Leigubifreiðar

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 11:09:47 (3318)

2001-12-14 11:09:47# 127. lþ. 55.10 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv. 134/2001, JB (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[11:09]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér stendur til að greiða atkvæði um ný heildarlög um leigubifreiðar. Það verður að segjast eins og er að margt hefur farið á betri veg í meðferð frv., bæði frá því að það kom fyrst fram í fyrravetur og svo eins nú í haust. Þær breytingar sem meiri hlutinn leggur til við frv. eru að mínu mati allar til bóta. Engu að síður getum við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, ekki stutt þetta frv. í heild sinni. Það er fyrst og fremst vegna þeirrar miklu gjaldtökuáráttu sem frv. felur í sér, þ.e. að ríkið skuli nota hvert tækifæri sem gefst og skapa sér ný tækifæri til gjaldtöku.

Í okkar huga er leigubílaakstur og leigubifreiðaþjónusta hluti af almannaþjónustu, og lagaumgjörðinni um hana ber að vera henni til styrktar en hún ekki notuð sem gjaldtökustofn.

Við munum því, herra forseti, sitja hjá við atkvæðagreiðslu á þessu frv. en leggjum áherslu á að gott sé að fá heildarlöggjöf um þessa atvinnugrein.