Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 16:09:35 (3219)

2001-12-13 16:09:35# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[16:09]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við ræðum hér ráðstafanir í ríkisfjármálum og ég ætla að gera að umtalsefni þann þátt sem snýr að heilbrigðismálunum og skilaði ásamt hv. þm. Þuríði Backman inn áliti til efh.- og viðskn. um þann hluta frv.

Þar er til umfjöllunar sú breyting á skilgreiningu á sjúkrahótelum, að þau falli undan sjúkrahússkilgreiningunni.

Ég er mjög andvíg því að álögur séu auknar á sjúklinga. Hér er sem sagt verið að samþykkja að greiddar séu 700 kr. á dag sem er um 21.000 kr. á mánuði hjá þeim sjúklingum sem þurfa að dvelja þar inni. Við vitum að fólk utan af landi og líka þeir öldruðu sem þurfa að dvelja á sjúkrahóteli eftir spítalavist eða aðgerð geta þurft að dvelja þarna mánuðum saman. T.d. eru krabbameinssjúklingar inni á sjúkrahótelinu þrjá til fjóra mánuði og jafnvel lengur. Sama á við um aldraða. Það eru geysilega miklir peningar fyrir aldraðan sem er bara með bætur frá Tryggingastofnun að greiða 21.000 kr. fyrir dvöl á sjúkrahóteli, sem hv. þm. Þuríður Backman lýsti vel að er ekkert annað en sjúkrahús miðað við þá þjónustu sem er verið að veita þar nú eftir að sjúklingar hafa verið fluttir þangað mun verr staddir en í upphafi. Aldraður sem er á bótum frá Tryggingastofnun og býr einn sem er nú í flestum tilvikum, er kannski með um 80.000 kr. frá Tryggingastofnun. Hann þarf að reka heimili sem stendur autt af því hann getur ekki farið heim og verið þar einn. Þar ofan á þarf hann að greiða 21.000 kr. og síðan allar aðrar álögur sem á sjúklinga hafa verið lagðar.

Sjúklingur utan af landi, við skulum segja krabbameinssjúklingur sem er hér til meðferðar og þarf kannski að dvelja hér í nokkra mánuði vegna meðferðarinnar, sumir geta farið heim til sín á milli sem betur fer, greiðir verulegar upphæðir ofan á þær upphæðir sem hafa verið lagðar á af ríkisstjórninni, nú síðast í sumar þegar gjöldin voru hækkuð á göngudeildum, vegna röntgen og annarrar þjónustu við sjúklinga sem þurfa að sækja göngudeildir.

Herra forseti. Það er von að hæstv. forsrh. gangi út, að þurfa að bera ábyrgð á því að leggja slíkar álögur á sjúklinga, því bara í þessum fjárlögum er verið að leggja til viðbótar u.þ.b. hálfan milljarð á sjúklinga ef allt er reiknað til.

Ég vil einnig minna á að með samþykkt fjárlaga í síðustu viku voru samþykktar forsendur fjárlaganna og þar er gert ráð fyrir að gjöld fyrir sérfræðilæknisþjónustu hækki verulega, hækki um nokkur hundruð prósent í sumum tilvikum.

Ég hef látið reikna út fyrir mig mjög algengar aðgerðir sem hækka um nokkur hundruð prósent hver aðgerð og get nefnt bæklunaraðgerð sem er hnéaðgerð og eru mjög algengar, bæði hjá íþróttafólki og hjá almenningi t.d. erfiðisvinnufólki. Þær munu hækka úr 6.000 kr. í dag, þær voru reyndar 5.000 kr. í sumar fyrir 1. júní, þá þótti ríkisstjórninni ástæða til að hækka slíkar aðgerðir um þúsund krónur, en nú er sem sagt þakið á þessum aðgerðum tekið af og þeir sem fara í hnéaðgerðir borga yfir 21.000 kr. fyrir aðgerðina, þó að þeir séu komnir með afsláttarkort.

Ef þeir þyrftu nú að láta gera aðgerð á báðum hnjám, sem er líka algengt, þá þyrftu þeir í dag að borga 6.000, en þegar þessi breyting sem er boðuð í fjárlögunum tekur gildi, þá greiðir sjúklingurinn yfir 28.000 kr. Ef hann síðan þarf að fara aftur borgar sjúklingurinn hærra. Þessar aðgerðir að hækka verulega hjá sjúklingum.

Ef fullorðinn einstaklingur þarf að láta taka úr sér kirtla hækkar það úr 6.000 kr. í rúmar 10.000 kr. Það má þó geta þess að slíkar aðgerðir hækka ekki hjá börnum og minna hjá öldruðum, en hámarksþakið áður en fólk fær afsláttarkort var hækkað í sumar. Hjá almenningi var það 12.000 kr. til 1. júli, nú er það orðið 18.000 kr., þannig að fólk er að borga hærri upphæðir áður en það fær afslátt, en eftir að 18.000 kr. markinu er náð borgar sjúklingurinn einn þriðja af því gjaldi sem aðgerðin kostar, umfram 18.000 krónurnar.

[16:15]

Hjá ellilífeyrisþegunum var gjaldið 3.000 kr. Það þak hækkaði líka um 50% í sumar og er nú 4.500 hjá lífeyrisþegunum. Barnafólkinu var hlíft að þessu sinni og ég geri ráð fyrir að það hafi verið Framsfl. sem barðist fyrir því að hlífa barnafólkinu því að hámarkið fyrir börnin í fjölskyldunni var látið halda sér, 6.000 kr. Ég verð að segja að það er vel þótt ég fordæmi harðlega hækkun á gjöldum til sjúklinga fyrir sérfræðiþjónustuna, þ.e. til þeirra sem ekki eru börn eða aldraðir.

Mig langar líka að nefna aðra aðgerð sem hækkar verulega og það er æðahnútaaðgerð, ein hlið, þ.e. öðrum megin. Hún kostar nú 6.000 kr. en með reglugerð frá ráðuneytinu sem ég geri ráð fyrir að taki gildi um áramótin, ef ég þekki vinnubrögðin í heilbrrn. frá gamalli tíð, mun þetta hækka úr 6.000 kr. í dag í yfir 20.000 kr., æðahútaaðgerð á öðrum fæti. Hafi menn tök á því að fara í slíkar aðgerðir nú þegar munu þeir spara sér þarna verulegar upphæðir en ég geri ekki ráð fyrir að menn hafi mikið val um það.

Rannsóknir og röntgen sem hækkuðu í sumar á milli 20 og 66% eins og kom fram í umræðunni fyrr í dag hafa líka gert það að verkum að krabbameinssjúklingarnir utan af landi sem ég nefndi áðan þurfa að dvelja á sjúkrahótelinu og borga háar upphæðir, yfir 18.000 kr. fyrir fyrstu komu, áður en þeir ná afsláttarkortinu. Síðan greiða þeir heldur lægri upphæðir í næstu komu en strax eftir áramótin fellur síðan afsláttarkortið úr gildi miðað við þær reglur sem gilda nú og þá er farið að greiða aftur fullt þangað til 18.000 kr. hámarkinu er náð.

Þetta sýnir í hnotskurn hvar ríkisstjórnin finnur breiðu bökin. Hún er að láta sjúklingana, veikt fólk sem ekki getur unnið, veikt fólk sem ekki getur farið heim til sín að lokinni aðgerð, fólk sem ekki getur farið heim til sín vegna þess að það býr fjarri og þarf að sækja læknisþjónustu hingað, greiða tekjuafgang fjárlaga. Hér er það hálfur milljarður sem á að sækja í vasa þessa fólks.

Þetta er alveg dæmigert fyrir íhaldsstefnu þessarar ríkisstjórnar. Ég þreytist aldrei á að bera saman jafnaðarstefnuna og íhaldsstefnuna því þegar harðnar í ári eru peningarnir sóttir í velferðarkerfið hjá íhaldinu en jafnaðarmenn standa vörð um velferðarþjónustuna. Við höfum sýnt fram á það í tillögum okkar með fjárlögunum og sömuleiðis í sambandi við skattamálin að með tillögum okkar í þeim efnum skilum við jafnmiklum tekjuafgangi án þess að veitast nokkurs staðar að velferðarkerfinu. Þarna kemur munurinn á íhaldsstefnunni og jafnaðarstefnunni fram í hnotskurn.

Hv. þm. Þuríður Backman lýsti því vel hér áðan hvernig ástandið er á sjúkrahótelinu núna. Hún gerði það sem e.t.v. öll heilbr.- og trn. hefði átt að gera, hún hefði átt að kynna sér aðstæður áður en hún fjallaði um eða samþykkti þetta frv. Og lýsingin hjá hv. þm. var ekki fögur. Hv. þm. sem er hjúkrunarfræðingur þekkir hvernig það er þegar fólk er inni á sjúkrahúsi og hún sagði hér í ræðustól að það hefði verið eins og að koma inn á sjúkradeild að koma inn á sjúkrahótelið. Hún nefndi dæmi um að fólk hefði komið svo veikt þarna inn að það þurfti að senda það til baka á sjúkrahús, það var ekki hægt að taka á móti því. Þarna eru þrjú og hálft stöðugildi hjúkrunarfræðings á hótelinu og bakvaktir allan sólarhringinn. Það er ljóst að þarna er verið að veita hjúkrun og þá þjónustu sem venjulega er veitt á sjúkrahúsi. Og ef við hefðum ekki þetta úrræði værum við með mun hærri kostnað inni á spítala.

Ég tek undir það með hv. þm. að slíkt sjúkrahótel þyrfti að vera á lóð spítalans. Fyrrv. landlæknir, Ólafur Ólafsson, þreyttist ekki á að kynna fyrir okkur í heilbr.- og trn. á síðasta kjörtímabili hugmyndir sínar um sjúkrahótel. Þá kynnti hann einmitt þá hugmynd að sjúkrahótel þyrfti að vera inni á lóð sjúkrahússins eða mjög nálægt þannig að hægt væri að veita samfellda þjónustu frá sjúkrahúsinu sjálfu til sjúklingsins.

Það er auðvitað aumkunarvert að þurfa að sækja 10 millj. í vasa þess fólks sem neyðist til að dvelja á sjúkrahóteli. Og alveg er með ólíkindum að menn skuli ekki hafa fundið önnur breiðari bök til að íþyngja með kostnaði upp á 10 millj. en bök aldraðra sem eru e.t.v. búnir að liggja lengi inni og reka heimili annars staðar úti í bæ eða þeirra sjúku sem reka heimili úti á landi. Það kemur mér eiginlega á óvart að hæstv. heilbrrh. sem er þingmaður landsbyggðarinnar skuli hafa tekið í mál að koma með gjöld á þennan hóp, sérstaklega í ljósi þess að hann er landsbyggðarþingmaður og um 2/3 hlutar þeirra sem neyðist til að leggjast þarna inn vegna þess að þeir hafa ekki önnur úrræði koma af landsbyggðinni.

Ég get tekið undir að huga beri að því að koma á fleiri úrræðum sem þessum, eins og sjúkrahótelinu, en þá án þess að vera að rukka fyrir það. Sú staðreynd að 54 pláss skuli hafa verið nýtt á háannatímanum á sjúkrahóteli Rauða krossins segir auðvitað hve mikil þörfin er. Og það dugar alls ekki til að heilbrrn. eða hið opinbera sé að greiða fyrir aðeins 28 pláss. Það er alveg ljóst að það er sparnaður í þessu og menn verða auðvitað að horfast í augu við staðreyndir.

Af því að ég gerði hér að umtalsefni auknar álögur þessarar ríkisstjórnar á sjúklinga vil ég einnig geta kannana og úttekta sem bæði ASÍ og BSRB hafa verið að gera á auknum lyfjakostnaði almennings. Það sem kemur fram er að kostnaður hefur margfaldast á undanförnum árum. Sömuleiðis er mjög mikill munur á lyfjum eftir því hvort menn versla hjá stóru keðjunum hér á höfuðborgarsvæðinu eða hjá minni apótekunum úti á landi. Í fjárlögunum sem við samþykktum og þetta frv. er hluti af er gert ráð fyrir að spara 310 millj. á lyfjum og þar er sjúklingum ætlað að bera 200 millj. en 110 millj. á að spara með því að ná betri kjörum. Það er auðvitað gjörsamlega óþolandi og óviðunandi að stóru lyfjafyrirtækin skuli geta náð mun betri kjörum á kaupum á lyfjum heldur en ríkissjóður, heldur en heilbrigðisþjónustan. Síðan er kerfið farið að vinda upp á sig þannig að það er í rauninni verið að misnota þær reglur sem gilda og ég leyfi mér að segja að á kostnað ríkisins sé verið að veita sjúklingum afslátt í apótekunum, a.m.k. mætti túlka það á þann hátt í ákveðnum tilvikum.

Það er ekki forsvaranlegt að kalla þetta fæðisgjald, ég held því bara fram hér og fullyrði það. Það er rétt eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni að verið er að innheimta, og var verið að innheimta frá áramótum og til 1. október þessar 700 krónur af sjúklingum í leyfisleysi, í heimildarleysi, til að hafa upp í útistandandi skuldir, það er verið að greiða fyrir fleiri pláss. Ráðuneytið er að greiða fyrir 28 pláss og síðan vantar þarna upp á. Verið er að ná þessum peningum til að borga upp í það.

Því hefur verið haldið fram hér í umræðunni um ríkisfjármálin að þetta þurfi að vera gagnsætt, að öll gjöld þurfi að vera gagnsæ, það þarf að vera algjörlega ljóst fyrir hvað verið er að greiða.

Ég leyfi mér að halda því fram að ýmsir sjúklingar, m.a. krabbameinssjúklingar í mikilli meðferð, hafi ekki mikla matarlyst þannig að þeir borði ekki mikið í innlögninni, og margir mjög lystarlausir sem liggja þarna veikir, gott ef fólk var ekki með næringu í æð eða eitthvað slíkt sem var þarna inniliggjandi. Herra forseti. Ég verð að segja að ég tel ekki vera við hæfi að kalla þetta fæðisgjald fyrir utan það að ég tel gjaldið ekki við hæfi, ég er algjörlega andvíg því. Og ég óttast að gjald fyrir legu inni á sjúkrahóteli sem veitir þessa miklu heilbrigðisþjónustu sé bara fyrsta skrefið í því að fara að rukka fólk fyrir að leggjast inn á sjúkrahús. Það óttast ég. Og miðað við hvernig þessi ríkisstjórn kemur fram við sjúklinga kæmi mér ekki á óvart að það yrði næsta skrefið hjá þessari ríkisstjórn, að sjúklingar inni á spítölum yrðu næsta matarhola. Það er nóg sem verið að rukka fólk um sem notar göngudeildarþjónustuna hjá spítölunum og síðan er þetta áreiðanlega næsta skrefið ef allt er á sömu bókina lært hjá þessari ríkisstjórn.

Herra forseti. Ég held að afstaða mín til þessa atriðis í frv. hafi komið nokkuð skýrt fram. Ég er algjörlega andvíg því að leggja þessar álögur á sjúklinga og tel að þetta muni hafa í för með sér að fólk muni ekki geta leyft sér að njóta heilbrigðisþjónustu. Fátækt fólk á Íslandi mun ekki geta veitt sér það að fara í aðgerðir eftir að þessar reglur verða orðnar að raunveruleika. Ég spyr hæstv. ráðherra fyrst hann er viðstaddur þessa umræðu: Hvað verður gert við fátækt fólk sem ekki getur greitt þessar 700 krónur á dag? Hvað verður gert við ellilífeyrisþegann eða öryrkjann sem þarf að liggja þarna inni jafnvel í langan tíma án þess að geta farið heim til sín og getur ekki greitt 700 krónurnar, 21.000 kr. á mánuði? Verður gengið að þeim sjúklingum og þeir rukkaðir? Og hvað með þá fátæku sjúklinga sem koma hingað í alvarlega meðferð, hafa kannski verið óvinnufærir í langan tíma og koma í krabbameinsmeðferð?

Ég ætla að nefna dæmið sem ég notaði í umræðunni um fjárlögin, unga stúlku utan af landi sem er að fara í krabbameinsmeðferð og borgar 18.000 kr. Síðan hafa lyfin þær afleiðingar að hún er að missa sjónina og þarf að kaupa sér gleraugu fyrir tugi þúsunda. Gert er ráð fyrir að hún þurfi að kaupa ný gleraugu þegar lengra líður á meðferðina vegna þess hvaða áhrif lyfin hafa. Það er ekki komið neitt til móts við þann kostnað hjá þessari ungu stúlku. Og ef hún þyrfti að leggjast inn á sjúkrahótel ætti að fara að rukka hana um 700 kr. á dag eftir að hún er búin að borga yfir 18.000 kr. fyrir fyrstu meðferð á göngudeild. Hvaðan ætlast hv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra til að fólk hafi slíka fjármuni?

Hér er einfaldlega verið að stíga þau skref að fólki verði mismunað eftir efnahag, meina hinum fátækari aðgang að heilbrigðisþjónustunni. Og ég fordæmi það, herra forseti. Ég tel það ekki boðlegt, er algjörlega andvíg því og mun aldrei samþykkja að mismuna fólki eftir efnahag í aðgangi að velferðarþjónustunni.

Herra forseti. Ég held að ég dvelji ekki lengur við þetta ákvæði. Ég hefði gjarnan viljað gera að umtalsefni ýmis önnur atriði í þessu frv., þessum svokallaða bandormi, en ég held að ég sé ekki að lengja umræðuna. Ég tel að það þurfi að koma á fleiri úrræðum og ég heiti á hæstv. ráðherra sem ég veit að er mikill mannúðarmaður að hann taki þetta gjald af hið fyrsta. Ég veit að hann hefur orðið að lúffa fyrir Sjálfstfl. í þessum efnum því ég veit hvernig stefnan er hjá íhaldinu, að veitast alltaf að þeim sem verst eru settir, sjúklingum og þeim sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér, en ég heiti á hæstv. ráðherra að hann afnemi þessi gjöld sem hér er verið að setja á.