari miklu bjartsýni manna með að þetta verði allt í lagi.

Ríkisstjórnin er hins vegar svo kærulaus í þessum efnum að hún er hér með frumvörp sem valda umtalsverðum vísitöluáhrifum upp á við. Menn geta rifist hér um það hver þau nákvæmlega verða en það er algjörlega borðleggjandi að þessar hækkanir sem hér eru á ferðinni koma út, þær koma við og þær hafa vísitöluáhrif. Það er alveg ljóst. Skiptir þá kannski ekki öllu máli hvort það verða 0,35% eða eitthvað minna eða þess vegna eitthvað meira, þetta mun að sjálfsögðu hafa áhrif.

Herra forseti. Góðærið margumtalaða er á bak og burt --- það viðurkenna orðið allir og ég held að kannski mestu tímamótin í því hafi orðið þegar skopmyndateiknari Morgunblaðsins braut sólgleraugun á nefi hæstv. forsrh. Nú situr hann við það með hjálparkokkum sínum að reyna að líma þau saman með galdragripi eða hvað það heitir og gengur illa. Og ég held að þjóðarsálin upplifi þetta. Sólgleraugun sem hæstv. forsrh. gekk um með jafnt þótt hér væri þoka og rigning síðastliðin missiri eru nú brotin en allir sjáandi menn horfðust auðvitað í augu við hættumerkin.

Þá fer maður líka að hugsa, herra forseti, hvernig við ráðstöfum þessum hlutum sem við vorum að fá í hendur í formi aukinnar verðmætasköpunar í þjóðarbúinu á þessum tíma á meðan það var og hét. Því auðvitað var það þannig að stórfelld aukin verðmæti komu hér inn í þjóðarbúið, sérstaklega átti það við um fyrri hluta þessa tíma frá árinu 1994--1995 og fram um 1998--1999. Eftir það var þetta góðæri svokallaða að vísu að mestu leyti tekið að láni og sjálffóðrað á þenslu og viðskiptahalla.

Því miður, herra forseti, nýttum við þetta ekki sem skyldi. Þetta er eitt lengsta hagvaxtarskeið í seinni tíma sögu þjóðarbús okkar. Jú, ríkissjóður var vissulega rekinn með nokkrum afgangi og ég ætla alls ekki að mótmæla því að það var gott í sjálfu sér að staða hans er betri en ella væri. Ég tel kannski að það besta sem menn gerðu á þessum tíma hafi verið eingreiðslurnar á lífeyrisskuldbindingar opinberra starfsmanna. Ég held að það hafi verið og sé mjög skynsamlegt og mikilvægt að hugsa þannig til lengri framtíðar og búa sig undir það sem þar er í vændum. En að ýmsu öðru leyti verð ég að segja, herra forseti, að það eru mikil vonbrigði hvar við stöndum þrátt fyrir allt, núna þegar þetta skeið er sannanlega og óumdeilt á enda.

Ég nefni þar hvernig einstakir hópar samfélagsins una við sín kjör. Ég nefni þar öryrkja og aldraða. Það eru mikil vonbrigði að við skulum ekki hafa náð að rétta betur hlut þeirra sem höllum fæti standa í samfélagi okkar, að t.d. skattbyrði láglaunafólks skuli þurfa að vera svona þung, að það sé jafnmikil óánægja og raun ber vitni um þau kjör sem þeir sem þurfa að reiða sig á samfélagslaun, eins og við kjósum að kalla það í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, verða að una við. Og það er ekki nema von að menn séu óánægðir. Það þarf ekki flókinn samanburð, t.d. við stöðu þessara mála á hinum Norðurlöndunum, til að sjá að þarna standa okkar hópar mun lakar að vígi. Grunnellilífeyrir og örorkubætur eru hér á Íslandi mun lægri heldur en er á hinum Norðurlöndunum nema þá kannski helst í Finnlandi.

Það segir líka sína sögu, herra forseti, það segir í raun og veru ákaflega sláandi sögu um þessa sambúð svona hópa við ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar við hverja sú stjórn hefur átt í átökum og við hverja ekki. Við hverja hefur hún verið að slást? Hverjir hafa verið andstæðingar hennar? Jú, það eru öryrkjar. Það eru aldraðir. Það eru námsmenn. Sjúklingar. Og núna síðast kirkjan. Kirkjan. Þetta eru óvinirnir sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar velur sér. En það fer engum sögum af átökunum við fjármagnseigendur, við hátekjufólk og við gróðaöflin í þjóðfélaginu. Engum. Þar er allt í ljúfri löð. Og sérstakir talsmenn slíkra aðila fagna núna á torgum skattalækkunum á gróða og hátekjur. Það eru haldnar hátíðir í bænum, svona í vissum kreðsum, vegna örlætis hæstv. fjmrh. Það eru ekki hátíðir hjá samtökum öryrkja og aldraðra eða kirkjunni, námsmönnum eða sjúklingum, því það eru þeir hópar sem þessi ríkisstjórn hefur staðið í átökum við. Það eru þeir hópar sem una hlut sínum verst. Þarf það að vera svoleiðis? Er það vegna heimtufrekju þessara hópa? Er það vegna þess að gamla fólkið á Íslandi sé svo kröfuhart og heimtufrekt? Nei, það held ég ekki. Ég held að leitun sé að þolinmóðara og hófsamara fólki heldur en þeirri ágætu kynslóð sem nú eyðir elliárunum, útslitin eftir að hafa byggt upp þetta þjóðfélag. En auðvitað vill fólk að sæmilega sé að því búið, og lái hver sem vill t.d. öldruðum hjónum sem ekkert hafa nema tekjur úr almannatryggingakerfinu, að maður tali ekki um einstæðinga, þótt þau uni illa sínum hlut. Eða öryrki sem engar tekjur hefur aðrar en örorkubæturnar, sem býr einn og fær þar af leiðandi hámarksbætur, tæpar 80 þús. kr., en lendir í því að borga 70 þús. í skatta á ári hverju. Mánaðarframfærslu sína í skatta af þeirri smán sem þetta er.

Þetta eru hóparnir sem hæstv. ríkisstjórn treður illsakir við á sama tíma og hátekjufólk og gróðafjármagnseigendur og gróðaöflin í landinu fagna af ósköp eðlilegum og skiljanlegum ástæðum því þetta er fín ríkisstjórn fyrir þá sem betur mega sín í þessu landi. Hún hefur staðið sig mjög vel, ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, í því að hygla skjólstæðingum sínum og það er algjörlega borðleggjandi og augljóst hverjir þeir eru.

Aðeins frekar um kirkjuna, herra forseti. Það verður að teljast dálítið sérkennilegt hvernig hæstv. ríkisstjórn stendur að málum í þeim efnum. Maður leyfir sér að spyrja hvað veldur þessari meinbægni ríkisstjórnarinnar í garð kirkjunnar?

Herra forseti. Ég spurði hér í upphafi ræðu minnar hvort hæstv. forsrh., ábyrgðaraðili þessa máls, væri í húsi og því var lofað að kanna það mál.

(Forseti (GuðjG): Hæstv. forsrh. er í húsi.)

Já. Það er óskaplega gott að vita af því þó að maður berji hann ekki augum sem er enn betra náttúrlega.

Ég hefði áhuga á að heyra hæstv. forsrh. fara aðeins yfir það hérna með okkur hverjar röksemdirnar eru fyrir því að ganga svona að tekjum kirkjunnar og annarra trúfélaga í landinu. Og ég bið um eitthvað meira en markmið fjárlaga. Það eru ekki efnislegar röksemdir að segja að til að ná fram markmiðum fjárlaga verði að gera þetta eða hitt. Það er ekki réttlæting fyrir því að gera hvað sem er. Ríkið má t.d. ekki fara ránshendi um eignir annarra með ólögmætum eða óréttmætum hætti bara til að ná fram markmiðum fjárlaga. Eða er það? Ríkið getur ekki farið út í ólögmætar eignaupptökur sem brytu í bága við stjórnarskrána þó að menn telji sig þurfa að ná fram markmiðum fjárlaga enda nærtækt að vísa á að það eru til margar aðferðir til að ná fram markmiðum fjárlaga. Það er t.d. hægt að hætta við að lækka hátekjuskattinn svona mikið og láta kirkjuna í friði í staðinn.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst hæstv. fjmrh. vera að skjóta sjálfan sig svoleiðis í báða fætur með því að styðja þetta frv. í ríkisstjórn og hér á þingi. Er þetta ekki maðurinn sem fer með hörðu gegn þeim sem verða uppvísir að því að taka vörslufé ríkissjóðs í sinn vasa? Það eru einhver alvarlegustu brot á almennum hegningarlögum sem menn geta lent í, að taka vörslufé ríkissjóðs sem þeir hafa í höndum tímabundið, taka af launþegum sínum og eiga að skila hæstv. fjmrh., Geir Hilmari Haarde. Það er ekki miskunnin hjá Magnúsi ef Jóni Jónssyni í rekstrarerfiðleikum verður það á að standa ekki skil á vörslufénu, hæstv. forseti. Er það? Nei. Þá er hörðu að mæta hjá ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde. Þá er það lögreglan og sýslumaðurinn og tukthúsið bara um leið ef vörslufénu er ekki skilað í kassann.

[14:45]

En hvað er ríkisstjórnin að gera? Hún gengur í vörslufé því að auðvitað eru tekjur kirkjunnar, sem ríkið annast innheimtu á samkvæmt sérstöku samkomulagi, ekkert annað en vörslufé ríkisins, ekkert annað. Það er ljóst að kirkjan lítur svo á og trúfélögin líta svo á. Þetta eru þeirra sjálfstæðu tekjur, greiðslur þeirra safnaða sem menn komu þannig fyrir af praktískum ástæðum að þær væru innheimtar um leið og tekjuskattur og útsvar. Ég býst ekki við, þó að ósvífnin sé að vísu oft mikil í samskiptum ríkisins við sveitarfélögin, að menn geri það bara sisvona, af því að þeim dytti það í hug hérna í desember, að bara stela hluta af tekjum sveitarfélaganna, t.d. hlutdeild sveitarfélaganna, fara og stela hluta af útsvarinu.

Það er enn fráleitara að fara svona að kirkjunni vegna þess að þarna liggur til grundvallar samningur tveggja sjálfstæðra aðila og það voru efnislegar forsendur að baki honum, sem voru eignir kirkjunnar á sínum tíma og sem voru greiðslur félagsmanna safnaðanna og félagsmanna í trúfélögum eða þeirra sem völdu að skila Háskóla Íslands tekjum sínum. Ég spyr hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh.: Hver er munurinn á því að einhverjir aðilar úti í þjóðfélaginu ákveði að skila ekki hluta af vörslufénu og hinu sem ríkisstjórnin ætlar að gera þarna gagnvart kirkjunum og trúfélögunum?

Sérstaklega er þetta auðvitað ósanngjarnt og siðferðilega óverjandi í ljósi þess að þetta kemur verst niður á sjálfstæðu trúfélögunum sem ekki hafa launaða starfsmenn frá ríkinu, sem eingöngu hafa þessar tekjur til að fjármagna starfsemi sína. Ég nefni t.d. Fríkirkjusöfnuðinn, stóran og mjög vaxandi söfnuð. Það er algjörlega ljóst að þetta bitnar harðar á slíkum aðilum. Er þetta þá ekki orðin atlaga að trúfrelsi í landinu? Jú, þetta er auðvitað ekkert annað en atlaga að trúfrelsi í landinu þar með. Ég hef gaman af því að heyra efnisleg rök og réttlætingu hæstv. ríkisstjórnar á því að þetta sé gert. Ég verð að segja eins og er að ég varð forviða þegar ég fór að skoða hvað þarna er á ferðinni, hvað þarna er á dagskrá.

Herra forseti. Auðvitað eru það mikil vonbrigði að nú hefur brugðið til annarrar áttar í efnahagsmálum okkar og þjóðarbúskap. Þar eru orðin mikil veðrabrigði. Allt þetta ár sem nú er senn að kveðja einkennist af þessum umskiptum og umræðan ber mark sitt af því. Nú er hæstv. ríkisstjórn auðvitað í bullandi vörn og liggur undir ágjöf sem eðlilegt er. Þá kemur nú ýmislegt upp úr kafinu sem var sjónum manna hulið eða menn vildu ekki viðurkenna meðan þeir reyndu enn að lifa í þeirri trú að þrátt fyrir allt væri þetta í himnalagi, bara einhverjir örlitlir regnskúrir við sjóndeildarhring sem menn sáu á himninum. Nú er því miður orðið skýjað, nokkurn veginn alskýjað og heldur þungbúið. Þá er hægt að skoða bæði hvernig við stóðum að málum, hvernig við bjuggum okkur undir það sem í vændum er og svo auðvitað framhaldið, hvernig til tekst.

Ég hef áður sagt, herra forseti, að ég er ekki sérstaklega bjartsýnn á að þetta verði auðvelt eða læknist af sjálfu sér og sisvona á nokkrum næstu mánuðum. Ég sé ekki hinar efnislegu forsendur fyrir því þó að vissulega voni maður að okkur takist vel að komast í gegnum þetta. Það sem ég óttast mest er að sagan fari að endurtaka sig. Mér finnst hún í raun þegar byrjuð á því í þessu frv. hér og ýmsum ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar. Um leið og harðnar á dalnum þá grípa menn til sömu gamalkunnugu úrræðanna,, að þrengja að í velferðarkerfinu, þyngja byrðarnar á þeim sem þar eiga í hlut, hækka lyfjakostnaðinn hjá sjúklingunum, hækka kostnaðargjöldin o.s.frv. Því miður bryddir á því og auðvitað rúmlega það því að hér er að hluta til verið að gera mjög tilfinnanlegar breytingar gagnvart hópum eins og námsmönnum og sjúklingum og fleirum.

Það er nánast eins og það sé lögmál, herra forseti, að þolendurnir, þegar á bjátar í þessum efnum, verði alltaf þeir sömu, þ.e. hið almenna launafólk, gjarnan þeir sem lægri hafa launin, og þeir hópar sem eiga allt sitt undir hinu samábyrga velferðarkerfi okkar. Þeir verða þolendurnir. En þegar uppsveiflan er þá vitum við hverjir ná fyrst og mestri hlutdeild til sín. Sú uppsveifla sem nú er að baki er alveg nákvæmlega eins í þessum efnum.

Allar mælitölur sýna okkur að launamunurinn hefur aukist. Hæstu laun í landinu í dag hefðu þótt gjörsamlega óhugsandi hérna fyrir tíu árum, að hér skuli vera allmikil kippa af forstjórum með, hvað eigum við að segja, um tvær milljónir á mánuði eða jafnvel vel það í laun. Er það ekki staðreynd? Það eru tuttuguföld byrjunarlaun sjúkraliða. Svoleiðis launamunur hefði þótt óhugsandi fyrir ekki nema bara tíu árum, hvað þá fyrir tuttugu árum þegar menn hér á Alþingi voru með hugmyndir um að það væri hægt að festa jafnvel með lögum mesta mögulegan launamun, setja hann innan ramma þannig að hann skyldi aldrei verða meiri en tvöfaldur eða þrefaldur. Nú hefur náttúrlega dregið þarna gríðarlega í sundur.

Að þessu leyti höfum við siglt í áttina til svona amerísks ástands þar sem þessir hlutir eru að vísu enn þá svakalegri, enda hafa menn keyrt þar grímulausan kapítalisma áratugum saman af mikilli hörku, eins og kunnugt er. Hægt er að nefna aldeilis fáránlegar tölur um svo óhóflegan launamun og aðstöðumun að engu tali tekur. Í nýlegri bandarískri könnun kom t.d. í ljós að meðallaun forstjóra í meðalstórum og stórum amerískum fyrirtækjum voru fjögur hundruð og átján-föld laun almennra starfsmanna. Það er sem betur fer enn þá langt í land með að við lendum í þeim ósköpum en við erum þó á býsna hraðri siglingu í þá átt. Mér finnst t.d. tuttugufaldur launamunur eða jafnvel vel það, eins og er til staðar innan margra íslenskra fyrirtækja, auðvitað alveg svakalegur.

Eru þá rétt viðbrögð við þessari þróun, sem hefur öll verið í þessa átt, að lækka sérstaklega hátekjuskattinn? Það er auðvitað með ólíkindum að maður skuli standa frammi fyrir slíku nú um stundir.

Herra forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu. Ég hef hér innt hæstv. ráðherra sérstaklega eftir ákveðnum atriðum. Ég hef leitað eftir hugmyndum um erlendar lántökur og hvernig þær séu hugsaðar, ef á dagskrá eru. Þá er ég að tala um hugmyndir um hinar sérstöku lántökur ríkissjóðs án sérstakra tilefna, sem efnhagslegs stjórntækis. Ég hef spurt út í þetta með meðferðina á trúfélögum og kirkjunum og einnig væri fróðlegt að heyra mat hæstv. ráðherra á verðbólguforsendunum m.a. í ljósi nýjustu talna í þeim efnum. Þó að við lítum fram hjá þeim en skoðum bara þá staðreynd að þróunin hefur verið óhagstæðari en spár gerðu ráð fyrir, nánast samfellt í rúmlega hálft ár og það er ekkert lát á þeirri þróun núna með síðustu mælingu, hlýtur að vakna sú spurning: Hvað gefur mönnum tilefni til þeirrar miklu bjartsýni í þessum efnum sem menn eru að reyna að hafa uppi hér við áramótin? Hvað er það? Út úr hverju lesa menn efni til þess að vera svona bjartsýnir? Þó að það sé auðvitað gott í sjálfu sér og um að gera að bera sig vel gagnvart erfiðleikunum þá má það ekki leiða út í tómt óraunsæi. Það má ekki leiða til þess að menn missi fæturna frá jörðinni. Ég held að það sé miklu líklegra til árangurs í glímunni við erfið mál eins og misvægið, misgengið og erfiðleikana í efnahgsmálunum, að standa báðum fótum traust á jörðu og reyna þannig að takast á við vindinn því að annars fjúka menn bara burt.