Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 14:55:35 (3199)

2001-12-13 14:55:35# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SvH
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[14:55]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er ekki fyrir að synja að hæstv. ríkisstjórn hefur lag á að koma mönnum í opna skjöldu. Það varð þegar tillögur hennar í sambandi við ríkisfjármálin voru lagðar fram að í sumum efnum varð sá sem hér stendur steini lostinn. Þar á ég sérstaklega við aðfarirnar að námsfólki, að sjúklingum og kirkju, þjóðkirkjunni og trúfélögum.

Hæstv. forsrh. gat þess í framsöguræðu sinni að stefndi í nokkurn samdrátt þjóðarútgjalda og minni hagvöxt en áður. Hann hafði uppi þau undarlegu rök að sú þróun væri að mörgu leyti jákvæð þar sem hún leiddi til aukins jafnvægis í efnahagsmálum sem m.a. birtist í minnkandi viðskiptahalla. Sem sagt meiri kreppu --- meiri dáin börn, sagði Pétur þríhross --- til þess að rétta þetta almennilega af.

Hann lagði áherslu á að þetta væri allt í samræmi við efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, að viðhalda stöðugleika og styrkja undirstöður atvinnulífs og stuðla að bættum kjörum. Þess vegna væri aðhaldssamri stefnu beitt. Á öðrum stað sagði hann að það þyrfti að gæta aðhalds í ríkisrekstri og ná jafnvægi í ríkisbúskapnum. Í öðru orðinu er allt í sóma og í jafnvægi en að hinu leytinu leita menn eftir nýju jafnvægi í ríkisbúskapnum.

Hæstv. ráðherrann sagði að ríkisstjórnin teldi afar mikilvægt að áfram verði fylgt aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálunum til að treysta stöðu efnahagslífsins. Til þess að treysta stöðugleika og treysta stöðu efnahagslífsins eru refarnir skornir en að vísu hafa þeir sjálfir, með tillögugerð sinni og málafærslu nú síðasta missirið, játað svo að ekki verður um villst að stöðugleikinn er rokinn út í veður og vind.

Ég hef áður margtekið hér fram og bent á að aðalráð ríkisstjórnar á hverjum tíma til þess að hamla gegn spennu og óstöðugleika er beiting ríkisfjármálanna. Hvernig hefur til tekist? Nú er boðað að menn ætli að halda fast við þriggja milljarða afgang af ríkisbúskapnum og telja þá ekki með, sem að líkum lætur, söluágóða af eignum ríkisins. En til hvers er barist, á hverju eigum við von á næsta ári? Hvert vísa staðreyndir okkur í því efni? Hvernig umgekkst hæstv. ríkisstjórn fjárlögin fyrir 2001?

Hér eiga að ganga af þrír milljarðar en þeir notuðu sér að vísu engar heimildir, en venju, til að yfirdraga um 15 milljarða. Þeir notuðu sér hefð til þess að fara umfram heimildir fjárlaga og sækja 15 milljarða aukreitis sem þeir eyddu. Dettur einhverjum í hug, miðað við þessa stöðu, að þeir muni ekki fara langt fram yfir þrjá milljarða? Til hvers er þá barist? Þeim væri nær að setja um það lög sem bönnuðu þeim sjálfum að fara fram yfir þær lagaheimildir í fjárútlátum sem afgreiddar eru hverju sinni. Það mundi áreiðanlega hafa miklu meiri áhrif en þessi hugmynd um að halda sig við þrjá milljarða í afgangi. Augljóslega mun það ekki takast.

[15:00]

Með þessum yfirdrætti, þessari umframeyðslu, tókst þeim að hækka útgjaldahlið fjárlaga um u.þ.b. 20% milli áranna 2000 og 2001. Þetta er nú öll aðhaldssemin í meðferð fjármála ríkisins. Þegar við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár eru þeir komnir yfir verðlagsþróun. Svo er eftir að bæta umframeyðslunni við. Beiting ríkisfjármálanna er því alveg öfug við það sem þurft hefði að vera, gjörsamlega öfug, og hefur leitt til stóraukinnar spennu.

Ég leyfi mér þá að víkja að þessum sérkennilegu atriðum í tillögugerð ríkisstjórnarinnar sem ég verð að segja að mér sé nær að halda að hafi verið eitthvert fát og fum. Ég á þess vegna von á að hæstv. ríkisstjórn átti sig og dragi þessi atriði til baka.

Hæstv. ríkisstjórn ætlar að halda eftir af því sem hún hefur tekið að sér að innheimta fyrir þjóðkirkjuna og trúfélög. Hv. síðasti ræðumaður, Steingrímur J. Sigfússon, vék nógu rækilega að því. En ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að vitna til leiðara í Morgunblaðinu í morgun. Það er blað okkar hæstv. forsrh. Eins og þar er tekið á málum tel ég að leiðarinn eigi fullt erindi inn í þingtíðindi hins háa Alþingis.

Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Ríkisstjórnin hefur lagt til við Alþingi, í tengslum við sparnaðaraðgerðir í ríkisfjármálum, að haldið verði eftir í ríkissjóði hluta af sóknar- og kirkjugarðsgjöldum, sem eiga að koma í hlut þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga annars vegar og kirkjugarða hins vegar.

Kirkjuráð hefur andmælt þessu og réttilega bent á að gjöldin sem um ræðir séu tekjur kirkjunnar og annarra trúfélaga en ekki tekjur ríkisins. Sú upphæð sem ríkið á lögum samkvæmt að standa skil á til trúfélaganna sé heldur ekki ríkisframlag. Ríkið sé einvörðungu innheimtumaður sem nú taki einhliða ákvörðun um að skila innheimtufénu ekki til rétthafa þess heldur halda hluta þess eftir til annarra þarfa.

Það er vissulega full þörf á að spara í ríkisútgjöldum. Hins vegar er fullkomið álitaefni hvort rétt er að telja skil ríkisins á sóknar- og kirkjugarðsgjöldum til ríkisútgjalda. Í lögum um sóknargjöldin segir að trúfélög skuli eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti sem ríkissjóði ber að standa skil á til þeirra mánaðarlega. Í lögunum eru jafnframt ákvæði um að upphæð gjaldsins skuli hækka til samræmis við hækkun á tekjuskattsstofni milli ára. Með sambærilegum hætti eiga t.d. sveitarfélögin hlutdeild í staðgreiðsluhlutfallinu, útsvarið, sem rennur til þeirra óskert.

Á sínum tíma var gerð sú breyting að skil ríkisins á þessum gjöldum til kirkjunnar voru gjaldfærð á ríkisreikningi, en þá með þeim rökum að eingöngu væri um bókhaldslegt atriði að ræða sem breytti engu um að sóknargjöldin rynnu ekki í ríkissjóð og fjárhagslegu sjálfstæði þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga væri í engu raskað.`` Eins og kirkjuráð segir í greinargerð sinni, sem sagt er frá í Morgunblaðinu í dag, eru tekjur kirkjunnar ,,frá henni sjálfri sprottnar að meginstefnu til en ekki ríkinu þótt framsetning fjárlaga beri þess ekki merki``.

Og áfram segir, herra forseti:

,,Það tekjuöryggi, sem innheimta félagsgjalda í trúfélögum samhliða almennum sköttum hefur veitt þjóðkirkjunni og öðrum trúfélögum, hefur á undanförnum árum bætt mjög fjárhag trúfélaganna og eflt þjónustu þeirra við almenning, um það er ekki deilt. Hagræði trúfélaganna af innheimtufyrirkomulaginu er augljóst og draga má stórlega í efa að tekjur trúfélaganna innheimtust eins vel ef þau þyrftu að annast innheimtuna sjálf. Um þetta fyrirkomulag hefur hins vegar samist milli ríkis og kirkju, m.a. á þeim forsendum að þjóðkirkjan og önnur trúfélög veiti öllum almenningi þjónustu, sem greitt sé fyrir með sóknar- og kirkjugarðsgjöldunum. Í gildandi lögum er greinilega gert ráð fyrir fjárhagslegu sjálfstæði trúfélaganna, en ekki að þau séu á framfæri ríkisins. Eins og bent er á í greinargerð kirkjuráðs hefur undanfarin ár verið unnið að því að efla sjálfstæði kirkjunnar og ríkisvaldið hefur undirritað samninga um að innheimta sóknar- og kirkjugarðsgjöld án þess að gera fyrirvara um að það geti haldið hluta þeirra eftir ef þannig stendur á.

Það eru vissulega rök í málinu að trúfélögin verði að draga saman seglin eins og aðrir þegar harðnar á dalnum í efnahagslífinu, en á móti kemur að gert er ráð fyrir að tekjur þeirra fylgi tekjuskattsstofninum, sem tekur mið af efnahagsástandinu. Jafnframt má benda á það að trúfélögin gegna flest mikilvægu mannúðarhlutverki og rétta mörgum hjálparhönd þegar hart er í ári. Líklegt er að meiri þörf verði fyrir aðstoð þeirra þegar efnahagsástandið versnar.

Deilur stóðu fyrir u.þ.b. áratug um svipaðar aðgerðir í ríkisfjármálum og nú eru lagðar til, þ.e. skerðingu sóknar- og kirkjugarðsgjaldanna. Þær deilur leystust farsællega og þjóðkirkjunni og öðrum trúfélögum var heitið því að til slíks myndi ekki koma aftur, heldur myndu þau halda tekjum sínum óskertum. Meginatriði málsins er auðvitað að ríkisvaldinu ber að standa við gerða samninga og fyrirheit við kirkjuna og önnur trúfélög.``

Við þessa tillögugerð, sem birt var af hálfu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum, má segja að kastað hafi tólfunum, þ.e. um að innheimtuaðilinn ætlaði sér að halda eftir af innheimtum gjöldum sem eiga að renna til þessara ákveðnu hluta. Slíkt mundi auðvitað ekki, eins og hér kom fram hjá síðasta ræðumanni, slíkt mundi engum haldast uppi og á auðvitað ekki að koma til greina af hálfu ríkisins. Þetta er eitt þeirra atriða sem ég trúi að sé fljótfærni og að hæstv. ríkisstjórn muni draga til baka.

Sama verð ég að segja um aðförina að námsfólki, eins og stendur í þeirra bæli nú um stundir. Þó að þeir sem stunda nám erlendis borgi ekki innritunargjöld hér þá kemur hið óskaplega gengishrun mjög illa við þeirra afkomu og þeirra nám erlendis. En að vega í þennan knérunn hlýtur að vera vanhugsað. Það þyrfti þá a.m.k., áður en tekin er ákvörðun um að fara ofan í vasa námsmanna, að endurskoða allan ferilinn í námi þeirra og aðbúð að öðru leyti.

Hið þriðja sem ég vona og trúi að hæstv. ríkisstjórn muni draga til baka er aðförin að sjúklingum. Til að mynda að tekin verði sú aðstaða frá sjúklingum utan af landi að geta gist á svokölluðum sjúkrahótelum fyrir viðráðanlegt verð og með því fygldarliði sem þeir þurfa nauðsynlega á að halda. Það eru fleiri atriði í þessu sambandi sem gera það að verkum að verulega er sótt að sjúklingum.

Ég endurtek að þetta getur ekki staðist, fyrir utan það að ýmsar þær ráðstafanir sem hér eru til umræðu hafa áhrif til hækkunar á verðbólgunni og maður skyldi halda að um þessar stundir væri ekki heppilegt að taka ákvörðun í efnahagsmálum sem leiðir til hækkunar á henni. Ég er sannfærður um að ef hæstv. ríkisstjórn hefði gefið sér ráðrúm til þá hefði hún fundið aðferðir til þess að mæta niðursveiflunni með auknum tekjum með öðrum hætti en með þessum fáránlega hætti.

Af hálfu Frjálslynda flokksins vil ég aðeins taka fram að við munum í fæstum atriðum fylgja nokkru af því sem hér er lagt til og við lokaafgreiðslu ekki koma nærri þeim lögum sem þá kynnu að verða samþykkt því að við viljum enga ábyrgð á þessum málatilbúnaði bera.