Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 18:56:55 (3258)

2001-12-13 18:56:55# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, JB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[18:56]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er verið að leggja til aukin skólagjöld, aukin innritunargjöld og aukin efnisgjöld sem einu nafni kallast skólagjöld. Hér er verið að leggja til hækkun á skólagjöldum um allt að 100% á nemendur í verknámi svo sem í matvæla- og málmiðngreinum og bitnar þetta hart á nemendum í því námi, nám sem nú þegar á undir högg að sækja þar sem þeir skólar sem veita þetta nám búa við mikla fjárhagsörðugleika og hafa safnað skuldum sem ekki hefur verið leyst úr og hefur það hlotið ámæli af hálfu Ríkisendurskoðunar.

Herra forseti. Þetta er enn þá alvarlegra fyrir þá sök að þessi gjaldtaka bitnar harðast á þeim nemendum utan af landi, af landsbyggðinni, sem verða að koma til höfuðborgarsvæðisins og sækja hingað dýrt verknám, dýrt starfsnám. Og það hefur einmitt sýnt sig, herra forseti, að stór hluti, sjö af hverjum tíu nemendum sem ljúka námi í málm- og öðrum iðngreinum koma af landsbyggðinni og það er verið að skattleggja einmitt þá nemendur til þess að rétta að nafninu til við fjárhag ríkisins.