Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 17:37:56 (3232)

2001-12-13 17:37:56# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[17:37]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra. Ég þakka honum jafnframt fyrir að grípa í taumana í októbermánuði, ef ég skildi hann rétt. Það kemur mér hins vegar ekki á óvart að enginn greiðenda hafi kvartað og engin umræða átt sér stað í samfélaginu.

Í fyrsta lagi frétti ég ekki af þessu fyrr en núna. Ég veit ekki til þess að þingmönnum hafi verið tilkynnt um þessa ákvörðun þegar hún var tekin. Raunin er reyndar sú, herra forseti, að þeir sjúklingar sem eru rukkaðir við brottför eða innkomu eru nú tæpast í standi til þess að gera mikið þras út af slíkum hlutum. Þeir hafa litla möguleika á því yfirleitt að velta fyrir sér hver réttur þeirra er. Þarna hefur þeim auðvitað ekki verið kynnt réttarstaða þeirra.

Ég árétta, og ég vil þá gera það í þeirra orðastað: Ég óska eftir því eindregið að kannaður verði með lögformlegum hætti bótaréttur þeirra. Það er búið að oftaka greiðslur af fólki án þess að lög leyfðu. Mér þykir því einsýnt að endurgreiða beri þessu fólki útlagðan kostnað, hvað svo sem kvartanir áhrærir. Þannig er það bara.

Herra forseti. Ég tek undir með hæstv. heilbrrh. í þá veruna og vil trúa honum í þeim efnum, að hann vilji efla þennan kost sem sjúkrahótelin eru. En hvað erum við að gera hér? Við erum að skáskjóta þessu úrræði út úr heilbrigðiskerfinu. Það kann að hljóma dálítið ankannalega og sumpart falskt að segja í öðru orðinu að hæstv. ráðherra vilji efla þetta úrræði, þetta heilbrigðisúrræði, en hér á blöðum á borðum og í lagatexta eigi að taka það út fyrir kerfið og setja það í sviga.

Allt þetta veldur mér miklum vonbrigðum, herra forseti. Ég segi enn og aftur: Ég neita að trúa öðru en því að hæstv. heilbrrh. hafi verið píndur til þessara verka.