Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 21:06:01 (3277)

2001-12-13 21:06:01# 127. lþ. 54.11 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv. 154/2001, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[21:06]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram skrifa ég undir þetta frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um almannatryggingar með fyrirvara. Fyrirvari minn er af tvennum toga. Það er vegna hugsanlegra hækkana á kostnaðarþátttöku sjúklinga. Þó að þetta frv. taki ekki beint á þeim þætti, þ.e. greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni þá eru þetta formbreytingar. Eftir það sem á undan hefur gengið varðandi álögur á sjúklinga skulum við hafa þann fyrirvara á að þessar breytingar leiði ekki til aukinna gjalda og gjaldtöku af sjúklingum, þ.e. að formbreytingin verði ekki notuð til þess.

Hæstv. heilbrrh. hefur lýst því yfir, og ég vona að það megi treysta því, að ekki standi til að nota þessar formbreytingar til þess að auka útgjöld sjúklinga. En þetta er fyrirvari minn, og svo eins varðandi þann lið sem snýr að möguleikum Tryggingastofnunar ríkisins til að fylgjast með því að reikningar frá heilbrigðisstarfsmönnum, og þá sérstaklega læknum fyrir þau læknisverk eða þá heilbrigðisþjónustu sem verið er að rukka um, séu rétt gerðir, því það er mjög vandmeðfarið fyrir Tryggingastofnun að sannreyna sjúkraskrár og upplýsingar um meðferð sjúklinga, sama hvort læknar eiga í hlut eða aðrir heilbrigðisstarfsmenn. Fyrirvari minn er sá að ekki séu í neinu brotin lög um réttindi sjúklinga og persónuvernd.

Ég tel að á þeim tíma sem nefndin fjallaði um frv. og hafði það til meðferðar hafi nefndarmenn eftir bestu vitund reynt að girða fyrir möguleika á því þessi lög, lög um réttindi sjúklinga og persónuvernd, verði brotin. Þetta eru það viðkvæm mál eins og dæmin hafa sannað að ekki er víst að við höfum séð fyrir öllu. Því tel ég mikilvægt að taka strax á því ef eitthvað kemur fram sem bendir til þess að lögin séu ekki það vel úr garði gerð hvað það snertir að hægt sé að misfara með heilsufarsupplýsingar, þ.e. að strax verði tekið á því og það skoðað.

Herra forseti. Ég lýsti því strax við 1. umr. málsins að ég væri hlynnt þeirri hugmyndafræði að hafa samningsgerð heilbrigðisstarfsmanna, bæði innan og utan sjúkarhúsanna, á einni hendi, sérstaklega þegar hún snýr að samningum við lækna, sérfræðinga, sem hafa unnið eftir tveimur mismunandi kerfum, þ.e. þeim sem hafa unnið inni á heilbrigðisstofnunum og hafa orðið að sníða sér stakk eftir vexti hvað varðar fjárframlög til stofnananna og þjónustan hefur orðið að taka alfarið mið af því og svo hina sem hafa verið á samningum beint hjá Tryggingastofnun ríkisins og hafa fengið greitt samkvæmt þeim verkum sem hafa verið unnin. Við höfum með þessu móti verið að beina heilbrigðisþjónustunni í æ ríkari mæli frá heilsugæslunni og yfir til sérfræðinganna.

Við erum að færa hæstv. heilbrrh. töluvert vald, þ.e. að forgangsraða í heilbrigðisþjónustunni með þessari samningagerð og ég vil trúa því að heilbrigðisáætlun til ársins 2010 verði höfð þar að leiðarljósi og að áherslur verði byggðar á þeirri heilbrigðisáætlun.

Hvað varðar greiðslur til daggjaldastofnana þá tek ég undir það að ég held að ekkert athugavert sé við það að festa niður gerðardóm. Það verður þá að láta reyna á það ef það kemur eitthvert mál upp sem mundi taka þetta bara upp aftur, þar sem gerðardómur hefur ekkert verið notaður við úrskurð á daggjöldum. Ef einhvern tíma á þeim tíma sem gerðardómur hefur verið inni hefði þurft að grípa til hans þá hefði maður horft til þess að þarna væri stofnun sem væri hægt að skjóta máli til til þess að fá úrskurð. En aldrei hefur verið gripið til gerðardóms þrátt fyrir mjög þröngan fjárhag margra daggjaldastofnana. Maður hefur þó talið að oft og tíðum hefði verið ástæða til þess að skjóta úrskurði um daggjöld til gerðardóms. En þar sem hann hefur ekki verið nýttur tel ég að óhætt sé að fella hann út og láta á það reyna hvernig RAI-matið nýtist sem mælistuðull á daggjöld til daggjaldastofnana.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. En ljóst er að frv. hefur farið misjafnlega fyrir brjóstið á mönnum og þá sérstaklega læknum. Læknar á landsbyggðinni hafa lýst nokkurri ánægju með frv. á meðan sérfræðingar hafa að sama skapi ekki verið jafnánægðir. Það verður bara að koma í ljós hvernig þetta reynist. Hv. formaður heilbr.- og trn. kynnti hér brtt. sem ætti að gera sérfræðingum aðeins ljúfara að taka við þessum lagabreytingum.