Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 18:46:41 (3253)

2001-12-13 18:46:41# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[18:46]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að fagna samkomulagi aðila vinnumarkaðarins með aðild ríkisstjórnarinnar sem tilkynnt var um nú undir kvöldið. Þó svo málinu sé þar aðeins skotið á frest fram í maímánuð þá er enginn vafi á því að það skapar svigrúm til þess að sjá hverju fram vindur á fyrstu mánuðum næsta árs. Það má segja að ríkisstjórninni sé þar með gefið tækifæri, og bjartsýnum væntingum og spám hvort heldur hæstv. forsrh. eða stofnana er þá gefinn kostur á að standast dóm reynslunnar.

Varðandi verðbólguna hvort menn eru 0,2, 0,3 eða 0,5 kommum utan eða innan við spár þá er það kannski ekki aðalatriði málsins þegar við höfum það í huga að verðbólgan er sannanlega því miður um þessar mundir 8--9% á ársgrundvelli. Það er auðvitað mergurinn málsins að það er allt of mikil verðbólga og hún verður að fara hratt niður ef ekki á illa að fara.

Í öðru lagi í sambandi við erlendar lántökur og orðalag Seðlabankans í þeim efnum, þá les ég alveg hiklaust út úr þeim texta sem hæstv. forsrh. fór með úr yfirlýsingu Seðlabankans mjög ákveðin skilaboð. Það er ekki tilviljun að Seðlabankinn leggur áherslu á að skoða ekki síður langtíma\-áhrif lántökustefnu ríkissjóðs heldur en skammtímaáhrif. Með því er Seðlabankinn að vara við því að falla í þá freistni að fara að dæla milljarðatuga erlendum lánum inn í hagkerfið til þess eins að ná tímabundnum árangri í gengismálum, til þess að fá smáyfirskot í gengið. Það þarf að horfa til langtímaáhrifanna, það er Seðlabankinn að segja.

Og að síðustu mikilvægi þess að skila afgangi á fjárlögum. Sálrænt: Já, en efnislega er hér um svo litla hluti að ræða þegar það er skoðað og sett í samhengi við óvissuforsendur fjárlaganna, 2--3 milljarða af 240--250 milljarða útgjöldum, að hin efnislegu áhrif þessa svokallaða afgangs eru ekki mikil og allra síst í ljósi þess hvernig hann er fenginn, en sálrænt get ég tekið undir að það hefur nokkurt gildi.