Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 15:18:55 (3203)

2001-12-13 15:18:55# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[15:18]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Að því leytinu er það rétt hjá hv. þm. að samræmis er gætt varðandi upphæðina. En það breytir því ekki að gjaldið gagnvart Kennaraháskólanum byggir á annarri lagastoð en gagnvart Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Á það var ég að benda. Því miður er það, held ég, alveg ljóst þessi upphæð stenst auðvitað ekki gagnvart kostnaði við innritun, kennsluefni og pappírsvörur sem nemendur við Kennaraháskóla Íslands fá því ef eitthvað er hefur innritunarkostnaður að sjálfsögðu lækkað verulega af þeirri einföldu ástæðu að menn hafa tekið tæknina miklu meira í þjónustu sína en áður var. Og eitt er til viðbótar varðandi Kennaraháskólann að meiri hluti nemenda í þeim skóla stundar svokallað fjarnám og fær því ekki þessa pappírsvöru eða kennsluefni á pappír heldur bara á netinu, og að sjálfsögðu bera nemendurnir kostnað af því sjálfir að prenta það út sem þeir hafa áhuga á að hafa á blaði.

Herra forseti. Einu til viðbótar er nauðsynlegt að vekja athygli á vegna þess að þetta mál snertir að sjálfsögðu fleiri skóla á háskólastigi. Því miður er staðan þannig nú þegar þessi lagabálkur verður samþykktur hér væntanlega innan skamms tíma, að þá fá ríkisháskólarnir minna úr ríkissjóði á hvern nemanda en hinir svokölluðu einkaskólar á háskólastigi, vegna þess að þau gjöld sem hér er verið að leggja til munu dragast frá framlagi ríkisins til skólanna. En eins og hv. þm. vita eru skólagjöld við hina skólana sem ríkið rekur ekki ekki dregin frá framlögum ríkissjóðs. Hér er því vægt til orða tekið, herra forseti, komin upp afar ankannaleg staða þegar hinir svokölluðu einkaskólar eru farnir að fá meira framlag úr ríkissjóði en ríkisskólarnir sjálfir.