Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 12:05:29 (3331)

2001-12-14 12:05:29# 127. lþ. 55.13 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[12:05]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Hér var vitnað í álit Iðnnemasambands Íslands. Ég vil aðeins láta það koma fram að samstarf menntmrn. og Iðnnemasambandsins er mjög gott og unnið er að því núna að endurskoða þjónustusamning á milli ráðuneytisins og Iðnnemasambandsins. Það er sameiginlegt markmið ráðuneytisins og sambandsins að efla verknám og starfsnám og gera það sem unnt er til þess að fá fleiri nemendur til að stunda slíkt nám. Við erum með ráðagerðir uppi í því og gerðar hafa verið margar ráðstafanir, m.a. þær að standa þannig að málum að þeir sem innritast í starfsnám og verknám geta auk þess að fá sér starfsréttindi í sínu námi, einnig bætt við sig einingum og lokið stúdentsprófi, þannig að staðið er að því með skipulegum hætti að styrkja stöðu verknámsins í framhaldsskólunum.

Það er rangt að leggja þannig út af rannsóknum prófessors Jóns Torfa Jónassonar að þær gefi til kynna að hækkun innritunargjalds úr 6.000 kr. í 8.400 kr. eða það að hækka hámarkið á efnisgjöldunum úr 25.000 kr. í 50.000 kr. sé aðför að verknámi eða starfsnámi. Það er ekkert sem kemur fram í þeim rannsóknum sem rennir stoðum undir þá skoðun sem mér heyrðist koma fram hjá hv. þm., að þær rannsóknir bentu til þess að þessar ráðstafanir sem við erum að gera núna yrðu til þess að draga úr áhuga manna á að stunda verknám eða starfsnám. Ég held að þingmenn geri sér of miklar grillur út af þessu þegar litið er á þá þætti og búi sér til röksemdir í málflutningi sínum varðandi starfsnám og verknám. Að leggja þessar tölur til grundvallar á ekki við nokkur rök að styðjast þegar litið er á þróun og hlutdeild nemenda í starfsnámi og verknámi hér á landi.