Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 15:47:57 (3215)

2001-12-13 15:47:57# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[15:47]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að ég benti á í ræðu minni að ákveðið ójafnræði væri á milli þjóðkirkjunnar annars vegar og frjálsra trúfélaga hins vegar. Hins vegar þekkjum við líka ákveðnar sögulegar forsendur fyrir því. En það svíður hins vegar jafnsárt að horfa upp á það að trúfélög eins og t.d. Fríkirkjan, sem ég nefndi sérstaklega, sem byggir á sömu kennisetningu og þjóðkirkjan og er þannig tengd að meira að segja biskup vígir þar til embættis, þ.e. að slíkar kirkjur hafa ekki sama aðgang að stuðningi t.d. við framkvæmdir vegna kirkna sinna.

Varðandi hvað hægt er að gera í þessu sambandi þá hef ég kannski engar lausnir sérstakar nú og það verður ekki gert nú. En ég vildi vekja athygli á þessu ójafnræði. Helmingsmunur er á framlagi ríkisins til þjóðkirkjunnar annars vegar og trúfélaga utan þjóðkirkjunnar hins vegar. En það mætti hins vegar hugsa sér að þetta 18,5% gjald sem ríkið leggur ofan á sóknargjald, sem hefur líka ákveðnar sögulegar forsendur, yrði jafnað út til fleiri trúfélaga þannig að önnur trúfélög hefðu sama aðgang að Jöfnunarsjóði sókna sem þetta 18,5% gjald stendur undir.

Ég varpaði fyrirspurn fram til hæstv. dómsmrh. í fyrra til þess að fá upplýsingar um það hvernig Jöfnunarsjóður sókna hefði verið nýttur undanfarin tíu ár, 12 ár reyndar, og þar kom fram að söfnuðir þjóðkirkjunnar hefðu notið verulega mikils stuðnings. Framreiknað voru það um 3 milljarðar kr. á 12 ára tímabili sem fóru til jöfnunarsjóðsins til ýmissa verkefna, en þó mest til þess að styðja við endurbyggingu kirkna. Ég gæti því vel séð það fyrir mér að þetta 18,5% gjald yrði þess vegna lækkað sem því nemur þannig að sama upphæð væri en henni yrði jafnað á fleiri trúfélög.