Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 18:44:48 (3252)

2001-12-13 18:44:48# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[18:44]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn bera auðvitað ein ábyrgð á hvert er innihald aðgerða okkar. En að því sögðu vil ég taka fram að það er augljóst að aðilar vinnumarkaðarins töldu brýnt að fjárlagafrv. yrði afgreitt með afgangi. Það var það sem ríkisstjórnin var að tryggja þó að hún beri auðvitað sjálf og þingmeirihlutinn ábyrgð á því hvaða leiðir voru farnar í þeim efnum.

[18:45]

Aðeins vegna þeirrar vísitölu sem hv. þm. leikur sér með, þá hygg ég að þær tölur séu ekki mjög nákvæmar. Sérstaklega vek ég athygli á því að menn verða að horfa til þess hvenær þessir hlutir falla til. Hvenær koma þeir til kasta? Er hv. þm. að tala um hluti á öllu þessu ári eða er hún að tala um hluti eins og áfengisgjaldahækkun sem kemur um mitt árið eða þær hækkanir sem koma í ... (Gripið fram í.) Það má lesa út úr fjárlagafrv., það má lesa út úr heildartekjunum sem af þessu gjaldi er um að ræða. Hækkunin er þeirrar gerðar að það er augljóst að hún fellur til á miðju ári. Ég hygg að það hafi alltaf legið fyrir.

Það sama má segja um skólagjöld og þess háttar sem koma til á seinni parti næsta árs þannig að þetta hefur ekki áhrif í þessari lotu sem menn eru að fjalla um.

Í annan stað er rétt að hv. þm. hafi í huga að auðvitað var í verðlagsspám búið að gera ráð fyrir af hálfu Seðlabanka og Þjóðhagsstofnunar öllum venjulegum hækkunum sem við má búast af hálfu hins opinbera.