Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 22:25:28 (3291)

2001-12-13 22:25:28# 127. lþ. 54.6 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv. 134/2001, Frsm. meiri hluta GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[22:25]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Eftir ágæta ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar má ég til með að bæta við og gera nokkrar athugasemdir.

Í fyrsta lagi hefur þessi heiðursmaður, hv. þm. Jón Bjarnason, oftar en ekki talað um nauðsyn samkeppninnar milli hinnar dreifðu byggðar og þéttbýlis. Því kemur það mér afar sérkennilega fyrir sjónir að heyra hv. þm. tala um að ekki eigi að veita, eins og hér stendur, sérstakar útstöðvar frá gagnagrunni. Þarna er einmitt verið að gera Akureyri mögulegt að sjá um sig sjálf, og fleiri sveitarfélögum sem það vilja. Hv. þm. er á móti því, hann hefur talað í ræðustól í allan vetur um þetta ofbeldi og ofríki Reykjavíkurvaldsins gegn hinni dreifðu byggð. Mér þykir maðurinn heldur betur vera kominn í andstöðu við sjálfan sig í þessu máli.

Í annan stað segir hann hér að opinber grunnsýsla þessarar atvinnugreinar eigi að vera framlag ríkisins í þessari þjónustu. En hvað þá með alla hina? Hvað með alla aðra þjónustu sem ríkið veitir? Er það þá ekki sanngirnismál að það sé allt aflagt og ríkið hætti að taka þau gjöld sem þó eru eðlileg? Það er leitast við að það sé ekki skattborgarinn --- sem kemur ekki þessu máli við --- sem greiði einhverja þjónustu ríkisins. Það er þó eðlilegt að menn geri það sjálfir.

Í þriðja lagi er ekki um það að ræða að ótiltekinn aðgangur sé að upplýsingum gagnagrunnsins, ekki heldur hvað varðar fæðingarorlof og annað orlof.

Síðast en ekki síst er dálítið sérkennilegt að heyra þennan tón efasemdar og vafa sem menn hafa um þennan gagnagrunn, menn sem fara sjálfir kannski inn á vídeóleigu og gefa þar upp kennitölu sína og þar eru allar upplýsingar komnar fram ár eftir ár. Það er merkilegt að hér hefur engin umræða farið fram á hinu háa Alþingi um það hvernig Íslendingar eru farnir að misnota kennitölur einstaklinga. Meira að segja inni á vídeóleigu skulu menn gjöra svo vel að gefa upp kennitöluna sína svo að allir viti allt um þá. Svo er hér gagnagrunnur sem ekki verður aðgangur að og hann er gagnrýndur.