Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 12:59:11 (3342)

2001-12-14 12:59:11# 127. lþ. 55.13 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[12:59]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er tvennt. Ég sagði ekki eða ég vona a.m.k. að ég hafi ekki sagt að hv. þm. hafi farið vitlaust með tölur, þ.e. vitlaust með þær tölur sem hann valdi. Ég sagði eingöngu að hann hefði getað valið aðrar tölur aðeins nær í tímanum. Það var það sem ég nefndi.

Svo má vera að ég hafi líka sagt að ríkissjóður væri ekki að dæla inn neinum útgjöldum vegna þessara aðgerða en það er ekki rétt því að auðvitað mun grænmetisþátturinn kosta eitthvað á þriðja hundrað milljónir króna miðað við heilt ár. Það eru að vissu leyti miklir peningar og auðvitað þarf það að koma til kasta manna hér þegar sú ákvörðun verður endanlega tekin. Hugsunin í því dæmi er þó sú að sá samningur eða sú aðgerð, sem væntanlega yrði bundin til árabils, til að mynda tíu ára, væri þó þannig að á henni væri ákveðinn flái þannig að það væri hvatning fyrir grænmetisframleiðendur að ná fram hagræðingu meðan á því tímabili stæði.