Fjarskipti

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 20:17:18 (3269)

2001-12-13 20:17:18# 127. lþ. 54.5 fundur 145. mál: #A fjarskipti# (jöfnunargjald, heimtaugar) frv. 145/2001, JB
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[20:17]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til 2. umr. frv. til laga um breytingu á lögum um fjarskipti.

Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson sem sat fund samgn. fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs þegar málið var tekið úr nefnd gerði fyrirvara um undirskrift sína á álitinu. Sá fyrirvari tekur einmitt til þess að í þessu afmarkaða frv. er í rauninni verið fjalla um að styrkja réttarstöðu annarra aðila til aðgangs að fjarskiptaneti, í þessu tilfelli Landssímans sem í flestum tilvikum er eigandi og með ráðandi markaðsstöðu hvað þetta varðar. Það er í sjálfu sér gott út af fyrir sig og er stutt út frá þeim forsendum sem við munum væntanlega standa frammi fyrir að Landssíminn verði seldur og þar með grunnnetið og að gefinni þeirri forsendu er þetta sjálfsagt jákvæð breyting sem þarna er verið að leggja til. Það er ástæðan fyrir því að fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í samgn. er á álitinu en þó með fyrirvara.

Hitt er þó nauðsynlegt að draga inn í umræðuna það sjónarmið Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem var að afar óskynsamlegt væri að selja Landssímann í heild sinni ásamt grunnnetinu eins og keyrt var í gegnum þingið á sl. vori. Í þeirri umræðu var rakið ítarlega hve sú aðgerð væri í raun andsnúin hagsmunum a.m.k. meginþorra landsmanna að keyra þá samþykkt á sölu í gegn og við lögðum áherslu á það, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að miklu réttara væri að Landssíminn, þessi mikilvæga þjónustustofnun, grunnþjónustustofnun í eigu allra landsmanna, að styrk þeirrar stofnunar væri beitt til þess að efla, bæta og styrkja dreifikerfi fjarskipta um allt land. Við töldum og teljum enn að hagsmunum þjóðarinnar væri best borgið með þeim hætti.

Landssíminn er enn ekki seldur að meiri hluta og ekki einu sinni heldur sá hluti sem gert hafði verið ráð fyrir að hægt væri að selja á þessu ári og það sýnir, herra forseti, að mínu mati hug þjóðarinnar til þessa almannaþjónustufyrirtækis að þegar fara átti að bjóða þjóðinni hlutabréf í Landssímanum til sölu nú á haustdögum, þá hafnaði þjóðin því að kaupa þau hlutabréf af sjálfri sér. Ég tel að með því hafi hún einmitt verið að undirstrika það að hún vildi að þetta fyrirtæki, þessi þjónustustofnun yrði áfram í eigu og á ábyrgð ríkisins og axlaði ábyrgð á því að jöfnuður væri í kostnaði og aðgengi að fjarskiptum og gagnaflutningum um allt land. Ég vildi láta koma fram, herra forseti, að þennan hátt hefði átt að hafa á og er enn hægt að hafa á með því að hætta við þá fáránlegu og skaðlegu hugmynd gagnvart þjóðinni að selja Landssímann, og væri þar vitið meira að draga þær hugmyndir til baka og nýta styrk Landssímans til þess að efla fjarskiptanetið og fjarskiptin úti um allt land.

Í þessu sambandi langar mig þó til þess að spyrja, virðulegi forseti: Hvað líður samþykktum, skilmálum eða beiðnum sem fylgdu með áliti meiri hluta samgn. á sl. vori þegar sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands var til umræðu? Þá var það, að mig minnir, einmitt hluti af þeirri afgreiðslu, að því var beint til samgrh. að hann ynni í samvinnu við samgn. tillögur um að jafna kostnað við gagnaflutninga og þar með samkeppnisstöðu fyrirtækja um allt land og skyldi þeirri vinnu vera lokið fyrir árslok 2001.

Ég vek athygli á því, herra forseti, að sú samþykkt, þetta nefndarálit sem ég er að vísa til kom fram líklega í maí á þessu ári sem þarna var kveðið svo á.

Það styttist í lok ársins 2001 og væri afar fróðlegt að fá upplýst á hinu háa Alþingi hvernig þeim markmiðum sem þarna voru sett og í rauninni með að því er virtist beinum eða óbeinum skilyrðum, a.m.k. afar sterkum tilmælum um að aðgerðum í fjarskiptum yrði lokið á þessu ári, þ.e. áður en sala Landssímans yrði lengra komin. Við höfum fengið og ég held allir þingmenn í samgn. og ábyggilega fleiri þingmenn hins háa Alþingis bréf og áskoranir víða að af landinu frá sveitarstjórnum, frá fyrirtækjum sem eru háð fjarskiptum og gagnaflutningum, frá einstaklingum vítt og breitt um land þar sem allir þessir aðilar kvarta undan lélegum fjarskiptum, lélegu aðgengi að gagnaflutningum, háu verði og ójöfnuði hvað það varðar. Skemmst er að minnast erinda frá norðausturhorni landsins, landshluta sem á virkilega í vök að verjast og fjarskiptin skipta einmitt miklu máli. Ég er ekki búinn að sjá það, herra forseti, að sú tillaga sem hér er uppi á borðum bæti þar neitt sérstaklega um og reyndar alls ekki og hafi lítil áhrif á það.

Við höfum líka fengið erindi, ekki svo langt héðan, bara ofan af Vesturlandi, um léleg skilyrði fyrir gagnaflutninga og móttöku á síma og símboðum.

Herra forseti. Maður hlýtur þess vegna að taka þetta upp í umræðunni þegar verið er að fjalla um fjarskipti og aðgang að fjarskiptanetinu hver staðan er í fjarskiptum og fjarskiptaneti og gagnaflutningum á landinu öllu og ég tala ekki um að bera það saman og fá upplýst hvernig staðið hefur verið við þau fyrirheit sem gefin voru og lýst yfir í hinni mjög svo umdeildu afgreiðslu á heimild til sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf. og sem ég vitnaði hér til.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það að ég tel að í þessari umræðu eigi að koma skýrt fram og eigi að greina frá því hver staðan er í þessu máli. Væntanlega eru einhverjir góðir hlutir þar að gerast sem gott er að komi fram. Aðrir bíða, en það er afar mikilvægt ... (Gripið fram í: Eigum við að selja ...?) Er búið að selja sjoppuna? Mér heyrðist nú bara, virðulegi forseti, í fréttum í dag að búið væri að afmunstra forstjórann með hefðbundnum hætti. (Gripið fram í.) En ég er ekki búinn að sjá að í þeim samningum sem verið er að gera við þann ágæta mann og greinilega fyrrv. forstjóra Landssímans hafi fylgt neitt um það hvernig ætti að leysa úr fjarskiptamálum vítt og breitt um landið. Ég er ekki viss um að það hafi fylgt með í þeim samningum og þess vegna ítreka ég það, herra forseti, að úr því að hæstv. samgrh. er hér, þá er alveg tilvalið að hann upplýsi stöðu þessara mála, bæði hvað hefur áunnist á árinu, hver er þá hin raunverulega staða málsins, bæði nú og til næstu framtíðar þannig að við hér á Alþingi og alþjóð fái að vita það þegar við erum að fjalla um aðgengi að fjarskiptanetinu vítt og breitt um landið.