Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 18:48:58 (3254)

2001-12-13 18:48:58# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[18:48]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ekki ágreining við hv. þm. um hvernig hann les texta Seðlabankans sem ég las hér. Ég tel að Seðlabankinn hafi með sama hætti og ríkisstjórnin viljað huga að langtímaáhrifum lántöku, lántöku sem ríkissjóður hefur ekki efnislega þörf fyrir. Ríkissjóður sem er afgreiddur með afgangi fyrir utan þær tekjur sem væntanlega verða af sölu ríkisfyrirtækja þarf ekki á lántökum að halda nema þá til þess að ,,convertera`` lánum o.s.frv. sem er bara hin venjulega rútína. Seðlabankinn horfir til lengri tíma hvað það varðar, að gott sé fyrir þjóðina að grynnka sem mest á erlendum skuldum. Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar. En Seðlabankinn segir og það er sú breyting sem orðið hefur á viðhorfum hans, hann segir: Það er réttlætanlegt að horfa einnig til skemmri tíma. Hann segir það beinlínis. Það er réttlætanlegt að horfa til skemmri tíma við mótun á lántökustefnu ríkisins. Það er það sem við höfum verið að segja, að við getum sætt okkur við þær hugmyndir sem komið hafa fram frá aðilum vinnumarkaðarins að það megi einnig líta til skammtímaáhrifa á lántökunotkunarmöguleikum ríkisins þannig að það er samhljómur í því sem Seðlabankinn er að segja og því sem ríkisstjórnin er að segja.

Ég er hins vegar sammála hv. þm. eins og ég skil hann að auðvitað eiga menn að fara mjög varlega í notkun á þeim tækjum sem þarna eru á ferðinni.