Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 16:31:19 (3220)

2001-12-13 16:31:19# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[16:31]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil undirstrika að varðandi sjúkrahótelin er ekki um nýja gjaldtöku að ræða. Þeir sem eru á sjúkrahóteli eru útskrifaðir af sjúkrahúsum. Það kom reyndar fram í máli hv. ræðumanna að fólk sem er of veikt til að leggjast inn á sjúkrahótel er í einhverjum tilfellum sent til baka. Það er náttúrlega eðlilegt. Það er ekki ætlast til að þarna sé um að ræða sjúkrahúsvist.

Varðandi það að taka þetta gjald eða festa í sessi --- eins og ég segi hefur það verið áður eins og hefur komið fram reyndar --- þá hefur það enga stefnubreytingu í för með sér varðandi innritunargjöld á sjúkrahús. Það kom upp umræða um innritunargjöld á sjúkrahús í sumar, m.a. hugmyndir frá stjórn Ríkisspítalanna eða stjórn Landspítala -- háskólasjúkrahúss um það. Ég hafnaði því að þar væri tekið gjald fyrir innlagnir. Sú afstaða mín er óbreytt.

Hv. þm. reiknaði hér út nokkur jaðardæmi varðandi gjaldskrárbreytingar. Með sömu hugmyndafræði mætti segja að taka eigi 86 millj. kr. í þessum hluta aðgerðarinnar, deila því upp í komufjölda til sérfræðinga og segja að þarna sé 199 kr. á komu. Mér dettur ekki í hug að halda því fram eða nota þá röksemdafærslu. Hins vegar munum við auðvitað, þegar við gefum út reglugerðina, fara yfir þessi jaðardæmi og áhrifin af þessari reglugerðarbreytingu. Ég kem nánar að því í næsta andsvari.