Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 11:29:27 (3326)

2001-12-14 11:29:27# 127. lþ. 55.13 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, Frsm. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[11:29]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Hér er tekið til 3. umr. frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem lengi var rætt í þingsölum í gær við 2. umr. Ljóst er að þá komu fram mjög skýr rök frá stjórnarandstöðunni fyrir því að hv. stjórnarliðar eru á rangri leið með því að fara í þær ýmsu gjaldtökur og aðgerðir sem þetta frv. felur í sér. Það sem einkum var gagnrýnt var sú aukna gjaldtaka sem á að leggja á námsmenn, aukin gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu og að ríkissjóður sé að taka til sín hluta af því fé sem hann innheimtir fyrir kirkjuna auk þess sem ýmislegt fleira má finna í frv. sem var gagnrýnt eins og t.d. hækkun á bifreiðagjöldum. Kannski er ekki ástæða til að fara mikið yfir þá þætti aftur við 3. umr. þó ég vilji drepa á örfá atriði engu að síður nú við lokaafgreiðslu málsins.

[11:30]

Ég stend þó hér sérstaklega upp til að mæla fyrir brtt. sem ég hef flutt. Markmiðið með henni er að leggja til nýja fjáröflunarleið fyrir ríkissjóð en í staðinn verði horfið frá gjaldtöku á sjúkraheimilum og því að hækka gjöld á námsmenn. Þetta tvennt á að gefa ríkissjóði 110 millj. kr. og var mjög gagnrýnt hér í gær. Ég legg til að farið verði út í smávægilega hækkun á tóbaksgjaldi í staðinn fyrir að auka gjaldtöku hjá námsmönnum og sjúklingum.

Það samkomulag sem gert var milli aðila vinnumarkaðarins í gær er afar þýðingarmikið innlegg í baráttuna gegn verðbólgu og þýðingarmikið innlegg fyrir það að við náum hér stöðugleika á ný. Verkalýðshreyfingin á þakkir skildar fyrir hvernig hún hefur haldið á málum og hvernig hún hefur fallið frá því að launaliðunum yrði sagt upp þrátt fyrir að verðbólga sé orðin 8,6% sl. tólf mánuði og hafi sprengt þau rauðu strik sem menn voru ásáttir um að yrðu skoðuð í febrúarmánuði ef þau markmið sem menn settu sér í kjarasamningunum á síðasta ári næðu ekki fram.

Mér finnst satt að segja, herra forseti, að ríkisstjórnin leggi ekki mikið á sig í því samkomulagi sem staðfest var milli aðila vinnumarkaðarins í gær. Ég lít fyrst og fremst á þetta sem svo að verkalýðshreyfingin sé hér að gefa ríkisstjórninni kost á að bæta ráð sitt, kost á því að taka til heima hjá sér, kost á því að halda betur um stjórnartaumana og hagstjórnina til að hægt sé að ná tökum á verðbólgunni.

Sú tillaga sem ég flyt hér hefur það að meginmarkmiði að verðlagsáhrifin af þeirri leið, sem ég og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar leggjum til með því að taka upp hækkun á tóbaksgjaldi í stað annarra þátta og aðgerða í þessu frv. sem hafa meiri verðlagsáhrif, verði minni en af hækkun á námsmönnum svo nemur töluvert miklu, herra forseti, vegna þess að --- eins og við fórum ítrekað í gegnum í gær --- verðlagsáhrifin af hækkun á gjöldum á námsmenn eru um 0,14% samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar og Hagstofunnar en verðlagsáhrifin af því að hækka tóbaksgjald um 5 kr., sem gefur 113 millj. kr., eru einungis um 0,03%. Það munar því verulega.

Ég vil segja það, herra forseti, eins og ríkisstjórnin gerir sér sjálfsagt ljóst, og allir aðrir líka, að það má engu muna til að hægt sé að ná því markmiði sem menn settu sér í maímánuði sem ég tek vissulega undir að er afar metnaðarfullt og mikilvægt að takist. Svigrúmið sem menn gefa sér varðandi hækkanir fram til 1. maí er afar knappt og er það ekki nema um 1,4%. Vísitalan er nú 219,5 stig en við það er miðað að hún verði ekki hærri en 222,5 í maímánuði þegar vísitalan verður reiknuð út og það skapar svigrúm upp á 1,4% í hækkun. Það er því afar mikilvægt að vel sé haldið á málum og menn fari varlega í allar gjaldskrárhækkanir sem geti ýtt verðbólgunni upp. Tilgangurinn með tillögunum er einmitt að hafa þau áhrif að þær aðgerðir sem felast í þessu frv. hafi ekki þau verðlagsáhrif sem Þjóðhagsstofnun metur.

Nú er það að sönnu rétt sem hæstv. forsrh. sagði í gær að það skiptir máli hvenær þær gjaldskrárhækkanir sem við ræðum í frv. ganga fram, hvort það er í byrjun árs eða á miðju ári, það skiptir verulegu máli. Eins og dæmið lítur út núna hjá Þjóðhagsstofnun er um að ræða 0,35% verðlags\-áhrif af þessum breytingum. Um er að ræða áhrif á vísitölu upp á 0,14% vegna hækkunar skráningar- og efnisgjalda í framhaldsskólum og háskólum, hækkun áfengisgjalds nemur 0,11%, hækkun lyfjakostnaðar nemur 0,05%, hækkun komugjalda á heilsugæslustöðvar og til sérfræðinga 0,04% og 0,01% vegna hækkunar vopnaleitargjalds þannig að þetta telur allt verulega í vísitölunni.

Varðandi hækkun áfengisgjalds skiptir auðvitað máli hvort hækkunin verður 1. janúar eða 1. júní. Ef hækkunin verður 1. janúar var það meðal annars upplýst í efh.- og viðskn. af fulltrúa fjmrn. að hækkunin þyrfti að vera um 7% en það er alveg ljóst að ef menn ætla að fresta hækkuninni fram í júní þarf hún að vera meiri til að ná þeim tekjum sem ríkisstjórnin ætlar sér með hækkun á áfengisgjaldi. Þá þyrfti hún sennilega að vera um 14% til að ná sömu tekjum.

Sama gildir um gjaldtökuna í heilbrigðiskerfinu. Ég hygg að hæstv. heilbrrh. muni fara í þá gjaldtöku fyrr en seinna til að ná settu markmiði til að gjaldtakan þurfi þá ekki að verða þeim mun hærri á miðju ári til að ná inn ætluðu fjármagni ársins.

Síðan hefur komið fram, herra forseti, að til viðbótar þessum 0,35% er verið að tala um hækkun á afnotagjaldi RÚV, um 7% ef ég skil málið rétt, sem telur töluvert í vísitölunni og er rætt þar um 0,07% hækkun. Síðan hefur verið upplýst að um áramótin eigi mjólkin að hækka um 6,5% að meðaltali sem gæti þýtt eitthvað um 0,18%.

Þá veltir maður auðvitað fyrir sér hvort eitthvað meira sé í pípunum sem skrúfar upp verðlagið sem ekki er komið fram, meðal annars vegna gengisáhrifa og gengisfellingarinnar sem hefur verið ótrúleg á síðasta einu og hálfu ári eða 25--30%, ef ég tel rétt.

Það er allra hagur að ná því markmiði sem verkalýðshreyfingin og aðilar vinnumarkaðarins ásamt ríkisstjórninni settu sér í gær. En svigrúmið er mjög þröngt og það má lítið út af bera til að þetta markmið náist ekki í maí. Þess vegna er afar mikilvægt að það liggi raunverulega fyrir með hvaða hætti ríkisstjórnin ætlar að fara í þá gjaldtöku sem hér er áformuð. Það er alveg ljóst að það er ekki hagur eins eða neins ef fara á í þetta með einhverjum bellibrögðum eða töfrabrögðum, t.d. með því að setja lok á allar gjaldskrárhækkanir fram í maí til að hafa þau áhrif að vísitalan hækki ekki meira en menn hafa samið um, 222,5, en síðan verði lokinu lyft eftir að markmiðinu hefur verið náð í maí, og þá komi kannski fram verulegur hluti af þessum gjaldskrárhækkunum með auðvitað mjög óæskilegar sveiflur í efnahagslífið. Þá er auðvitað verr af stað farið en heima setið.

Þess vegna er eðlilegt, herra forseti, að við spyrjum undir þessum kringumstæðum: Er hugsanlegt að ríkisstjórnin muni taka þannig á málum að hún fresti einhverjum þessara gjaldskrárhækkana fram yfir maí til að vísitalan sýni þá það sem menn eru að stefna að, 222,5, en skelli svo verulegum hluta af þessum hækkunum á, gjaldskrárhækkunum, eftir að vísitölumælingin hefur farið fram í maí? Ég verð að segja, herra forseti, að ég óttast eilítið að þetta gæti hugsanlega skeð, og það er vitaskuld vegna þess að ég treysti ekki ríkisstjórninni betur en þetta.

Auðvitað verð ég að vona eins og allir að ríkisstjórnin hagi sér skynsamlega í þessu efni. En mér fannst t.d. hæstv. forsrh. vera að gera þessu nokkuð skóna í umræðunni í gær þegar við vorum að ræða um verðlagsáhrifin og um þau var spurt. Ja, það skiptir máli hvenær þetta tekur gildi, sagði hæstv. forsrh., og nefndi t.d. áfengisgjaldið í því sambandi.

Ef við stöndum frammi fyrir því í maímánuði, herra forseti, að við náum ekki þessu markmiði sem allir verða auðvitað að leggja sig fram um að ná --- hvaða áhrif getur það þá haft, herra forseti? Þá er það á valdi hvers aðildarfélags innan verkalýðshreyfingarinnar að segja upp kjarasamningum. Ég geri ráð fyrir að það sé auðvitað skynsamlegast fyrir alla aðila að ekki komi til verulegra launahækkana miðað við þá stöðu sem efnahags- og atvinnulífið er í.

Ef þetta gengur ekki eftir og það kemur einhver slaki þannig að menn nái ekki markmiðunum gæti líka komið til þess að í febrúarmánuði árið 2003, þegar launanefndin getur komið saman á nýjan leik, verði kjarasamningunum sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara, þ.e. ef verðbólgan hefur farið mikið úr böndunum. Það er því afar mikið í húfi að vel takist til í þessum efnum.

Það sem þarf auðvitað að gerast er í fyrsta lagi að gengið styrkist og falli ekki meira. Ég held að óraunhæft sé að ætla að gengið hækki eitthvað verulega fram í maí þannig að innflutningsverð lækki eitthvað verulega. Þess vegna skipta þessar gjaldskrárbreytingar sem við erum að tala um hér verulegu máli í því hvort við náum þeim markmiðum sem aðilar vinnumarkaðarins hafa verið að setja sér. Það er ekki síst þess vegna sem ég er að mæla fyrir þeirri tillögu sem ég lýsti hér í upphafi máls míns.

Og ég spyr, herra forseti, hæstv. forsrh.: Hefur ríkisstjórnin lagt það niður fyrir sér með hvaða hætti verði farið í þær gjaldskrárhækkanir sem boðaðar eru í þessu frv.? Hefur það verið kortlagt með hvaða hætti þetta hefur sem minnst áhrif á verðbólguna og þau markmið sem menn hafa sett sér?

[11:45]

Síðan skiptir það auðvitað máli sem um var samið, þ.e. að lækkun á grænmeti gangi fram sem hefur veruleg áhrif á vísitöluna. Ég endurtek því ábendingu mína til forsrh. um að menn séu ekki að búa til verðsveiflu með óeðlilegum gjaldskrárhækkunum sem hafi óæskileg áhrif á vísitöluna og efnahagslífið.

Herra forseti. Ég held að ég þurfi ekki að lýsa þessari tillögu neitt frekar. Hún er í alla staði mjög skynsamleg, sama frá hvaða sjónarhorni er litið. Hækkun á tóbaksgjaldi hefur forvarnagildi og sparar í heilbrigðisþjónustunni. Það sparar fjarvistir vegna veikinda á vinnumarkaðnum. Þetta er sparnaður fyrir þjóðfélagið í heild. Þegar við berum saman þær tvær leiðir, annars vegar leiðina sem ríkisstjórnin vill fara með hærri gjaldtöku af námsmönnum og þá leið sem við viljum fara, þ.e. að hækka lítillega tóbaksgjaldið, þá ætti ekki að velkjast fyrir neinum að það er skynsamlegra að fara að okkar tillögum.

Með þeirri hækkun sem á að verða á gjaldtöku af námsmönnum er verið að tefla í tvísýnu námi hjá fjölda fólks. Allir vita að menntun er fjárfesting til framtíðar. Lítilleg hækkun á tóbaksgjaldi hefði aftur á móti forvarnagildi. Ég teldi þá hækkun líka skynsamlega því allir vita jú að tóbaksreykingar eru hættulegar heilsu fólks. Þess vegna ætti ekki að vera spurning um hvora leiðina væri skynsamlegra að fara.

Fimm króna hækkun á tóbaksgjaldi gefur um 7 krónur í útsöluverði. Það gefur ríkissjóði um 113 millj. í tekjur. Vísitöluáhrifin eru samkvæmt upplýsingum Hagstofu um 0,03% á móti 0,14% vísitöluáhrifum af hækkun námsgjalda. Þær forsendur sem hér er lagt upp með tel ég mun skynsamlegri en að fara þá leið sem ríkisstjórnin áformar.

Ég skil reyndar ekki af hverju ríkisstjórnin heldur svo fast í aukna gjaldtöku af námsmönnum, sem einungis á að skila um 100 millj. kr. en hefur þessi miklu verðlagsáhrif. Ég hygg að það séu fyrst og fremst sjálfstæðismenn sem vilja festa í sessi þessi skólagjöld. Ég held að það hafi verið erfiðleikum bundið að ná þessari niðurstöðu milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, af þeim sökum er erfiðleikum bundið að breyta út frá niðurstöðunni sem menn hafa náð samkomulagi um, þó öll rök mæli með því að skynsamlegra sé, herra forseti, að fara aðra leið.

Ég vil skoða aðeins betur þessar auknu gjaldtökur af námsmönnum sem Iðnnemasambandið og stúdentaráð hafa harðlega mótmælt. Þeir benda réttilega á að kostnaður við nám hefur aukist mjög á undanförnum árum. Þeir benda réttilega á að barnafólk fer sérstaklega illa út úr hækkun á þessum gjöldum, barnafólk í námi og námsmenn af landsbyggðinni sem sækja nám til höfuðborgarinnar. Þeir benda líka á, t.d. stúdentaráð, að ef skrásetningargjöld ættu að vera í efnislegum tengslum við innritun nemenda og rekstur nemendaskrár ætti gjaldið að vera 16.000 kr. en ekki 32.500 eins og nú er stefnt að. Þeir benda á að helmingur gjaldsins sé þar af leiðandi almenn tekjuöflun til að standa undir kostnaði við rekstur skólans.

Iðnnemasambandið hefur í umsögn sinni bent á að fyrir utan hækkanir á þessum gjöldum sé verulegur kostnaður hjá þeim sem eru í iðnnámi vegna verkfærakaupa. Þeir taka sem dæmi hárgreiðslunám. Kostnaður þar er um 65 þús. kr. og í námi í matreiðslu um 40--50 þús. kr. Þannig er verulegur kostnaður af iðnnámi enda fækkar nemendum í iðnnámi eins og þeir benda á í umsögn sinni.

Nemendafélögin benda á, herra forseti, að brottfall nemenda úr námi er verulegt og full ástæða er til að hafa verulegar áhyggjur af því. Vísað er í niðurstöður rannsóknar Jóns Torfa Jónassonar, prófessors í uppeldisfræði og menntunarfræði, og Kristjönu Stellu Blöndal sem gefin var út í apríl á þessu ári. Þar kemur fram skipting náms hjá tæplega 4.200 manns sem fædd eru á árinu 1975. Þar kemur fram að af þeim 4.200 sem tekið var mið af hafa einungis 46,2% lokið stúdentsprófi og 11% lokið verknámi, 42,8% höfðu ekki lokið neinu framhaldsnámi.

Í skýrslu Jóns Torfa um rannsóknir á námsferli þeirra sem fæddir eru árið 1975 er leitað svara við spurningunni um hve margir ljúki ekki námi. Fram kemur að yfir 40% árgangsins hafa ekki lokið neinu prófi við 24 ára aldur. Fram kemur að fleiri ljúki prófi á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni og geysilegur kynjamunur sé á þeim fjölda sem lýkur stúdentsprófi.

Ég held að sé mjög varasamt að gera lítið úr hærri gjöldum, að þetta séu bara örfáir þúsundkallar sem allir eigi að geta borgað. Námsmenn eru ekkert of sælir af því sem þeir hafa milli handanna á meðan þeir eru í námi. Þeir sem ljúka hluta af námi sínu á vinnumarkaðnum hafa náttúrlega smánarlegt kaup. Mér var sagt, án þess ég hafi kynnt mér það, að nemar hafi í laun um 250--300 kr. á tímann. Þannig sjá allir hvað það telur að hækka t.d. efnisgjöldin um 100%. Erum við ekki að tala um 25.000 kr. eða eitthvað slíkt? Auðvitað skiptir þetta miklu máli. Eins ber að hafa í huga þá miklu hækkun sem hefur t.d. verið á húsaleigu á síðustu tveimur til þremur árum. Það skiptir ekki síst miklu fyrir þá sem koma frá landsbyggðinni og sækja nám til höfuðborgarsvæðisins.

Í ljósi þessa finnst mér mjög sérkennilegt að ríkisstjórnin ætli að fara þessa leið, af því þetta gefur nú ekki meiri pening í ríkiskassann en 100 millj. kr., meðan hægt væri að sækja með öðrum hætti eins og ég hef sýnt fram á hér í umræðunni. Miklu skynsamlegri hætti.

Varðandi sjúklingana hefur verið farið ítarlega yfir þá aukningu sem verður í lyfjakostnaði og gjöldum fyrir læknisþjónustu. Við erum að tala um hækkanir á komugjöldum, röntgenþjónustu, sérfræðilæknisþjónustu á þessu ári um 600--700 millj. og á næsta ári yfir 500 millj. Á tveimur árum koma í ríkiskassann kannski 1.100--1.200 millj. kr. með gjaldtöku af sjúklingum í heilbrigðiskerfinu. Þetta eru auðvitað gífurlegar upphæðir sem koma inn með gjaldtökunni í heilbrigðiskerfinu enda hefur verið sýnt fram á það, m.a. hjá BSRB, hvernig gjaldtökur í heilbrigðisþjónustunni hafa aukist á umliðnum árum. Benedikt Davíðsson sýndi fram á það með töflu sem hann lagði fyrir efh.- og viðskn. að einungis hækkunin 1. júlí sl., á komugjöldum til sérfræðinga og röntgenrannsókna, hafi í för með sér um 20--67% hækkun.

Auk þess stendur til að fara nýja leið með gjaldtöku á sjúkraheimilum eða sjúkrahótelum sem eru auðvitað til verulegs sparnaðar í heilbrigðiskerfinu, að hægt sé að bjóða upp á þá þjónustu sem þar er. Því er mjög sérstakt að þar skuli farið út í gjaldtöku sem á að gefa 10 millj. kr. Mér virðist sem þar sé verið að reyna að festa í sessi eins konar skatt, matarskatt sem þar á að borga og menn muni svo í næsta skrefi færa yfir á spítalana. Hér erum við einungis að ræða um 10 millj. sem munar hvorki til eða frá varðandi útgjöld ríkissjóðs. Síðan er auðvitað afar sérstakt sem fram hefur komið, að þessi gjaldtaka hafi viðgengist um skeið, frá áramótum, án þess að hafa nokkra lagastoð. Maður spyr því hvort þeir sem hafa þurft að greiða þetta gjald muni ekki sækja um að fá þetta endurgreitt. Staða þeirra hlýtur að vera mjög góð til að endurheimta þetta gjald sem tekið hefur verið með ólögmætum hætti frá síðustu áramótum.

Herra forseti. Ég fer að ljúka máli mínu. Það hefur verið rætt hér ítarlega um aðra þætti eins og hækkun á bifreiðagjöldum og sóknargjöldum. Ég tel ekki ástæðu til þess að tefja tíma þingsins með því að fara nánar út í það. Erindi mitt í ræðustól var fyrst og fremst að kynna þær brtt. sem ég hafði ekki tækifæri til að kynna við 2. umr. málsins og vekja athygli á því að skynsamlegra væri að fara þá leið en hina sem ríkisstjórnin ætlaði að fara.

Ég fagna, herra forseti, sérstaklega samkomulaginu sem gert var milli aðila vinnumarkaðarins en vil þó einnig gera grein fyrir því að ég hef ákveðnar áhyggjur af því, eins og margir fleiri, að erfitt verði að ná því markmiði. Þar skiptir öllu máli hvernig ríkisstjórnin hagar sínum gjörðum á næstu vikum og mánuðum, hvort þessi markmið nást fram. Ég geri mér alveg fulla grein fyrir því sem hæstv. forsrh. nefndi hér í gær, að innkoma og aðild ríkisstjórnarinnar að þessu samkomulagi hafi skipt máli. Ég hygg að þar hafi ekki síst skipt máli það sem aðilar vinnumarkaðarins, ekki síst kannski atvinnurekendur, hafa lagt áherslu á, þ.e. að ríkisstjórnin félli frá þriðjungi af tryggingagjöldunum. Ég vil þó ítreka að mér finnst aðkoman nokkuð sérkennileg að því leyti að það að ríkisstjórnin falli frá þriðjungi á tryggingagjaldinu sé bundið því skilyrði að markmiðin náist. Þá verður ekki annað séð en þessi hækkun á tryggingagjaldinu, 0,77%, nái fram að ganga með þeim verðlagsáhrifum sem hún þá hefur upp á 0,3--0,4% en yrði auðvitað eitthvað minni ef ríkisstjórnin félli frá þriðjungi af þessum gjöldum.

Herra forseti. Ég held að það sem stendur upp úr í samkomulaginu sem náðist milli aðila vinnumarkaðarins í gær, að hluta til með þátttöku ríkisvaldins, sé fyrst og fremst að verkalýðshreyfingin hafi gefið ríkisstjórninni kost á að bæta ráð sitt. Það skiptir miklu máli að ríkisstjórnin grípi tækifærið sem henni gefst nú. En þá þarf að fara mjög varlega í allar gjaldtökur eins og ég hef nefnt. Brtt. sem ég hef mælt fyrir er innlegg í það mál.