Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 15:52:40 (3218)

2001-12-13 15:52:40# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[15:52]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Nú er verið að ræða frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þetta er ekki langt frv. eða í mörgum liðum. Ég tel að hér hafi verið farið vel yfir alla liði og gerð grein fyrir áherslum stjórnarandstöðunnar varðandi þetta frv.

Herra forseti. Mig langar að taka einn lið út úr, eina grein, 9. gr., sem er þess eðlis að fella á niður í lögum um heilbrigðisþjónustu 8. tölul. 1. mgr. 24. gr. þeirra laga, þ.e. að úr skilgreiningu, löngum lista skilgreininga hvað sé sjúkrahús, eigi að fella brott sjúkraheimili sem við köllum í dag sjúkrahótel.

Tilgangur þess að fella sjúkrahótel úr skilgreiningunni er sá að hægt verði að innheimta fæðiskostnað fyrir þá sjúklinga sem dvelja á sjúkrahótelinu eða gjald fyrir dvölina.

Herra forseti. Skilgreining í lögunum á sjúkrahúsi er mjög víð og rétt er að benda á að gott væri að leggja vinnu í að fara vel í þá skilgreiningu og yfir þær stofnanir sem falla undir þá skilgreiningu þannig að samræmi sé á milli þeirra stofnana sem falla undir sjúkrahús og þeirra stofnana sem eru skilgreind þarna undir og hafa getað tekið gjald fyrir einhvern hluta þjónustunnar, t.d. fyrir fæði.

Svo það sé alveg ljóst, herra forseti, þá tel ég að sú þjónusta sem veitt er á sjúkrahóteli sé nokkuð sem við eigum að stuðla að og byggja upp. Ég trúi því að á næstu árum munum við standa að --- ég vona það a.m.k. --- markvissri uppbyggingu sjúkrahótela, bæði á höfuðborgarsvæðinu og eins við fjórðungssjúkrahúsið fyrir norðan, því þörfin er mjög mikil. Þetta er ódýr valkostur. Þessi þjónusta er þekkt á Norðurlöndunum en munurinn er sá að þar er þjónustan er vel skilgreind og fellur undir þjónustu ríkisspítalanna og þeir bera ábyrgð á þjónustunni þar, með mismunandi hætti þó. Ég hef verið að afla mér upplýsinga undanfarinn mánuð hvernig þetta fyrirkomulag er á hinum Norðurlöndunum og það er mismunandi rekstur en á ábyrgð ríkisspítalanna, svo það komi fram.

Ég hvet hæstv. heilbrrh. að fara í að skilgreina sjúkrahótel og marka stefnu um uppbyggingu sjúkrahótela og hafa þau sem hluta af heilbrigðisþjónustunni, en grípa ekki til þess ráðs eins og núna að kippa sjúkrahótelum undan skilgreiningunni um sjúkrahús eingöngu til þess að geta tekið þessar 700 kr. fyrir fæði á sólarhring, til þess að ná inn 10 millj. í rekstur Rauða krossins vegna þess kostnaðar sem Rauði krossinn ber af þessari þjónustu umfram það sem hann fær daggjöld fyrir og 1 millj. til íbúða sem Rauði krossinn og Krabbameinsfélag Íslands eru með við Rauðarárstíg 33.

Miklu heillavænlegra væri að falla frá þessari heimild og líta á rót vandans sem er sá að sjúkrahótelið hefur leyfi fyrir 28 daggjaldaplássum, fær greitt fyrir það, en er að nota að meðaltali allt að 40 plássum yfir vetrartímann og sl. vor hafði sjúkrahótelið 54 pláss. En þess ber að geta frá 1. maí og út september hefur Rauði krossinn ekki aðgang að fleiri herbergjum eða plássum en 28 því þá er Fosshótel að nota annan hluta hótelsins. Vorið er mikill álagstími á sjúkrahúsunum vegna fjölda aðgerða og sjúklingar hafa því verið útskrifaðir fyrr svo þetta komst upp í 54 sjúklinga þegar mest var.

Það segir sig sjálft að Rauði krossinn getur ekki borið þennan kostnað. Hann á eftir að gera upp árið við Fosshótel og standa skil af þessum umframrúmum eða herbergjum sem þeir hafa notað yfir árið. Það verður auðvitað að bregðast við þessum vanda Rauða krossins, en það verður þá að gera með úrræðum sem duga til lengri tíma því þetta er ekkert að breytast. Þörfin á plássum mun aukast frekar en hitt. Nú er það ekki bara Landspítalinn sem notar þessi pláss heldur gera einkareknar stofur það líka því þær mundu ekki getað tekið að sér eða sinnt ýmsum aðgerðum nema að hafa það í bakhöndinni að geta komið sjúklingum beint inn á sjúkrahótel þar sem þeir fá hjúkrun.

[16:00]

Þá ætla ég að koma að því sem skiptir máli, herra forseti, og það er skilgreiningin á sjúkrahúsunum í lögunum um heilbrigðisþjónustu. Skilgreiningin í 23. gr. laganna er svohljóðandi:

,,Sjúkrahús eru í lögum þessum hver sú stofnun sem ætluð er sjúku fólki til vistunar og þar sem læknishjálp, hjúkrun og allur aðbúnaður er í samræmi við það sem þessi lög og reglugerðir þar að lútandi krefjast.``

Þessi skilgreining nær sannarlega yfir starfsemi sjúkrahótelsins í dag. Mér hættir til, herra forseti, að segja sjúkrahússins, því í heimsókn minni á sjúkrahótelið fannst mér ég vera komin inn á deild á sjúkrahúsi. En hafi verið mögulegt fyrir segjum bara tveimur, þremur árum að taka sjúkrahótelið undan skilgreiningu sjúkrahúss vegna þess að þar hafi ekki verið um hjúkrun eða meðferð eins og er í dag að ræða, þá var samt sem áður á þeim tíma ráðinn læknir í 20% starf. Og þó að þá hafi hjúkrunarfræðingar ekki verið ráðnir til starfa, voru starfsstúlkur sem sinntu sjúklingunum og mikið var um útköll af bæjarvaktinni og sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðingum á sjúkrahóteli.

En staðan er sú að sjúklingar eru útskrifaðir miklu fyrr en áður. Þeir eru miklu veikari en þeir voru. Og það hefur komið fyrir, þó að í undantekningartilfellum sé, að þeir hafa verið það veikir að þeir hafa farið beint með sjúkrabíl inn á sjúkrahús aftur, það var ekki hægt að taka á móti þeim.

Ef umönnun sjúklinganna er það mikil að þeir hjúkrunarfræðingar sem vinna á sjúkrahótelinu geta ekki sinnt þeim, þá er kallað á sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðinga sem koma inn í hjúkrunina. Þetta eru mikið veikir sjúklingar, sjúklingar sem margir hverjir eru í krabbameinsmeðferð. Þarna fara fram umbúðaskipti og mjög mörgum sjúklingum er hjálpað við lyfjagjöf. Það er ekki séð um að skipta um vökva, ef sjúklingar þurfa vökva þá er kallað á þá hjúkrunarfræðinga sem eru í þjónustu Landspítalans til að gera það. Þarna eru veikir sjúklingar og þarna er umönnun og hjúkrun.

Því tel ég, herra forseti, að það sé ekki með nokkru móti eðlilegt miðað við þessar aðstæður að taka sjúkrahótel undan skilgreiningunni. Hugsanlega var það hægt í byrjun, en það er ekki lengur hægt.

Hjúkrunarfræðingar sem þarna starfa eru samkvæmt sérstöku samkomulagi ráðnir frá 1. janúar á þessu ári og þeir eru ráðnir við Landspítalann. Þetta eru þrjú og hálft stöðugildi sem Landspítalinn leggur þessari þjónustu til. Þá er ekki gerður neinn greinarmunur á því hvort sjúklingarnir koma frá Landspítalanum eða frá aðilum utan úr bæ.

Læknisþjónustan er með þeim hætti að hver sá læknir sem innritar sjúkling eða skráir á sjúkrahótelið --- það er ekki um innlögn að ræða því ekki er talað um þetta sem sjúkrahús --- ber ábyrgð á sjúklingi sínum, þannig að komi eitthvað upp á er hringt í viðkomandi lækni. Þarna eru líka starfsstúlkur, en álagið er orðið það mikið að hjúkrunarfræðingarnir eru alla virka dag vikunnar til klukkan 10 á kvöldin og sá hjúkrunarfræðingur sem er á kvöldvakt tekur áfram bakvakt á nóttunni til þess að hafa samfellu í þjónustunni. Þarna er bakvakt hjúkrunarfræðinga allar helgar. Þeir eru á daginn og svo taka þeir bakvaktir allar helgarnar.

Herra forseti. Það er mun ódýrara að hafa vel rekið sjúkrahótel í heilbrigðisþjónustunni. Ég sé það fyrir mér að í framtíðinni geti Landspítalinn haft umsjón með eða verið ábyrgur fyrir rekstri sjúkrahótels, þannig að samfella verði í þjónustunni og þannig er það í dag. Það er samfella í þjónustunni. Landspítalinn gæti ekki starfað eins og hann gerir núna, útskrifað sjúklinga svona hratt, svona fljótt, nema hafa sjúkrahótelið og þess vegna tel ég að það sé rétt að byggja þetta upp. Það er hreint og beint treyst á það að sjúklingarnir geti farið þarna inn.

En ég sé ekki fyrir mér, herra forseti, hvernig þessi samfella í þjónustu verður varðandi ráðningu hjúkrunarfræðinganna sem Landspítalinn leggur til, ef þetta er tekið undan skilgreiningu sjúkrahúss. Ég held að starfsemi sjúkrahótelsins sé þá skilin eftir í óvissu og það sé miklu mikilvægara að viðurkenna þörfina á daggjaldaplássunum og verða við þeirri beiðni sem liggur fyrir um að fjölga þeim um 20. Þá er verið að uppfylla þá þörf sem fyrir er og er nýtt í dag. Og fara síðan í heildstæða vinnu og skilgreiningu á sjúkrahótelum, hvernig þau eiga að vera rekin, hver eigi að bera ábyrgðina á þeim og nýta þennan valmöguleika til hliðar við sjúkrahúsin.

Í Kaupmannahöfn er sjúkrahótel á lóð ríkisspítalans. Og vaktirnar og ábyrgð læknaþjónustunnar er mjög vel skilgreind, hvernig hún er samtengd þjónustu ríkisspítalans í Kaupmannahöfn og þar sem sjúkrahótelið sendur á lóð ríkisspítalans er hægt að bregðast mjög skjótt við ef sjúklingar veikjast. Þar er ekki tekið gjald af sjúklingum. Aftur á móti er tekið sem svarar fæðisgjaldi af hverjum sjúklingi í Svíþjóð. Hér hefur það gjald sem tekið var af sjúklingum verið kallað fæðisgjald. Það var skilgreint þannig, en auðvitað voru þessar 700 kr. eða 10 milljónir á þessu ári bara fjármunir til þess að fá upp í þennan mikla hallarekstur eða þann kostnað sem Rauði krossinn hefur borið af aukinni starfsemi. Þetta er því með ýmsu móti.

Ef við förum í þá vinnu að koma sjúkrahótelunum fyrir inni í heilbrigðisþjónustunni með sérstökum hætti, þá held ég megi skilgreina það og skoða hvort við viljum fara að dæmi Dana eða Svía, en fara ekki í þetta svona, að taka þetta bara út og skilja síðan starfsemina eftir í lausu lofti.