Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 13:02:20 (3344)

2001-12-14 13:02:20# 127. lþ. 55.13 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[13:02]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Mig langar að minnast örstutt á frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, svokallaðan bandorm. Enn og aftur vil ég fjalla örlítið um 9. gr. til að gera það ljóst að ástæðan fyrir því að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggst gegn því að 24. gr. laga um heilbrigðisþjónustu falli brott er sú að við viljum styrkja sjúkrahótelin og efla þá þjónustu. Við viljum hins vegar gera það á annan hátt en að fella þau undan skilgreiningu um sjúkrahús þannig að hægt sé að taka gjald fyrir fæði af hverjum þeim sjúklingi sem er á sjúkrahótelinu. Við viljum heldur að starfsemin verði styrkt og farið verði að beiðni Rauða kross Íslands og greitt fyrir fleiri daggjaldapláss en gert er í dag. Það liggur fyrir beiðni um 20 pláss til viðbótar. Rauði kross Íslands hefur leyfi fyrir 28 plássum. Nýtingin er allt að 40 plássum að meðaltali og að sjálfsögðu þarf Rauði kross Íslands að fá greitt fyrir þann umframkostnað. Við leggjum því til að þetta verði áfram inni til þess að styrkja starfsemina.

Máli mínu til rökstuðnings vil ég vísa til laga um heilbrigðisþjónustu, 23. gr. sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Sjúkrahús eru í lögum þessum hver sú stofnun sem ætluð er sjúku fólki til vistunar og þar sem læknishjálp, hjúkrun og allur aðbúnaður er í samræmi við það sem þessi lög og reglugerðir þar að lútandi krefjast.``

Svo vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp skilgreiningu á þeim störfum sem hjúkrunarfræðingum er ætlað að sinna á hóteli Rauða krossins. Þau eru eftirfarandi:

,,Störf hjúkrunarfræðings felast einkum í eftirliti með heilsufari og líðan sjúklinga, viðbrögðum í neyðartilvikum, ráðgjöf, stuðningi, sálgæslu og tengslum við þá aðila sem veita sjúklingum meðferð. Hjúkrunarfræðingarnir sinna almennri hjúkrun þeirra sjúklinga sem á henni þurfa að halda, svo sem böðun, en áhersla er lögð á að þetta er ekki sjúkradeild, heldur sjúkrahótel. Eftir að hjúkrunarfræðingar voru ráðnir til starfa við sjúkrahótelið hafa hjúkrunarfræðingar sem sinna heimahjúkrun ekki þurft að koma þar inn með sína þjónustu. Hins vegar fá þeir sjúklingar sem þurfa sjúkrahústengda heimaþjónustu, svo sem konur eftir brjóstatöku sem þurfa mjög sérhæfða aðstoð við sáraskiptingar þá þjónustu frá Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.``

Herra forseti. Þau störf sem nú eru unnin inni á sjúkrahótelinu falla alfarið undir skilgreiningu á starfsemi sjúkrahúsa. Ég tel að með þessu sé verið að fórna miklu fyrir minna, þ.e. 10 millj. kr. af rekstri heilbrigðisþjónustunnar er ekki það há upphæð að hún skipti máli. Aftur á móti mun þessi breyting skilja sjúkrahótelið eftir í lausu lofti, hugsanlega skera á þá tengingu sem er á milli Landspítalans og sjúkrahótelsins. Ég veit ekki, herra forseti, hvort eða hvernig Landspítalinn getur eftir þessa breytingu réttlætt að greiða þrjú og hálft stöðugildi hjúkrunarfræðinga við sjúkrahótelið, sé það ekki lengur skilgreint sem starfsemi sjúkrahúsa. Ég held að með þessu séum við hugsanlega að setja í uppnám starfsemina sem fyrir er í stað þess að efla hana. Ég harma þessa gjörð. Það væri nær að styrkja þessa starfsemi, efla sjúkrahótelið en vitaskuld að láta ekki kostnaðinn lenda á Rauða krossinum. Þetta er heilbrigðisþjónusta sem við eigum að efla.