Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 16:37:49 (3223)

2001-12-13 16:37:49# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[16:37]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Enginn á að liggja á sjúkrahóteli nema hafa verið útskrifaður af sjúkrahúsi. Það er hins vegar þannig að verið er að útskrifa fólk fárveikt af sjúkrahúsum. Þess vegna er verið að senda það til baka inn á sjúkrahúsin vegna þess að sjúkrahótelið getur ekki alltaf tekið á móti þessum sjúklingum.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur hann nýlega farið inn á þetta sjúkrahótel og séð aðstæðurnar, séð við hvað fólk býr þarna og hversu veikt fólkið er inni á þessari stofnun? Ég tel mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra geri það.

Hæstv. ráðherra talar um að þeir sem þurfi sjaldan læknisþjónustu greiði meira en þeir sem þurfi hana oft greiði minna. Ég er alveg sammála þessari afsláttarkortahugmyndafræði. Ég tel rétt að fólk með börn borgi minna, að hámarkið eigi að vera lágt þar og barnafólk fái fljótt afsláttarkort eins og er. Það sama á auðvitað að gilda um lífeyrisþega. En þetta, að hækka gjöldin fyrir aðgerðir eins og á æðahnútum eða hnéaðgerðum um mörg hundruð prósent þannig að gjaldið fari upp í 28.000 kr., eða yfir 20.000 kr. eins og fyrir æðahnútaaðgerð á öðrum fætinum, gerir það að verkum að fátækt fólk getur ekki leyft sér að fara í slíka aðgerð. Einstæð móðir á lágum launum, láglaunafólk, leyfir sér ekki að fara í þessar aðgerðir. Hvað hefur það í för með sér ef þetta fólk fer ekki í aðgerðirnar? Það hefur í för með sér aukin útgjöld annars staðar í heilbrigðiskerfinu. Útgjöld aukast fyrir lyf, fólk er kvalið og þetta gæti jafnvel aukið greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar vegna lyfjakaupa.

Svo vil ég minna á það, af því hæstv. ráðherra talar um afsláttarkortin, að þau falla úr gildi um áramót. Þau gilda bara almanaksárið. Þá þarf fólk að fara að borga aftur og þá að fullu. Ég vil minna á að það mætti kannski skoða aðeins þetta með afsláttarkortin og láta þau gilda í ár eftir að fólk hefur fengið slíkt kort en ekki alltaf almanaksárið.