Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 13:07:53 (3345)

2001-12-14 13:07:53# 127. lþ. 55.14 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, SvH
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[13:07]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er auðvitað svo að um þetta mikla örlagamál hefði verið ástæða til þess að setja á langa og ítarlega tölu. Hins vegar hefur verið samið um niðurskurð umræðna í jólaönnum hins háa Alþingis. Ég verð við því að lengja ekki ræðu mína um of, einnig með tilliti til þess að gefin hefur verið út yfirlýsing um að heildarendurskoðun fiskveiðistjórnarlaganna, sem að vísu hefur margoft verið lofað áður, komi fram á hinu háa Alþingi mjög fljótlega eftir áramót. Þá gefst tími til að gera þessu máli ítarlegri skil. Enda er það svo að það lagafrv. sem hér er til umræðu er aðeins lítill angi af fiskveiðistjórninni en þó örlagaríkur að sínu leyti.

Hér er verið að reka nagla í líkkistu athafnafrelsis í aðalatvinnuvegi þjóðarinnar. Þeir sem negla sem ákafast er einkaframtaksflokkurinn, Sjálfstfl. og athafnafrelsisboðberinn mikli. Hann er þarna að setja smábáta inn í stóra braskkerfið og hindra þannig að menn geti bjargað sér og sótt sinn eigin sjó. Allt er þetta með miklum ólíkindum en minn gamli flokkur hefur gengið lénsherrunum á hönd. Það er rétt að menn fari að gera sér grein fyrir því að þeir hafa gengið sægreifunum á hönd og láta stjórnast af þeim. Auðvaldið á öll undirtök í mínum gamla flokki sem einu sinni fylgdi frjálslyndi og frelsi til orða og athafna. Sú skoðun er þar ekki lengur við völd.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að vitna til orða veðurstofustjóra, Magnúsar Jónssonar, sem gætu gjarnan verið mottó þessa máls. Hann segir:

,,Ég tel fiskveiðistjórn síðasta áratugar mesta samfélagslega ógæfuverk sem framið hefur verið í sögu þjóðarinnar.``

Sagt er að sá valdi miklu sem upphafinu veldur. Það má auðvitað rekja aðallega til þeirrar stofnunar sem hefur verið ráðgefandi fyrir ríkisstjórnir Íslands nú í 25 ár eða nærri 30, Hafrannsóknastofnunar. Ásgeir Jakobsson sem var þrautkunnugur íslenskum sjávarútvegi skrifaði 19 greinar á 20 ára tímabili þar sem hann fylgdist með og gagnrýndi störf Hafrannsóknastofnunar. Þær greinar eru nýkomnar út í bók og þingmenn ættu að gera hana að skyldulesningu sinni á jólahátíðinni, sérstaklega þeir sem ættaðir kunna að vera úr Bolungarvík því að þar á þessi maður rætur sínar. Hann rífur þar jafnóðum niður allar ráðagerðir Hafrannsóknastofnunar svo ekki er eftir á þeim rífanda ræksn. Hann sýnir fram á að allt sem þeir hafa lagt til hefur endað í skötulíki.

Hann rifjar upp veiðireynslu okkar á 22 ára tímabili, frá 1950--1972. Samkvæmt þeim tölum sem hann birtir var jafnstöðuafli þorsks á þessum 22 árum árlega 438 þús. tonn, sveiflaðist aðeins yfir 500 þús. tonn og niður í 380--390 þús. tonn. Þetta var jafnstöðuafli þorsks. Af því skyldu menn geta dregið þá ályktun að þetta væri meðalaflinn sem þorskslóðin gæti gefið af sér ef hún fengi að vera í friði. Á þessu tímabili var engin Hafró, þá var engin verndarstofnun til málamynda. Þá gengu menn til veiða eins og hverjum sýndist. Þar á meðal voru töluvert af þeim tíma erlend veiðiskip hér við veiðar.

Raunin er sú að að kerfið sem átti að vernda fiskinn hefur brugðist með öllu. Það eru hvergi til minnstu rök fyrir því að það hafi gert nokkurt gagn, mun fremur hið þveröfuga. En þetta hefur náttúrlega verndað lénsherrana. Það eina sem þetta kerfi hefur verndað eru sægreifarnir.

Hv. 5. þm. Vestf. lét taka við sig viðtal í blaðinu Bæjarins besta, á Ísafirði. Hann er samþingsmaður hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar og hann birtir hér, og það er engin smáræðisfyrirsögn:

,,Ef við sættumst við fiskveiðistjórnkerfið á bolfiskinum eins og það er í dag, þá erum við dauðir.``

(Forseti (ÍGP): Má ég minna hv. þm. á að ef um beina tilvitnun er að ræða þarf til þess leyfi forseta.)

Já, en hann hefur samt vonandi skilið þetta þó að ég hefði ekki fengið til þess leyfi hans. Að þessu mun ég gá, herra forseti. Ég vona sannarlega að hv. þm. hafi ekki tekið forskot á þá sælu þó hann sjái sér ekki fært að vera við þessa umræðu. En hann hefur vikapilt til þess arna, hv. þm. Einar Guðfinnsson, sem gengur undir þessum ósköpum en talar tungum eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Þeir segjast ekki vilja þetta, segjast vera andstæðir því og fara um það mjög mörgum orðum.

[13:15]

Nei, í þessari röksemdafærslu svokallaðri sem fyrirsvarsmenn núverandi fiskveiðistjórnarkerfis hafa uppi er ekkert að finna annað en rangfærslur og blekkingar. Og til að mynda í niðurstöðu meiri hluta hinnar svokölluðu endurskoðunarnefndar er margoft á hverri síðu tekið fram hver aðaltilgangur endurskoðunarinnar væri. Aðalhlutverkið er að gá að byggðum landsins, tillögur hennar ganga út á að bjarga byggðum landsins og atvinnunni þar. Þetta má heita að megi lesa tvisvar, þrisvar á hverri blaðsíðu í því makalausa plaggi sem meiri hluti þeirrar nefndar sendi frá sér. Mig langar að lesa úr því, með leyfi forseta:

,,Í lögum um stjórn fiskveiða segir að markmið þeirra sé að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna á Íslandsmiðum og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.``

Þetta gengur hér aftur, eins og ég segi, margsinnis á hverri síðu. Það þarf meira en lítinn kjark til að halda því að mönnum að tilgangur laga um stjórn fiskveiða, eins og þau hafa verið í framkvæmd, sé sá að bjarga byggðum landsins og efla atvinnu á þeim stöðum.

Þetta kerfi á að tryggja hagkvæmni fiskveiðigreinarinnar. Hvernig hefur það gengið? Og hagræðing átti sérstaklega að vera afleiðing framkvæmdar þessarar stefnu. Í hverju birtist hagkvæmnin og hagræðingin? Kannski í því að skuldir sjávarútvegsins hafa aukist stjarnfræðilega með stjarnfræðilegum tölum. Það er ekkert leyndarmál að það gífurlega gengishrun sem hér hefur orðið er til þess gert að rétta við hag útgerðar, fiskveiðanna. Þeim hélt við stöðvun gjörsamlega af því að út úr þessari grein hefur verið hrammsað, ekki tugi milljarða heldur e.t.v. hundruð milljarða, og útvegurinn skilinn eftir með skuldir á bakinu, og útflutningsvara hans aukin um milli 30 og 40% með þessum aðferðum, þessum gömlu aðferðum sem núverandi stjórnvöld segja að þau ætli aldeilis ekki að grípa til.

Þetta átti að vera til þess að minnka flotann sem sannarlega er of stór. En hver er niðurstaðan? Stóraukinn floti og stóraukið vélarafl með auknum flota, nýjasta veiðitækni sem tekur því sem áður var langt fram í afköstum, og atgangurinn eftir því á miðunum.

Þessi fiskveiðistjórn hefur líka borið í skauti sér að brottkast er tíðkað á miðunum með ógnvænlegum hætti, hreint og beint ógnvænlegum hætti svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Hér segja menn, Hafrannsóknastofnun og aðrir sem halda uppi áróðri fyrir fiskveiðistjórnina, að þetta sé tiltölulega lítið vandamál. Ég hef það fyrir satt að inni í reiknilíkani Hafrannsóknastofnunarinnar sé reiknað með 10 þús. tonnum af brottkasti. Mér er nær að halda að þetta sé aðeins til málamynda og ég óttast að það sé margfalt meira. Ég leyfi mér reyndar ekki að fullyrða heldur hlýt að hallast að því að einn þekktasti fiskiskipstjóri landsins, Hrólfur Gunnarsson, hafi haft nokkuð til síns máls þegar hann hélt því fram um árið að brottkast aflans væri 200 þús. tonn á ári.

Verndun þessarar fiskveiðistefnu er með þeim hætti að botnfisksaflinn hefur minnkað ár frá ári, ekki eingöngu þorskaflinn, ýsuaflinn 40% minni sem þeir telja óhætt að veiða og ufsinn 60%. Svo segir auðlindanefnd á einum stað að tiltölulega vel hafi gengið um vöxt og viðgang fiskstofna, ,,sumra fiskstofna`` segja þeir að vísu.

Þetta er niðurstaðan --- að því er virðist --- en ekki er kannski allt sem sýnist, og er kannski ekki nógu gott hvernig sem á málið er litið. Það skyldi þó ekki vera að þorskslóðin gæti gefið af sér þann jafnstöðuafla sem hún gerði í 22 ár, 430 þús. tonn? Hvað þýðir þetta þá ef sú er raunin? Það þýðir annað tveggja: Fiskurinn fær að synda áfram í sjónum, og það er auðvitað trúlegt að mörgu leyti eins og ráðagerðir Hafrannsóknastofnunar yfirleitt eru, eða honum er hent. Hún hefur reynst okkur dýr, Hafrannsóknastofnunin, í gegnum árin. Það verður ekki með tölum talið.

Svo bar til árið 1999, þegar í hönd fóru kosningar, að þeim leist ekki á, foringjunum, formanni Sjálfstfl. og Framsfl., af því sem skoðanakannanir bentu til að þjóðin væri að miklum meiri hluta mjög andvíg þessari stefnu í fiskveiðistjórn. Þá var brugðið á það ráð að taka upp tillögu Alþýðubandalagsins heitins og samþykkja að nefnd væri komið á fót, níu manna eða hvað það nú var, sem ætti að endurskoða löggjöfina. Það var þó skýrt tekið fram af þessum foringjum að niðurstaðan mætti ekki hrugga við grundvallarforsendum stefnunnar þannig að þetta var augljós blekking, kosningahræðsla til að skjóta skildi fyrir augu kjósenda fyrir raunveruleikanum og staðreyndunum.

Þeir ætluðu sér aldrei að breyta neinu enda er svo komið að þeim hefur tekist að láta starfsmenn sína og fleiri reyndar þræða veginn á þann leiðarenda að allt verði óbreytt. Meðal annars gáfu þrír fulltrúar Samfylkingarinnar þeim færi á því. Auðvitað var komið inn í álit auðlindanefndar því kerfi sem þeir óska eftir, og undirskrifað fyrirvaralaust af fulltrúum Samfylkingarinnar.

Batnandi mönnum er best að lifa og rétt er það að Samfylkingin hefur mjög breytt um skoðun, a.m.k. frá því sem þessir fulltrúar höfðu, og nú þegar Samfylkingin þykist hafa kveðið sjávarútvegslilju landsins eru það a.m.k. þessir þrír fulltrúar sem ekki hafa átt þátt í þeim kveðskap. Það virtist, meðan þeir störfuðu í þessari nefnd, sem kalin væru af þeim öll brageyru.

Hér hlustaði ég á hv. þm., Lúðvík Bergvinsson, gefa þá skýringu að þeir hefðu, samfylkingarmenn, skrifað undir þetta til að allir gætu skrifað undir auðlindaskýrsluna. Það var sérkennilegt í meiri máta því að tveir fulltrúar atvinnurekenda völdu úr þá stefnu sem þeim hafði verið fyrir lagt að koma þarna fyrir inni í nefndarálitinu. Og nú gengur enda sjútvrh. hæstv. eftir því við Samfylkinguna að þau standi við undirskrift sína og standi skil á því sem þau skrifuðu undir athugasemda- og fyrirvaralaust. Það er ekki að undra. En ég ítreka að það er fagnaðarefni að Samfylkingin hefur breytt að þessu leyti um stefnu og það er enginn vafi á því að mest áhrif í því efni hafði hv. þm. Jóhann Ársælsson.

Síðan kom að því að skipuð var hin svonefnda endurskoðunarnefnd sem ég ætla að geyma mér að víkja að því að ekki er það skemmtilesning og mönnum ekki bjóðandi þegar jólahátíðin fer í hönd.

Hér segir í inngangi meiri hlutans, með leyfi hæstv. forseta:

,,Nefndinni ber að taka tillit til hagsmuna sjávarútvegsins, byggðanna og almennings í landinu í starfi sínu.``

Þarna kemur það fram í fyrsta skipti af þúsund hvert markmiðið sé.

Svo segir áfram, með leyfi forseta:

,,Markmið breytinganna er að ná fram sem víðtækastri sátt landsmanna um fiskveiðistjórnarkerfið. Þess skal þó gætt að fórna ekki markmiðum um skynsamlega nýtingu og bætta umgengni um auðlindir sjávar né heldur raska hagkvæmni og stöðugleika í greininni.``

Þessi síðasti hluti er fyrirmæli um að halda skuli óbreyttu kerfi enda ganga tillögur meiri hlutans allar út á það, út í hörgul.

Við skulum líta á hvað hv. þm. Jóhann Ársælsson segir um niðurstöðuna af starfi nefndarinnar. Hann segir svo, með leyfi forseta:

,,Þverklofin sáttanefnd færir ekki þjóðinni friðsamlega lausn á miklu deilumáli. Eftir hin miklu loforð til kjósenda um sættir í þessu stórmáli eru þær fyrirætlanir stjórnvalda að festa einokunina í sessi og gefa handhöfum kvótans enn meira frelsi til að fara með auðlind þjóðarinnar sem sína eign orðnar ljósar. Þær eru ótrúlegar, jafnvel frá þeim sem nú fara með völdin, og munu enn auka þær hatrömmu deilur sem staðið hafa um þetta mál.``

Þannig tókst meiri hluta nefndarinnar að fara að þeim markmiðum og tilgangi sem honum var falið, vegna þess að þetta blasir við, hér eru engar ýkjur á ferðinni. Áfram, með leyfi forseta:

,,Það eru mikil vonbrigði að sjá starf þessarar nefndar bíða skipbrot vegna þess að ekki reyndust innstæður fyrir þeim loforðum um sættir sem forustumenn stjórnarflokkanna gáfu í aðdraganda síðustu kosninga. Þegar upp er staðið frá þessu starfi er ljóst að meiri hlutinn hefur leitað sátta sem forustumenn LÍÚ vildu una við en ekki þjóðin.

Formaður nefndarinnar ásamt skrifstofustjóra iðnaðarráðuneytisins og tveir þingmenn Sjálfstfl. skila meirihlutaáliti með þeirri niðurstöðu að framlengja ríkjandi ástand, og vonarpeningur í lítils háttar auðlindargjaldi er notaður sem skálkaskjól til að koma á breytingum sem stórútgerðin hefur pantað hjá ríkisstjórninni. Um þessa niðurstöðu verður enginn friður. Aðrir nefndarmenn leituðu sátta á grundvelli fyrningarleiðar en þær náðust ekki vegna þess að stjórnvöld vilja ekki hvika frá því einkaeinokunarfyrirkomulagi sem gildir um úthlutun veiðiréttar.``

Af því sem þarna kemur fram sem rétt er, að auðlindagjald á nú að nota sem skálkaskjól til að festa kerfið enn þá betur í sessi, hef ég ævinlega haldið því fram að í lagagerð Íslands væru nóg ákvæði til að leggja skatta á útgerð sem aðra, eins og sanngjarnt er og útgerðin þolir. Til hvers er þá fundinn upp þessi málamyndaauðlindaskattur? Til þess auðvitað að skýla tilganginum. Þetta er allt í þykjustunni enda á að leggja niður gjöld í Þróunarsjóð nokkurn veginn jafnhá. Hvaða ástæða er til að leggja einhvern hátekjuskatt á útgerðina í landinu? Eins og þetta er útfært af meiri hluta nefndarinnar er þetta greinilega hátekjuskattur.

[13:30]

Allt er þetta gert til málamynda, til þess að hlæja að því, af því að þetta eru rökþrota menn sem þarna eru á ferðinni og verða að nota öll hálmstrá sem þeir ná í. En þetta er of veikt til þess að venjulegt fólk ætti að taka á því hið minnsta mark.

Herra forseti. Ég stytti mál mitt að þessu sinni. En mér sýnist sem hæstv. ríkisstjórn hafi endanlega kastað stríðshanskanum. Auðtrúa menn hafa kannski hangið í þeirri von að úr rættist en það hefur sá ekki gert sem hér stendur. Hann hefur allan tímann verið sannfærður um að þetta ætti að berja í gegn, afhenda ætti aðalauðlind Íslands örfáum útvöldum og því stjórnuðu mennirnir sem fylla flokk sem telur sig vera flokk hins frjálsa framtaks, einkaframtaksins, þó að þeir loki með þessu aðalatvinnustétt landsins fyrir allri nýliðun.

En sú von er úti með öllu að stjórnvöld hyggi á að breyta til um aðferðir sínar. Að sínu leyti markar lögfesting frv. nokkur tímamót. Allt fram undir þetta hafa menn verið að velta fyrir sér hvort endurskoðun laganna kæmi fram sem einhverju máli skiptir. Hér er aðeins verið að negla einn naglann til viðbótar í líkkistu frelsisins að sækja sinn eigin sjó.

Hitt er svo annað mál að ekki er komið að því að þeir sem sjá gallana, þeir sem sjá yfirtroðsluna, þeir sem sjá gerræðið, slaki á klónni í baráttu sinni. Það verða aldrei gefin nein grið fyrr en ólögin í stjórn fiskveiða verða brotin á bak aftur. Svívirðan og yfirgangurinn er með þeim hætti að öll meðul eru leyfileg, enda verður þeirra neytt. Og svo ég, herra forseti, fari aftur með það mottó sem menn þyrftu að læra, frá veðurstofustjóranum: ,,Ég tel fiskveiðistjórn síðasta áratugar mesta samfélagslega ógæfuverk sem framið hefur verið í sögu þjóðarinnar.``