Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 12:57:02 (3341)

2001-12-14 12:57:02# 127. lþ. 55.13 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[12:57]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að taka þátt í þessari umræðu og fyrir þær upplýsingar sem komu fram af hans hálfu.

Í fyrsta lagi vil ég drepa á forsendur samninga. Ég held að öllum sé ljóst að verkalýðshreyfingin hefði ekki getað gert annað --- ég held að einfaldast sé bara að orða það á mannamáli --- en að segja upp samningnunum þegar forsendurnar voru augljóslega alveg brostnar, nema eitthvað kæmi til. Ég held að allar aðstæður hafi einfaldlega verið þannig að það hefði orðið óumflýjanlegt í febrúar nk. nema eitthvað annað kæmi til.

Hæstv. forsrh. staðfestir það sem ég sagði, að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar séu í reynd ekki fólgin loforð um nein ný útgjöld eða hluti af því tagi. Ég var ekki endilega að gagnrýna það eða vænta þess að á ferðinni væru einhver einhliða loforð af hálfu ríkisstjórnarinnar um stóraukin ríkisútgjöld, en einhverjar tilfærslur eða aðgerðir, einhverjar breytingar sem menn hefðu talið koma málinu til góða, hafa jákvæð áhrif á verðlagsþróunina og/eða koma til móts við launamenn og bæta kaupmátt þeirra eða treysta stoð þeirra að einhverju leyti. Það hefði maður frekar átt von á að sjá í þessum tillögum. Eins og ég segi, það sem mér finnst einna athygliverðast við þetta mál er að þessi yfirlýsing skuli vera tóm í raun og veru þangað til þá 1. maí ef vel tekst til.

Herra forseti. Ég hef eingöngu dregið athyglina að því að eins og verðbólgan er núna og hefur verið undanfarna mánuði --- ég styðst þar beint við gagnagrunn Hagstofunnar og ég tel að ég hafi farið þar rétt með allar tölur. Ég er með þær hér í höndunum --- þarf að ganga mjög vel strax á fyrstu mánuðum næsta árs til að þetta takist. Verðbólgan þarf að helmingast a.m.k. strax í janúar, febrúar, mars því að ekki verður hún núll. Það er óraunhæft að reikna með því að hún verði núll í apríl og maí. Við vonum auðvitað að þetta takist. Það þarf að ganga ákaflega vel og það sem ég bið fyrst og fremst um er að ríkisstjórnin fari varlega í hugmyndir um erlendar lántökur til að dæla inn í hagkerfið.