Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 21:43:22 (3283)

2001-12-13 21:43:22# 127. lþ. 54.6 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv. 134/2001, Frsm. meiri hluta GHall
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[21:43]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Á þskj. 416 er nefndarálit frá meiri hluta samgn. um frv. til laga um leigubifreiðar.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ný heildarlög um leigubifreiðar og felur það í sér margar breytingar frá núgildandi lögum um starfsemina.

Veigamesta breytingin felst í því að stjórnsýsla málaflokksins er færð frá samgönguráðuneytinu til Vegagerðarinnar en heimilt verður að kæra ákvarðanir hennar til samgönguráðherra, sbr. 4. gr. frumvarpsins og ákvæði stjórnsýslulaga um kæru til æðra stjórnvalds.

Samkvæmt frumvarpinu skal Vegagerðin starfrækja gagnagrunn sem geyma á upplýsingar um atvinnuleyfi og heimildir til undanþágu frá akstri eigin bifreiðar. Með þessum gagnagrunni er ætlunin að tryggja að Vegagerðin hafi ávallt heildaryfirsýn yfir málaflokkinn og að framkvæmd laganna sé samræmd.

Í frumvarpinu er gengið út frá því að fjöldi leigubifreiða verði takmarkaður eftir svæðum svo sem verið hefur. Nefndin fjallaði um röksemdir fyrir því að viðhalda stjórnun á fjölda leigubifreiða á takmörkunarsvæðum. Í því sambandi var m.a. rædd reynsla Svía af því að gefa leigubílaakstur frjálsan. Það er mat meiri hluta nefndarinnar að líta beri á leigubílaakstur sem hluta af almenningssamgöngukerfinu og í því ljósi sé nauðsynlegt að tryggja að ávallt sé næg og góð þjónusta í boði. Telur meiri hlutinn að á þessu stigi sé ekki vænlegt að gefa leigubifreiðaakstur frjálsan til að ná því markmiði.

[21:45]

Í almennum athugasemdum um 11. gr. kemur fram að gert sé ráð fyrir að allt daglegt eftirlit með atvinnuleyfishöfum og forfallabílstjórum sé í höndum lögreglunnar. Orðalag og framsetning þessara athugasemda má misskilja með þeim hætti að með frumvarpinu sé lögreglunni gert að hafa sérstakt eftirlit með leigubifreiðastjórum. Meiri hlutinn leggur áherslu á að lögreglunni er ekki ætlað að hafa eftirlit með leigubifreiðastjórum umfram það sem felst í almennri eftirlitsskyldu lögreglunnar enda leiðir ekkert slíkt af frumvarpstextanum sjálfum. Þess má einnig geta að samgönguráðherra gat þess í framsöguræðu sinni um málið að varast bæri að misskilja tilvitnuð orð í athugasemdum með frumvarpinu.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að ráðherra gæti þess við setningu reglna um undanþágur, sbr. 3. mgr. 9. gr. frumvarpsins, að leigubifreiðastjórar njóti sambærilegs orlofsréttar og almennt gerist og að ákvæða laga nr. 30/1987, um orlof, sé gætt í hvívetna.

Meiri hlutinn lítur svo á að við veitingu skilyrtra atvinnuleyfa skv. 7. gr. frumvarpsins, með þeirri breytingu sem meiri hlutinn leggur til, verði sömu skilyrði lögð til grundvallar og fram koma í frumvarpinu um leigubifreiðastjóra og leigubifreiðar þeirra eftir því sem við getur átt.

Herra forseti. Þegar þetta frv. var rætt kom m.a. til umræðu hugmyndin um að opna svokallaðar girðingar sem liggja á milli sveitarfélaga á Reykjanesi og Reykjavík og jafnvel víðar, bæði sveitarfélaga til austurs og vesturs. Við í meiri hlutanum teljum, herra forseti, að eðlilegt sé að viðhalda því kerfi óbreyttu að marggefnu tilefni. Eins og ég kom aðeins inn á í texta meiri hluta nefndarinnar teljum við að þar sem reynt hefur verið að gefa atvinnuleyfi frjálst fyrir leigubifreiðar eins og til að mynda í Svíþjóð hafi sú reynsla ekki gefið góða raun og hefur jafnvel heyrst að stjórnvöldum þar hafi orðið á mistök og hafi jafnvel látið svo í veðri vaka að þetta hafi verið mistök.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali. Helstu breytingar eru eftirfarandi:

Nokkurs ósamræmis gætir í notkun hugtaka í frumvarpinu. Talað er samhliða um leigubifreiðar, fólksbifreiðar til leiguaksturs, leigubíla og bifreiðar, bifreiðastjórafélög og félög leigubifreiðastjóra, leigubifreiðaakstur og leiguakstur o.fl. Lagt er til að þetta verði samræmt og talað um leigubifreiðar, félög leigubifreiðastjóra, leigubifreiðaakstur og leigubifreiðastöðvar.

Í 4. mgr. 2. gr. frumvarpsins er ráðherra veitt heimild til að fela einstökum sveitarstjórnum framkvæmd mála er varða leigubifreiðar innan sveitarfélagsins að fenginni tillögu Vegagerðarinnar. Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á þessu ákvæði. Í fyrsta lagi telur meiri hlutinn rétt að það komi fram að ráðherra sé aðeins heimilt að fela sveitarstjórn umsjá málaflokksins að ósk um það berist frá sveitarfélaginu sjálfu. Í öðru lagi leggur meiri hlutinn til að ráðherra skuli leita umsagnar Vegagerðarinnar áður en ákvörðun er tekin. Í frumvarpinu er gengið út frá því að ráðherra sé aðeins heimilt að taka þessa ákvörðun að fenginni tillögu Vegagerðarinnar. Óeðlilegt er að ráðherra sé bundinn við það að tillaga berist frá Vegagerðinni og er því lagt til að einungis sé skylt að leita umsagnar hennar. Í þriðja lagi leggur meiri hlutinn til að tekið sé skýrt fram að við flutning málaflokksins yfir til sveitarfélags skuli viðkomandi sveitarstjórn taka stöðu Vegagerðarinnar samkvæmt lögunum eftir því sem við getur átt. Þetta er nauðsynlegt til að ekki sé vafi um valdheimildir sveitarfélags í þessu sambandi. Í fjórða lagi leggur meiri hlutinn til að ráðherra geti gefið sveitarfélagi undanþágu frá starfrækslu gagnagrunns enda sé eftirlit tryggt án hans. Í fimmta lagi er síðan gert ráð fyrir að gjöld skv. 12. gr. frumvarpsins renni til sveitarfélags hafi það tekið málaflokkinn yfir.

Í frv. var einnig gert ráð fyrir að gjald þetta væri 13 þús. kr. en í tillögu hér er gert ráð fyrir að þetta gjald verði lækkað niður í 10. þús. kr.

Í 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins er gert að skilyrði fyrir atvinnuleyfi að umsækjandi sé skráður eigandi bifreiðar eða skráður fyrsti umráðamaður með a.m.k. 35% eignarhlutdeild samkvæmt samningi við löggilt kaupleigufyrirtæki. Meiri hlutinn leggur til að skilyrðið um 35% eignarhlutdeild verði fellt brott.

Í 4. tölul. 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins er óflekkað mannorð, sem nánar er skilgreint í ákvæðinu, gert að skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis. Skilyrði þetta er ítarlegra og strangara en tilefni er til auk þess sem notkun hugtaksins ,,óflekkað mannorð`` er óheppilegt í þessu samhengi og skilgreining þess ekki í samræmi við ákvæði 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Af þessum sökum leggur meiri hlutinn til að skilyrði þetta verði orðað með öðrum hætti og er stuðst við orðalag 5. gr. laga um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi sem samþykkt voru á síðasta þingi.

Lagt er til að felld verði brott heimild til að veita leiðsögumanni tímabundið og skilyrt atvinnuleyfi, sbr. 7. gr. frumvarpsins.

Meiri hlutinn leggur til að tiltekið verði sérstaklega í 1. tölul. 2. mgr. 9. gr. að heimilt sé að veita leigubifreiðastjóra tímabundna undanþágu vegna fæðingar- og foreldraorlofs svo að það valdi ekki vafa.

Meiri hlutinn leggur til að bætt verði nýjum málslið við 3. mgr. 9. gr. er veiti ráðherra heimild til að ákveða gjald fyrir afgreiðslu veittra undanþágna. Ljóst er að kostnaður mun falla til vegna þessarar umsýslu hjá leigubifreiðastöðvum og félögum leigubifreiðastjóra og því nauðsynlegt að þeim verði gert kleift að innheimta gjald sem honum nemur.

Lagt er til að heimild dánarbús skv. 8. mgr. 9. gr. til að nýta atvinnuleyfi verði styttur í þrjá mánuði en sá tími nái þó aldrei fram yfir lok búskipta.

Lögð er til breyting á ákvæði til bráðabirgða. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar hafa forfallabílstjórar frá 1. maí 1999 tekið námskeið til undirbúnings starfinu. Meiri hlutinn gengur út frá því að samkvæmt ákvæðinu geti Vegagerðin metið það hvort þessi námskeið teljist fullnægjandi samkvæmt ákvæðum laganna. Þeir sem þegar hafa lokið námskeiði sem telst fullnægjandi af hálfu Vegagerðarinnar eru samkvæmt þessu undanþegnir skyldu til að sækja umrædd námskeið. Þá lítur meiri hlutinn svo á að þeir sem hófu akstur fyrir 1. maí 1999 hafi þegar hlotið þá starfsreynslu sem teljist ígildi námskeiðs samkvæmt lögunum og leggur því til að þessir aðilar verði undanþegnir námskeiðsskyldu.

Herra forseti. Undir þetta nefndarálit rita Guðmundur Hallvarðsson, Hjálmar Árnason, Arnbjörg Sveinsdóttir, Sigríður Ingvarsdóttir, Magnús Stefánsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.

Herra forseti. Ég legg til að málinu verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr.