2001-12-14 00:36:11# 127. lþ. 54.16 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv. 140/2001, 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv. 138/2001, KolH
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[24:36]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þetta er eitt þeirra mála þar sem þingmaður á úr vöndu að ráða þegar taka á ákvörðun um hvort hann ætli sér að vera á nál. nefndarinnar með fyrirvara eða leggjast gegn málinu.

Í sannleika sagt, og ég vil að það komi skýrt fram, í grunninn er ég ósátt við að Náttúruverndarráð verði lagt niður. En ástæðan fyrir því að ég skrifa þó undir nál. með umhvn. er sú að ég tók þátt í að vinna málið og reyndi að vinna sjónarmiðum mínum brautargengi í nefndinni eftir fremsta megni og ég verð að viðurkenna að ákveðin sjónarmið mín mættu skilningi í nefndinni og komust í gegn og náðu inn í nál. og ég tel það allt hafa verið til mikilla bóta og er þakklát hv. umhvn. fyrir að hafa tekið þannig á málum að þar var hliðrað til með ákveðna þætti. Fyrir það vil ég þakka. En í grunninn engu að síður, herra forseti, er ég ósátt við að ráðið verði lagt niður.

Hvers vegna er ég það? Vegna þess að samkvæmt náttúruverndarlögum, sem við störfum nú eftir og höfum starfað eftir síðan 1996 ef ég man rétt, þá er Náttúruverndarráði ætlað mjög mikilvægt hlutverk. Það hlutverk er mjög vandlega útlistað í lagatextanum og ekki bara hlutverk þess, heldur einnig það hvernig ráðinu er gert að starfa, hverjir eiga aðild að því og hvernig uppbygging náttúruverndarþings er hugsuð.

Sannleikurinn er hins vegar sá, sem dylst engum, að þingin og störf náttúruverndarþings hafa eftir að lögunum var breytt og Náttúruvernd ríkisins var sett á stofn, haft afar litla þýðingu. Og ég held því fram, herra forseti, að það sé ekki síst því að kenna að hæstv. umhverfisráðherrar hafa kosið að taka lítið tillit til þeirra ályktana sem náttúruverndarþing hafa samþykkt.

Mjög skýrt dæmi um það er 10. náttúruverndarþing sem haldið var í lok janúar árið 2000. Til þess þings voru boðaðir um 200 fulltrúar. Það var að mörgu leyti mjög öflugt þing. Það hafði allt efni til að verða mjög öflugt. En það var haldið í skugga mjög mikils ósættis hæstv. umhvrh. og ráðsins sjálfs. Upp höfðu komið mjög hatrammar deilur milli ráðsins og umhvrh. og trúnaðarbrestur hafði orðið á milli þessara aðila sem gerði það að verkum að ábendingar ráðsins og störf voru nánast ómerk og höfðu engin áhrif. Og allar þær góðu ályktanir sem síðasta náttúruverndarþing samþykkti hafa í raun og veru verið samþykktar út í tómið og óma þar engum til gagns. Það eina sem hefur gerst er að stöku sinnum hafa umhverfisverndarsinnar eða náttúruverndarsinnar dregið fram þessar ályktanir, en aldrei þeir sem þeim var beint til.

Milli Náttúruverndarráðs og náttúruverndarþings annars vegar og stjórnvalda hins vegar hefur verið að myndast mjög breið gjá. Hún hefur í seinni tíð orðið óbrúanleg. Ég held að það hafi verið sú staðreynd að slík gjá er óbrúanleg, að ekki var hægt að leysa þetta mál á nokkurn hátt annan en þann að sætta sig við að ráðið yrði lagt niður. Með semingi sætti ég mig við það, en þó eingöngu trúandi því að það verði eitthvað sem taki við.

Í frv. er lagt til að umhverfisþing taki yfir hlutverk náttúruverndarþings. Ekki einungis með náttúruvernd í brennipunkti, heldur líka umhverfisvernd almennt og sjálfbæra þróun. Ég lýsi því yfir, herra forseti, að ég tel sjálfsagt að víkka út hlutverk þessa þings.

Það er eitt sem ég vil leggja mjög mikla áherslu á, og það er eitt af því sem ég kom ekki inn í nál. en tel engu að síður að geti úr þessum stóli haft þau áhrif að hv. þm. og hæstv. umhvrh. geti í nánustu framtíð útbúið umhverfisverndarþingi slíkan ramma að sá rammi jafnist á við þá hugsun eða þann ramma sem náttúruverndarþing laut.

Ég vil því leggja það til hér, herra forseti, að umhverfisþingi verði stjórnað eða það verði skipulagt á þann hátt að umhvrh. setji um það starfshóp. Við getum ímyndað okkur að sá starfshópur væri fimm manns. Ég legg til að þó starfshópurinn starfi undir stjórn eða verndarvæng umhvrh. verði starfshópurinn engu að síður leiddur af Náttúruvernd ríkisins. Ég tel algjörlega nauðsynlegt að í slíkum hópi sitji fulltrúar frá frjálsum félagasamtökum þannig að þau eigi beina aðild að uppsetningu umhverfisþings. Hlutverk hópsins væri síðan að setja þinginu reglur, undirbúa drög að ályktunum fyrir þingið, auglýsa það og setja því markmið og halda utan um störf þess og fylgja störfum þess eftir.

Þetta hlutverk hafði Náttúruverndarráð með hendi hvað varðar náttúruverndarþing. En ég tel alveg nauðsynlegt að umhverfisþing sem ætlað er að taki við af náttúruverndarþingi verði ekki bara útbúið og undirbúið í umhvrn., heldur að undirbúningur þess verði tekinn út á akurinn meðal þeirra sem starfa í þessum málaflokki og að fagfólk innan Náttúruverndar ríkisins og áhugafólk innan frjálsra félagasamtaka eigi þarna beina aðild og komi þarna að með virkum hætti.

Herra forseti. Ég hef svo sem alveg ástæðu til að ætla að hæstv. umhvrh. hafi tekið ákveðnum sinnaskiptum í þessu máli. Ég ætla ekki að fara að rifja upp hér þau orð sem látin voru falla á þeim tíma sem deilurnar stóðu sem hæst milli hæstv. umhvrh. og Náttúruverndarráðs. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og meðal þeirra atburða sem átt hafa sér stað eru þeir að hæstv. umhvrh. hefur undirritað samstarfsyfirlýsingu við frjáls félagasamtök.

Sú samstarfsyfirlýsing er afskaplega mikilvæg og skiptir sköpum í þeim breytingum sem við erum að framkvæma vegna þess að samstarfsyfirlýsing af því tagi sem þar um ræðir getur gert það að verkum að frjáls félagasamtök og samstarf þeirra við hæstv. umhvrh. getur að sönnu leyst af hólmi ákveðna þætti í starfi Náttúruverndarráðs.

Og nú er einungis okkar alþingismanna sem áhuga höfum á þessum málaflokki að hafa auga á því að samstarf frjálsu félagasamtakanna og umhvrn. gangi smurt og vel fyrir sig. Samstarfsyfirlýsingin er til þess ágætur grunnur. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir að umhverfisverndarsamtök eigi aðild að og aðkomu að þeim málum sem umhvrn. fjallar um. Gert er ráð fyrir að reglulegir samráðsfundir verði með ráðuneytinu og umhverfissamtökunum. Síðan er gert ráð fyrir að umhvrn. samkvæmt þessari samstarfsyfirlýsingu boði til umhverfisþings, sem er þá það þing sem við erum í raun og veru að samþykkja hér með breytingunni á lögunum, þar sem fjalla á um stefnumörkun og framkvæmd á sviði umhverfismála og sjálfbærrar þróunar. Í þessari samstarfsyfirlýsingu er getið um aðkomu félagasamtakanna að umhverfisþingi.

[24:45]

Ég tel því, herra forseti, þá hugmynd sem ég lýsti hér áðan í raun og veru fólgna í þessari samstarfsyfirlýsingu og vil bara að það sé algjörlega rammað inn hér að þá er verið að breyta um vettvang. Vettvangurinn hefur annað útlit en í sjálfu sér eru markmiðin hin sömu, þ.e. að umhvrn. hafi öflugan samráðsvettvang úti á akrinum.

Nú er ekki getið um það í þessu frv., eins og getið er um í lagatexta sem við höfum starfað eftir hingað til, nákvæmlega hverjir eigi að eiga aðild að þessu umhverfisþingi. Í raun og veru er fjallað á mjög opinn hátt um það hverjir eigi þar sæti. Í 4. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

,,Á umhverfisþingi skal fjalla um umhverfis- og náttúruvernd og sjálfbæra þróun. Fjórða hvert ár skal á umhverfisþingi fjalla um aðgerðaáætlanir um sjálfbæra þróun. Til umhverfisþings skal boða alþingismenn, fulltrúa stofnana ríkisins og sveitarfélaga, fulltrúa atvinnulífs og frjálsra félagasamtaka sem hafa umhverfisvernd og sjálfbæra þróun á stefnuskrá sinni.``

En í þeim lögum sem við höfum starfað eftir, herra forseti, hefur þetta verið miklu nánar útlistað og talið upp í smáatriðum hvaða aðilar eigi aðgang að náttúruverndarþingi.

Ég vil þingmönnum til fróðleiks fara yfir þá upptalningu því að ég tel mjög nauðsynlegt að þessir aðilar eigi líka opna aðkomu að væntanlegu umhverfisþingi. Þeir aðilar sem taldir eru upp í núgildandi 10. gr. náttúruverndarlaga eru eftirfarandi, með leyfi herra forseta: ,,fulltrúar náttúrustofa, náttúruverndarnefnda, hagsmunaaðila, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra aðila sem vinna að náttúruvernd, svo og forstjórar stofnana á sviði náttúrufræða. Jafnframt skulu fulltrúar ráðuneyta og þingflokka á Alþingi eiga rétt til setu á þinginu með málfrelsi og tillögurétt, svo og sviðsstjórar Náttúruverndar ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands og forstöðumenn setra síðarnefndu stofnunarinnar.``

Hér er á mjög greinargóðan hátt útlistað hvaða hugmyndir eru um þátttöku og aðila að þessu náttúruverndarþingi. Og ég treysti því, herra forseti, að þessir sömu aðilar komi til með að eiga greiðan aðgang að umhverfisþingi sem verður þá vettvangur framtíðarinnar í þessum efnum.

Það er að sönnu rétt að miklar breytingar hafa orðið á umfjöllun um umhverfismál síðustu árin. Og það er auðvitað alveg sjálfsagt að þær breytingar skili sér einnig inn í stjórnsýsluna. En auðvitað skiptir verulegu máli, sérstaklega í ljósi þeirra deilna sem skapast hafa á milli almennings eða frjálsra félagasamtaka og stjórnvalda, að sjónarmiðin sem getið er um í Árósasamningnum sem við ætlum að fara að lögleiða séu höfð sem leiðarljós í samskiptum þessara aðila. Þótt við deilum og þótt deilurnar séu oft og tíðum verulega hatrammar verðum við að eiga möguleika á því að ræða saman á málefnalegum grunni. Það reyna þingmenn hér í þingsal þó að þeir séu ósammála um eðli hlutanna. Hér er tekist heiftarlega á um ýmis mál. Á sama hátt er tekist heiftarlega á um ýmis mál úti á akrinum varðandi umhverfisvernd og náttúruvernd. Og það verður áfram gert. Þar eru gífurlegar deilur nýafstaðnar. Ég nefni deilurnar um Fljótsdalsvirkjun. Og það eru gífurlegar deilur fram undan. Ég nefni deilurnar um Kárahnjúkavirkjun. Og við verðum að gera okkur grein fyrir því að það er skylda stjórnvalda, og íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til þess þrátt fyrir deilurnar sem alltaf rísa öðru hvoru, að eiga samstarf við umhverfissamtökin. Það má ekki gerast að hlutirnir lendi í slíkum öngstrætum sem þeir gerðu áður milli stjórnvalda og Náttúruverndarráðs, það verður að finna aðferð sem lempar hlutina þannig að til sé samstarfsvettvangur og fólk geti átt þar vettvang til að takast á um hlutina án þess að þeir fari inn í þau öngstræti sem við höfum dæmi um.

Árósasamningurinn er nefndur í nál. og ég vil einungis undirstrika að þar eru ákveðin prinsippmál útlistuð og fyrir málaflokkinn skiptir verulegu máli að þau komist til framkvæmda í íslenskri löggjöf hið allra fyrsta.

Einnig fagna ég því, herra forseti, að í nál. skuli sú yfirlýsing vera gefin að umhvn. ætli sér á yfirstandandi þingi að vinna tillögur um það hvernig ákvörðunum um fjárframlög til frjálsra félagasamtaka verði háttað í framtíðinni en þar held ég að sé mál á ferðum sem þarf að leysa farsællega. Ýmsar hugmyndir hafa verið orðaðar innan nefndarinnar og það skiptir mig miklu máli að hér skuli eiga að halda þannig á málum áfram að reynt verði að leita samstöðu um það fyrirkomulag. Ég treysti því að í þeirri vinnu verði samtökin kölluð fyrir og þeirra sjónarmið skoðuð og að vinnan geti verið í þeim dúr að hún sé í samvinnu nefndarinnar og þeirra samtaka sem í hlut eiga. Ég fagna því líka sérstaklega að við skyldum hafa getað orðið sammála um að hafa skuli hliðsjón af eðli starfsemi viðkomandi félaga og umfangi þeirra, og jafnræðis verði gætt við úthlutunina.

Innan nefndarinnar var talsverð umræða um orðalagsbreytingar sem gerðar eru með þessu frv., herra forseti. Sérstaklega varð okkur tíðrætt um þá staðreynd að orðið ,,landslagsgerðir`` skuli tekið út úr lagatextanum og í staðinn séu sett inn orðin jarðmyndanir og vistkerfi. Herra forseti. Ég er ekki alls kostar sátt við þetta þannig að hér er hluti af mínum fyrirvara. Ég tel að við hefðum átt að skoða málið aðeins betur, hvort ekki hefði verið rétt að halda ,,landslagsgerðum`` þarna inni, sérstaklega í ljósi þess að heill kafli laganna fjallar um landslagsvernd. Og ef landslag og landslagsgerðir eru ekki skilgreindar í lagatextanum tel ég okkur vera á hálum ís miðað við það að við erum að skilgreina önnur hugtök í honum. Ég lít þannig á þetta sem framtíðarverkefni, herra forseti, að þessi endurskoðun og skilgreining hugtaka inni í lagatexta eigi áfram eftir að vera til skoðunar, og við komum til með að geta haldið áfram þeirri vinnu og séð til þess að hugtakaskilgreiningar og orðanotkun séu eins og best verður á kosið. Ég held að við höfum í þessu tilfelli verið fullfljótfær og afgreitt málið kannski heldur hratt út úr nefndinni hvað þetta varðar.

Ég held að ekki sé þörf á að orðlengja þetta frekar. Ég vil einungis víkja í örfáum orðum að frv. sem fjallar um niðurfellingu gjalds þess sem Endurvinnslan hefur greitt hingað til og er samkvæmt frv. sem ég er ekki með hjá mér í augnablikinu --- ég held að það hafi verið 17. málið á dagskrá. Ég sé að hv. nefndarformaður ætlar að aumka sig yfir mig og rétta mér þetta frv. til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

Hér er á ferðinni niðurfelling á gjaldi sem Endurvinnslan hf. hefur greitt af árlegum tekjuafgangi sínum til Náttúruverndarráðs og þar sem Náttúruverndarráð verður lagt niður er ekki lengur neitt Náttúruverndarráð til að greiða þetta gjald. Kannski hefur ekki verið um háar upphæðir að ræða en þó, hér hafa innheimst nokkur gjöld sem samkvæmt þessu frv. falla niður.

Ég geri að sjálfsögðu fyrirvara við þetta mál líka, herra forseti. Úr því að umhverfisgjaldi af þessu tagi var komið á finnst mér miður að sjá það bara falla niður og verða að engu. Auðvitað hefði ég viljað sjá þetta gjald áfram vera til og renna áfram til mála tengdum umhverfisvernd, og felli mig einasta við niðurfellinguna í ljósi þess að við eigum fram undan í umhvn., eftir því sem okkur hefur verið tjáð, umfjöllun um umhverfisgjöld á breiðum grunni. Við vitum öll að mál af því tagi eiga eftir að koma á næstunni fyrir augu okkar þingmanna í auknum mæli. Auðvitað er sjálfsagt að Alþingi taki almennilega á því máli, og mynduð sé og mótuð heildstæð stefna í þeim málaflokki, í málaflokknum umhverfisgjöld og umhverfisskattar, og þá lít ég svo á að gjald af því tagi sem hér um ræðir skipti kannski ekki sköpum þótt það sé fellt niður tímabundið ef málinu verður komið í þann farveg að heildstæð stefna verði mótuð þannig að sómi geti verið að.

Herra forseti. Ég hef þá í stórum dráttum gert grein fyrir þeim fyrirvörum sem ég hafði við viðkomandi mál. Ég vil svo að lokum einungis lýsa því yfir að ég hefði að sjálfsögðu óskað eftir að geta fengið mun lengri umræðu. Ég tel að umræður á Alþingi geti gagnast málum úti í samfélaginu þannig að málin geti haft héðan, sem nesti eða farareyri, frjóa umræðu, frjó skoðanaskipti sem haldi áfram að lifa meðal þeirra sem þurfa síðan að starfa eftir þeim lögum sem hér eru samþykkt. En í ljósi þeirrar tímapressu sem er á okkur er því ekki að heilsa að við fáum nægilega efnismikla eða langa umræðu um málið og læt ég því þessum athugasemdum mínum lokið, herra forseti.