Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 12:07:37 (3332)

2001-12-14 12:07:37# 127. lþ. 55.13 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[12:07]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vísa því auðvitað til föðurhúsanna að stjórnarandstaðan sé að búa sér til einhverjar röksemdir í þessu máli, hvaða áhrif hækkun á slíkri gjaldtöku á námsmenn hafi. Ég vitna t.d. í umsögn Iðnnemasambands Íslands sem ég skora á hæstv. menntmrh. að lesa ásamt umsögn stúdentaráðs, þar sem þeir færa mjög sterk rök fyrir máli sínu. Meðal annars koma fram verulegar áhyggjur hjá Iðnnemasambandinu hvaða áhrif slík gjaldtaka muni geta haft á verknámið. Það er ekki ég sem er að búa þetta til, herra forseti, ég gæti lesið upp úr umsögn Iðnnemasambandsins sem sýnir fram á með mjög sterkum rökum hvaða áhrif þetta getur haft á verk- og iðnnám í landinu og hvaða áhrif það hefur þegar haft, eins og fram kemur í umsögn þeirra. Þeir tefla fram þeim mikla kostnaði sem námsmenn sem leggja fyrir sig verknám hafa, ekki bara af innritunar- og efnisgjöldum, heldur einnig af verkfærakaupum og bókakostnaði.

Það eru því orðin veruleg útgjöld fyrir fólk á Íslandi að fara í nám, sem er nú ansi sérstætt að skuli vera þegar svo mikið er í húfi fyrir framtíð íslensku þjóðarinnar, að fólk geti stundað hér nám með eðlilegu móti en ekki sé verið að setja upp óeðlilegar gjaldtökur sem hindri fólk í að geta farið í nám. Vegna þess að fólk sem er í iðnnámi sem hefur litlar tekjur milli handanna munar auðvitað um hækkun um 100% á efnisgjöldum, um 25.000 kr. Það er ekkert smátt fyrir þetta fólk þó það sé einhver smáaur í augum hæstv. ráðherra.

Ég var ekki að leggja út af neinum orðum eða skýrslu frá Jóni Torfa Jónassyni í þessu efni, þetta kemur fram í umsögn Iðnnemasambandsins þar sem þeir eru að vísa í umsögn hans. Ég var bara að lesa upp úr skýrslu Jóns Torfa Jónassonar, sem sýnir verulegt brottfall úr skóla og örugglega er hækkun á skráningar- og efnisgjöldum liður í því.