Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 22:27:47 (3292)

2001-12-13 22:27:47# 127. lþ. 54.6 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv. 134/2001, Frsm. 1. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[22:27]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þennan gagnagrunn fór ég einmitt alveg sérstaklega í það í nál. mínu og ræðu að ég teldi að hægt væri að halda utan um þennan atvinnuveg án svona mikið miðstýrðs gagnagrunns. Ég lagði meira að segja áherslu á að dreifræði ætti að ríkja í þessu þannig að sveitarfélög vítt og breitt um landið ættu að fá þennan málaflokk í sínar hendur. En að það kostaði það að þau yrðu að byggja upp og hafa aðgang að einhverjum ótilteknum gagnagrunni --- ég lagði einmitt áherslu á að það ætti að vera hægt að finna einfaldari stjórnsýslu en þarna er verið að leggja til. Það var í rauninni inntakið í því sem ég sagði.

Hitt er alveg rétt hjá hv. þm. og formanni samgn. að ég legg áherslu á ákveðna grunnþjónustu, ákveðna grunnumgjörð þessa atvinnuvegar, eins og hefur verið. Hún hefur verið í samgrn. að vissum hluta, ákveðnir þættir hennar, og sem sést nú að hefur ekki verið talin neins virði því að ekki eru skornar neitt niður fjárveitingar hjá samgrn. vegna þessarar tilfærslu. Þar hefur þetta verið inni en við það að færa þetta út úr samgrn. og til Vegagerðarinnar reynist nauðsynlegt að innheimta verulega skatta af atvinnugreininni. Ég tel það óeðlilegt, og tel rangt að gera það með þeim hætti sem þarna er gert, ég tala nú ekki um að ekkert skuli vera fært út af samgrn. á móti því að þessi málaflokkur fer þar út.