Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 22:32:18 (3294)

2001-12-13 22:32:18# 127. lþ. 54.6 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv. 134/2001, Frsm. 1. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[22:32]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson erum sammála um það, heyrist mér, að þetta sé afar mikilvæg þjónusta og að það beri að tryggja bæði öryggi og gæði þessarar þjónustu og það þurfi að halda utan um hana með þeim hætti að bæði þeir sem stunda þessa atvinnu og líka þeir sem njóta þjónustunnar geti verið öruggir um að njóta hennar. Það held ég að sé alveg klárt og á það legg ég líka mikla áherslu.

Ég vil einmitt í þessu samhengi árétta að leigubifreiðastjórar eru kannski oft veigamiklir hlekkir í öryggisþjónustu okkar, öryggiskerfinu. Þeir fá oft og tíðum afar vandasöm verkefni við fólksflutninga. Þeir eru líka í stöðugri áhættu og óttast um öryggi sitt. Þeir hafa einmitt bent á það sjálfir að þeir teldu að það þyrfti að stórbæta öryggi þeirra í atvinnurekstrinum. Hvað varðar samfélagið í heild þá eru þeir oft á ferðinni og kannski þeir fyrstu sem sjá þegar eitthvað hefur farið úrskeiðis og þörf er á aðstoð, annaðhvort lögreglu, sjúkraaðstoð eða slökviliðs eða hvað annað sem er. Þáttur þessarar stéttar, þessara manna, þessarar þjónustu er í raun gríðarlega mikilvægur og þess vegna ber okkur að standa að þessari umgjörð á þann hátt að bæði þeir sem starfa við þjónustuna og við sem njótum hennar getum ekki bara unað við okkar hlut heldur verið svo örugg og sátt við það sem þar er í boði.