Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 18:17:16 (3244)

2001-12-13 18:17:16# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[18:17]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir spyr hvað ég sé að fara með því að draga þetta fram. (Gripið fram í.) Það sem ég er að gera með því að draga fram þennan mismun sem er á þaki fyrir ellilífeyrisþega, öryrkja og börnin, er fyrst og fremst vegna þess að sá málflutningur sem mikið hefur heyrst í fjölmiðlum um hversu geysilegar hækkanir þetta séu hefur valdið því að við þingmenn í stjórnarflokkunum höfum fengið ýmsar upphringingar frá elli- og örorkulífeyrisþegum sem hafa akkúrat misskilið það sem þingmaðurinn er að segja. Ég vil þá halda þessu til haga í þeirri von að það rói það fólk sem telur að verið sé að hækka þakið á það og auka verulega á því álögur.

Eins fannst mér full ástæða til að ítreka við þessa umræðu reglugerð um endurgreiðslurnar sem tryggir þeim sem lægstar tekjurnar hafa 90% endurgreiðslu.