Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 14:07:27 (3349)

2001-12-14 14:07:27# 127. lþ. 55.14 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, GAK
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[14:07]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við erum nú að ljúka umfjöllun um það að taka á hluta fiskveiðistjórnar hér við land sem hefur eingöngu snúist um að ræða og framkvæma þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur viljað koma yfir smábátaveiðarnar þar sem meginstefnan er sú að færa veiðikerfi smábátanna inn í sama eða mjög svipað kvótakerfi og gilt hefur um stærri hluta flotans.

Um þetta hafa auðvitað verið mjög deildar meiningar á Alþingi. Almennt má segja að stjórnarandstaðan sé andvíg því að fara leið kvótasetningarinnar og binda kerfið niður inn í það verslunarkerfi milli manna í útgerð sem byggt hefur verið upp með framsali kvótans, aflamarksins innan ársins annars vegar og aflahlutdeildarinnar, svokallaðrar varanlegrar sölu á aflaheimildum hins vegar.

Ekki þarf að endurtaka í löngu máli að sá sem hér stendur, ásamt hv. þm. Karli V. Matthíassyni og hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni, flutti hér tillögu um að standa öðruvísi að málum. Hún var felld í atkvæðagreiðslu við 2. umr. Þá liggur fyrir hvert stefnt verður eftir þá vegferð sem stjórnarflokkarnir hafa mótað í þessu máli. Um þetta er grundvallarágreiningur. Stjórnarflokkarnir vilja fara hina svokölluðu kvótasetningarleið og stýra fiskveiðum með kvótasetningum. Það vildum við ekki heldur viðhalda þorskaflahámarkinu á krókabátunum og síðan dagakerfinu.

Dagakerfið er hins vegar í þessu frv. frá ríkisstjórninni að því er nær að handfærabátum, þ.e. þeim bátum sem veitt hafa í 23 daga með handfærum á hverju ári. Og nú fá hinir svokölluðu 40 daga menn sem höfðu veiðiheimildir með 30 þorsktonnum að velja hvort þeir fari í það kerfi eða í krókaaflahlutdeildarkerfið.

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að ég er hér með litla brtt. sem ég tel að sé hreinlega praktískt atriði miðað við það sem búið er að samþykkja á hv. Alþingi. Það skýrist sennilega best með því að ég vitni í nál. meiri hlutans, en í nál. meiri hlutans segir að fyrir 1. febrúar nk. hyggist meiri hlutinn leggja fram tillögur sem taki á hinu svokallaða dagakerfi smábátanna sérstaklega og rekstrarumhverfi þess bátaflokks á þessum vetri og muni beita sér fyrir því að frv. þess efnis verði lagt fyrir Alþingi 1. febrúar.

Herra forseti. Hins vegar stendur í einni frumvarpsgreininni sem samþykkt var við 2. umr. að þeir menn sem áður voru í 30 tonna kerfinu með 40 dögum eigi að velja fyrir 1. febrúar. Þetta finnst mér stangast dálítið á og finnst hreinlega eðlilegt og praktískt atriði að þeir sem eigi að fá að velja dagakerfið eigi að fá nokkurn aðlögunartíma eftir að stjórnarmeirihlutinn hefur sýnt þær tillögur sem hann hyggst koma fram með fyrir 1. febrúar. Þess vegna hef ég lagt fram brtt. um að dagsetning sú sem segir að menn eigi að velja fyrir 1. febrúar verði færð aftur til 15. febrúar þannig að það sé alveg ljóst, hvar svo sem menn búa á landi hér, þá gefist þeim nokkurt ráðrúm til þess að velja eftir að stjórnarmeirihlutinn hefur komið fram með þær tillögur sem hann hyggst leggja fram, þ.e. að þeir hafi alla vega 15 daga, ef staðið verður við þessa dagsetningu um að leggja fram nýjar tillögur fyrir 1. febrúar þá hafi menn hvar sem þeir búa, hvort það er á Ströndum eða norðausturhorni landsins, tækifæri til að velta málunum fyrir sér í eina 14, 15 daga áður en þeir velja í hvort veiðikerfið þeir vilja fara, 23 daga veiðikerfið sem núna er 21 dagur, eða í veiðikerfi krókaaflamarksins. Ég held að menn sjái þetta þegar það er sett í það samhengi að þetta sé einfaldlega bara eðlilegt og ég vonast til þess að menn geti tekið undir það að þannig sé þessum málum betur fyrir komið, þ.e. að menn hafi smáaðlögun til að sjá það sem þeir hafa um að velja.

Ég vil hins vegar segja almennt, án þess að lengja mikið mál mitt nú við lokaumræðu þessa máls, að ég tel að að því muni koma, í síðasta lagi í næstu alþingiskosningum, að þjóðin fái að taka afstöðu í þessu máli, fái hreinlega að taka afstöðu til þess hvort það sé vilji meiri hluta þjóðarinnar að halda þessu máli, kvótastýringarmálinu og stjórn fiskveiða með kvótakerfi, almennt í þeim farvegi sem það hefur verið og hefur verið að þróast á undanförnum árum, þ.e. að þar eigi ákveðnir menn, ákveðinn hópur manna í þjóðfélaginu að eiga auðlindina syndandi í sjónum þrátt fyrir ákvæðið í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða um að þjóðin eigi þessa auðlind, og að við séum að taka ákvarðanir á hv. Alþingi um það að útdeila kvótum sérstaklega á skip einstakra útgerðarmanna til þess að hafa stýringu á fiskveiðunum.

Ég vil svo segja líka að ég tel að í hvaða fiskveiðistjórnarkerfi sem við munum vinna í framtíðinni þá sé brýn nauðsyn að skipta flotanum upp í aðgreinda útgerðarflokka. Og þá er alveg sama hvort menn hugsa sér kvótakerfi, sóknarkerfi eða það kerfi að nálgast aflaheimildir með stýrðu uppboði. Menn verða að skipta flotanum upp í aðgreinda útgerðarflokka. Það er engan veginn hægt að halda því fram með skynsemi að við Íslendingar einir eigum að vera með það stýrikerfi að reyna að stjórna trillunni með svipuðum eða sams konar aðferðum og frystitogaranum eða verksmiðjunótaskipinu. Engin þjóð sem ég þekki til á norðurhveli jarðar hefur farið þessa leið. Norðmenn eru með uppskipt kerfi stýringar eftir stærðum skipa og eftir því hvort talað er um strandveiði eða veiði stærri togskipa. Færeyingar eru með slíkt kerfi. Ég tel að allar þjóðir hér í kringum okkur séu með einhvers konar flotaskipt kerfi. Ég held að þjóðin hljóti að átta sig á því að það verður eitt af því sem menn þurfa að taka afstöðu til og svo verða menn náttúrlega sérstaklega að taka afstöðu til þess, í síðasta lagi í næstu kosningum, eins og ég sagði, hvort þjóðin ætli að sætta sig við að þessi auðlind hennar verði bundin til framtíðar eignaböndum fárra og verði lokuð atvinnugrein þar sem þjóðin fær litlu um það ráðið hvort atvinna helst í hinum dreifðu byggðum landsins eða ekki.