Girðingarlög

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 21:39:34 (3282)

2001-12-13 21:39:34# 127. lþ. 54.14 fundur 180. mál: #A girðingarlög# (heildarlög) frv. 135/2001, Frsm. DrH
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[21:39]

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti um frv. til girðingarlaga á þskj. 502 ásamt brtt. á þskj. 503.

Með frumvarpinu eru gildandi girðingarlög, nr. 10/1965, endurskoðuð og er meginmarkmið þess að fjalla um girðingar og hverjir fara með forræði yfir þeim svo og kostnaðarskiptingu við uppsetningu þeirra á landamerkjum. Helsta breyting frá gildandi lögum felst í því að fallið er frá þeirri reglu að hálfur girðingarkostnaður skiptist eftir helmingaskiptareglu en hinn helmingur eftir því hvert gagn hver um sig hafi af girðingunni. Lengi er hægt að deila um hvor aðila hafi meira gagn af girðingu þar sem mismunandi sjónarmið rekast á. Í þess stað er kveðið á um í frumvarpinu að meginreglan sé sú að skipting girðingarkostnaðar á landamerkjum verði til helminga en þó verði hægt að semja um aðra skiptingu kostnaðar. Sú regla að hægt verði að semja um aðra skiptingu kostnaðar nái aðilar um það samkomulagi er breyting frá frumvarpi því sem lagt var fram á 126. löggjafarþingi. Telur nefndin það til mikilla bóta og skapa nauðsynlegan sveigjanleika þannig að hægt sé að taka tillit til mismunandi aðstæðna. Náist hins vegar ekki samkomulag kemur til kasta úrskurðaraðila skv. 7. gr. frumvarpsins.

Frumvarpinu er ætlað að vera rammalöggjöf þar sem fjallað verði með ítarlegri hætti um ýmis atriði í reglugerð, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Leggur nefndin áherslu á að fjallað verði á ítarlegan hátt um t.d. hlið og gerð, uppsetningu, viðhald og niðurtöku rafgirðinga. Þrátt fyrir ákvæði þessa frumvarps halda gildi sínu sérákvæði um girðingar í öðrum lögum, t.d. vegalögum, sem fjalla m.a. um girðingar meðfram vegum, og lögum um náttúruvernd, þar sem m.a. er kveðið á um girðingar sem liggja yfir fornar þjóðleiðir eða skipulagða göngu-, hjólreiða- eða reiðstíga og skyldu til að hafa hlið á slíkum girðingum eða göngustiga.

Með hliðsjón af því að frumvarpinu er ætlað að vera rammalöggjöf um girðingar leggur nefndin til að ákvæði 2. gr. verði einfaldað til muna og í stað þess að fjalla á ítarlegan hátt um hvernig einstakar tegundir girðinga skuli settar upp verði látið nægja að tilgreina þær tegundir girðinga sem falla undir lögin. Með því verði meira svigrúm til að kveða á um það í reglugerð hvernig einstakar tegundir girðinga skuli úr garði gerðar með hliðsjón af aðstæðum þar sem lýst yrði t.d. þeim lágmarks- og hámarkskröfum sem gera þarf til girðinga. Í 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að viðkomandi búnaðarsamband og sveitarfélag tilnefni hvort sinn úrskurðaraðilann ef aðilar verði ekki sáttir um hvers konar girðingu skuli reisa, kostnaðarskiptingu og aðra framkvæmd. Til að sjónarmið sem flestra komist að leggur nefndin til að auk framangreindra aðila skuli sýslumaður tilnefna einn úrskurðaraðila.