Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 18:42:34 (3250)

2001-12-13 18:42:34# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[18:42]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara í meting um það hver eigi mestar þakkir skildar í þessum efnum. Þó vil ég taka undir með hv. þm. að hlutur forustumanna verkalýðshreyfingarinnar er mikill og það á að meta hann að verðleikum.

Að öðru leyti hlýt ég að ítreka og vekja athygli á því að það er augljóst, og það hefur komið fram af hálfu þessara aðila, að ef ekki hefði komið til atbeini ríkisvaldsins með þeim hætti sem þeir telja fullnægjandi, og yfirlýsingar Seðlabanka, þá hefði þessi niðurstaða ekki náðst fram. Við höfum, ráðherrar og embættismenn á okkar vegum, nokkrar undanfarnar vikur verið í formlegum og óformlegum viðræðum í því skyni að ná fram niðurstöðu af þessu tagi.