Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 21:22:58 (3279)

2001-12-13 21:22:58# 127. lþ. 54.11 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv. 154/2001, GHall
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[21:22]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Bæði formaður heilbr.- og trn. og nefndarmenn hafa gert grein fyrir ágætu nál. um framtíð þessara mála og m.a. hvernig samstarfi eigi að vera háttað.

Ég verð að segja að ég velkist þó svolítið í vafa um það, þegar talað er um að mikið samráð og samstarf skuli vera viðhaft við bæði lækna og þá sem í heilbrigðisgeiranum vinna, hvernig menn ætla að fara með öldrunarstofnanir á föstum daggjöldum.

Þegar lesinn er texti frá hv. nefnd, þá rekst það sem hér er fjallað um alvarlega hvað á annars horn. Ég vil aðeins vitna, með leyfi forseta, til textans. Á bls. 6 í næstneðstu málsgrein segir:

,,Í 2. efnismgr. 6. gr. frumvarpsins er fjallað um það með hvaða hætti daggjöld dvalarheimila fyrir aldraða, hjúkrunarrýma á öldrunarstofnunum og hjúkrunarheimila sem ekki eru á föstum fjárlögum skuli ákveðin. Frumvarpið felur ekki í sér miklar breytingar frá núgildandi lögum að öðru leyti en því að tekið er fram að daggjöld skuli ákveðin með hliðsjón af hjúkrunarþyngd. Nefndin telur að hér sé um mikilvæga breytingu að ræða og leggur áherslu á að RAI-mat, þar sem það á við, verði samræmt milli stofnana þannig að fyllsta jafnræðis verði gætt.`` --- Gott. Besta mál. --- ,,Við umfjöllun nefndarinnar um þessa grein frumvarpsins kom fram að allt frá því að daggjaldanefnd var lögð af, fyrir tæpum tíu árum, hafi öldrunarstofnanir haft lítið um daggjöld að segja. Samráð hafi verið afar takmarkað þótt um það hafi verið mælt í lögunum.``

Skyldi þessi texti breyta þar eitthvað verulega um? Því að nú kemur framhaldið:

,,Nefndin telur nauðsynlegt að tryggja að daggjaldastofnanir hafi ávallt möguleika á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ráðherra áður en daggjöld eru ákveðin. Í þessu skyni leggur nefndin til að ráðherra verði gert skylt að óska eftir tillögum viðkomandi stofnana áður en ákvörðun er tekin. Nefndin er hér í raun að leggja til að ráðherra óski eftir tillögum frá þessum stofnunum með sama hætti og hann óskar eftir fjárlagatillögum frá undirstofnunum sínum sem eru á föstum fjárlögum við gerð fjárlagafrumvarpsins, samanber lög um fjárreiður ríkisins.`` --- Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum: --- ,,Upphæð daggjalda ræðst að sjálfsögðu af fjárveitingum á fjárlögum hverju sinni.``

Hver er það þá sem hefur síðasta orðið? Vilja hv. nefndarmenn segja mér það?