Húsnæðismál

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 10:53:07 (3311)

2001-12-14 10:53:07# 127. lþ. 55.5 fundur 358. mál: #A húsnæðismál# (afskrift af skuldum sveitarfélaga) frv. 155/2001, GÁS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[10:53]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég er sammála þeim markmiðum sem að baki liggja. Það liggur ljóst fyrir að taka þarf á vanda fjölmargra sveitarfélaga vítt og breitt um landið sem í mörgum tilfellum stafa af því að þau hafa lagt í mikla fjárfestingu vegna félagslegra íbúða. Ég hef hins vegar miklar efasemdir um þessa nálgun og þá aðferðafræði sem hér er lögð til. Í seinni tíð hef ég í auknum mæli haft efasemdir um að veita ráðherrum opnar heimildir sem þingið hefur lítið eða ekkert um að segja. Í þessu tilfelli er verið að feta þá slóð og ég get ekki greitt þessu atkvæði þó að efni málsins sé mér hugleikið.