Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 16:40:06 (3224)

2001-12-13 16:40:06# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[16:40]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að benda á að þrátt fyrir þessi miklu og gríðarlegu gjöld sem hv. þm. talar um að sjúklingar hér á landi greiði fyrir heilbrigðisþjónustu þá er staðreyndin samt sú að í samanburði tuttugu og fjögurra landa OECD greiða heimilin hér á landi fjórðu lægstu hlutdeild í rekstri heilbrigðisþjónustu, þ.e. Íslendingar eru í fjórða sæti af tuttugu og fjórum löndum OECD hvað þetta varðar. Aðeins í þremur löndum OECD er hlutdeild heimila í heilbrigðiskostnaði lægri en hjá Íslendingum. Í kringum 15% af því heildarfjármagni sem fer til heilbrigðisþjónustu er framlag heimilanna, 85% er greitt af ríkinu.

Hv. þm. sló sér á brjóst áðan og telur að ráðstafanir ríkisstjórnarinnar um auknar álögur á sjúklinga, eins og hv. þm. orðar það, væru íhaldsstefna og taldi að jafnaðarstefnan brygðist öðruvísi við. Ég vil bara benda hv. þm. á að það voru jafnaðarmenn við völd í heilbrigðisráðuneytinu þegar hlutdeild almennings í heilbrigðiskostnaði reis sem hæst, það var á árinu 1993. Þá fór hún upp í 16,3%. Þá voru það jafnaðarmenn sem héldu um stjórnvölinn í heilbrrn. Ég vildi aðeins koma þessu að. (SJóh: Það hefur ekki verið Sjálfstfl.? Nei.)